Morgunblaðið - 26.04.2006, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 26.04.2006, Blaðsíða 28
28 MIÐVIKUDAGUR 26. APRÍL 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Herbert Gränzfæddist á Sel- fossi hinn 15. júní 1986. Hann lést hinn 17. apríl síðastlið- inn. Foreldrar hans eru Rúnar Jakob Gränz, f. í Kópavogi 20.2. 1951, og Svava Guðmundsdóttir, f. í Reykjavík 21.3. 1951. Systkini Her- berts eru Elín Gränz, f. 21.5. 1974, og Karl Jóhann Gränz, f. 10.3. 1976. Foreldrar Rúnars eru Erla Jak- obsdóttir, f. 6.1. 1932, og Herbert Gränz, f. 12.4. 1930. Foreldrar Svövu eru Elín Einarsdóttir, f. 12.10. 1913, d. 2.7. 2003, og Guð- mundur Guðgeirsson, f. 24.8. 1915, d. 24.5. 1987. Rúnar og Svava slitu samvistum. Herbert gekk í Grunnskóla Sel- foss og lauk þaðan námi. Einnig stund- aði hann nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og Iðn- skólann í Reykjavík en hugur hans stefndi til náms í rafmagnsfræðum. 18 ára flutti Herbert til Reykjavíkur og hélt heimili með systur sinni, en eftir að hún hélt utan til náms leigði hann hjá fölskylduvini í Kópavogi. Herbert vann verslun- arstörf, áður í fríum og með skóla, lengst af hjá Bónus bæði á Selfossi og í Reykjavík en hann hafði ný- verið hafið störf sem sölumaður hjá Vífilfelli. Útför Herberts verður gerð frá Selfosskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 11. Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm, er verður að hlíta þeim lögum að beygja sig undir þann allsherjar dóm, sem ævina telur í dögum. Við áttum hér saman svo indæla stund, sem aldrei mér hverfur úr minni. Og nú ertu genginn á Guðanna fund, það geislar af minningu þinni. (Friðrik Stgr.) Fyrst þín för, sem við öll förum, varð að vera svo skyndileg þá hugga ég mig við það, Hebbi minn, að góðir gengnir ættingjar þínir muni taka vel á móti þér. Farðu í Guðs friði Þinn elskandi faðir, Rúnar Gränz. Sagt er að vegir Guðs séu órann- sakanlegir og að tíminn lækni flestöll sár en elsku Hebbi bróðir, sársaukinn og söknuðurinn sem hefur heltekið okkur við snemmbúna brottför þína mun seint hverfa. Það reynist okkur svo erfitt að meðtaka þá staðreynd að við sjáum þig ekki aftur, heyrum ekki lúmskan húmor þinn eða finnum fyrir hlýju þinni og góðmennsku. Við get- um einungis verið þakklát fyrir þær stundir sem við áttum með þér og all- ar þær góðu minningar sem þú hefur gefið okkur með nærveru þinni. Ég (Ella systir) minnist þess góða tíma sem við áttum saman þegar þú bjóst hjá mér í Reykjavík, tími sem nú er svo dýrmætur og mun ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð. Þú varst svo duglegur, samtímis í fullu námi og mikilli vinnu en gafst þér þó alltaf tíma, þegar þú komst þreyttur heim á kvöldin, til að spjalla við mig um heima og geima. Sérstaklega þótti mér gaman að grallarasögum af ykkur vinunum. Þú hringdir stundum í mig í vinnuna þegar við bæði vorum búin að hittast lítið og tilkynntir mér að nú yrði sko kósý kvöld og þú ætl- aðir að elda hakk og spagettí. Þessi kvöld voru afar ljúf og góð. Þú hafðir alveg sérstakt lag á að létta manni lundina með skemmtilegum gullmol- um sem margir hverjir munu lifa góðu lífi innan fjölskyldunnar og sér- staklega er mér minnisstæð setning- in þegar þú varst að fara út í búð fyrir mig og sagðir: „Sko, meðan ég hugsa í hundraðköllum þá hugsar þú í þús- undköllum.“ Sumarið 2005 heimsóttir þú mig (Kalla bróður) til Svíþjóðar og höfð- um við þá ekki hist í heilt ár. Var því sú samvera okkar ómetanlega dýr- mæt. Við reyndum ítrekað að vinna risa-toblerone í lukkuhjólinu Lise- berg en án árangurs og því heiti ég því að reyna áfram í sumar og trúi því og treysti að báðir tveir munum við liggja afvelta af súkkulaðiáti sinn í hvorri heimsvíddinni. Takk fyrir öll símtölin til Gautaborgar og þessar skemmtilegu en gefandi umræður sem við áttum. En eins og þín var von og vísa þá var húmorinn í hávegum hafður og minnist ég þess að hafa lát- ið einhver orð falla um græn-skræp- ótta Hawaii-skyrtu í H&M og það var eins og við manninn mælt, þú tókst ekki annað í mál en að kaupa skyrtu- garminn. Þegar Ella náði svo í þig út á flugvöll eftir ferðina, þá varstu að sjálfsögðu í grænu skyrtunni og spurðir hana stoltur hvort henni lík- aði ekki liturinn. Þegar hún sagði brosandi að þetta væri nú ekki henn- ar smekkur þá hváði í þér að hún kynni nú bara ekki gott að meta enda um gæðaskyrtu að ræða og glottir við tönn. Kæri litli bróðir, sem reyndar var einhverjum sentimetrum stærri en sá stóri, takk fyrir þennan tíma sem við áttum saman en þú verður ávallt í hjarta mínu og þú verður ávallt minn litli bróðir sem ég var mjög stoltur af að eiga. Elsku Hebbi okkar, þrátt fyrir að við kveðjum þig að þessu sinni þá munum við ávallt minnast þín í okkar daglega amstri og varðveita allar yndislegu minningarnar sem þú hef- ur gefið okkur. Við vonum að þér líði vel á nýjum stað. Þín systkini, Elín og Karl. Sorgin sem tók við af sjokkinu við þær fréttir að Hebbi frændi væri far- inn er mikil og yfirþyrmandi. Hann var svo ungur með allt lífið framund- an. En þegar við setjumst niður til þess að minnast hans hlýnar manni strax um hjartaræturnar og bros færist yfir varirnar því þannig hefur Hebbi alltaf verið. Hann sjálfur var alltaf brosandi, óhemju kátur og allt- af var ótrúlega stutt í húmorinn. Hann sá góðu og oftast skondnu hlið- arnar í öllum aðstæðum og það sem datt út úr honum fékk yfirleitt alla til að springa úr hlátri. Hebbi var langyngstur af okkur barnabörnunum og hafði því ekki mikið tækifæri til þess að taka þátt í öllum leiksýningunum sem fóru fram á Mánaveginum í jólaboðinu á annan í jólum. Jólaguðspjallið var flutt þar árlega, þrátt fyrir mikinn skort á leik- urum. Vitringum var fækkað niður í þrjá og englaþyrpingin samanstóð af einum engli vegna þess að við vorum svo fá barnabörnin. Þegar Hebbi var fæddur var hann að sjálfsögðu ráðinn í leikhópinn um leið til þess að leika Jesúbarnið, en óþekkara Jesúbarni hefur ekki farið sögum af. Hann gaf þá góða vísbendingu um hvaða mann hann kynni að geyma á eldri árum því hann var alltaf að skríða úr jötunni og gretta sig framan í fullorðna fólkið til að fá það til að hlæja. Á barnsárunum var Hebbi mikill ærslabelgur og átti það til að stökkva upp á borð og hefja upp raust sína í söng. Það skondna var samt að oftast hló hann svo rosalega mikið að sinni eigin vitleysu, með þessum einstaka hlátri sínum, að það var erfitt annað en að hlæja með honum. Það er komið stórt skarð í frænd- systkinahópinn við brotthvarf Hebba „litla“ úr þessum heimi. Við kölluðum hann alltaf Hebba „litla“ þrátt fyrir að hann væri orðinn langstærstur af öllum í fjölskyldunni. Það segir mikið um hvað hann átti alltaf sinn stað í hjarta manns, því hann var alltaf svo einstaklega ljúfur og góður drengur. Hann var einn af þeim sem gott var að biðja um hinar ýmsu reddingar því hann hefði gert allt fyrir mann. Það birti alltaf til þegar hann mætti á svæðið. Það er erfitt að hugsa til þess að þessi einstaki, smitandi hlátur sé horfinn úr heimi okkar en megi minn- ingin lifa að eilífu. Hvíl í friði, elsku frændi. Elsku Rúnar, Svava, Ella og Kalli, amma og afi, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guðrún Erla og fjölskylda, Sævar Þór og Edda Ósk. Í dag kveðjum við bróðurson okk- ar, Herbert, sem svo óvænt kvaddi þennan heim hinn 17. apríl sl. Þegar slíkar fréttir berast er eins og heim- urinn standi kyrr um stund. Tómleik- inn hellist yfir og margar spurningar vakna. En þegar stórt er spurt er fátt um svör. Það eina sem hægt er að hugga sig við er að honum Hebba hafi verið ætlað stærra og meira hlutverk hjá þeim sem öllu ræður. Þannig get- um við kannski sætt okkur með tím- anum við orðinn hlut og horft fram á við. Hebbi „litli“ eins og hann var kallaður í fjölskyldunni, þótt hann væri orðinn stærstur af Hebbunum, já, og reyndar fjölskyldunni allri, var yngsta barn foreldra sinna og jafn- framt yngsta barnabarnið hjá afa og ömmu á Mánó. Þar undi hann oft glaður hjá nafna sínum og ömmu enda Mánavegurinn kjörinn áfanga- staður á leiðinni heim úr skólanum. Auk þess átti amma alltaf eitthvað gott handa svöngum manni og svo var spjallað um allt á milli himins og jarðar, sýslað og bardúsað við eitt og annað. Tómarúmið er því mikið sem hann skilur eftir á Mánó. Herbert var duglegur og góður drengur, hvers manns hugljúfi og vinur vina sinna, enda vinahópurinn stór. Hann var orðvar en orðheppinn og ekki var nú hávaðinn í honum þeg- ar fjölskyldan kom saman. Hann ein- hvern veginn laumaði út úr sér bröndurunum. Alltaf er skemmtilegt að rifja upp söguna þegar hann var lítill snáði og opnaði munninn í fyrsta skipti eftir kirtlatöku. Fyrstu orðin voru svolítið óskýr og torkennileg og þá sagði hann: „Mamma! Ég get orð- ið talað útlensku.“ Ekki verða heldur fleiri hringingar né heimsóknir til frænku í Dælenginu með ósk um klippingu. Þá var sest í gamla stólinn sem hann Gummi rakari afi í Hafn- arfirði átti einu sinni, hárið snyrt og málin rædd. Þessar stundir verða dýrmætar í minningunni. Eitt er víst að jólaboðin á annan í jólum verða aldrei söm. Þín verður svo sannarlega sárt saknað. Um leið og við kveðjum þig, Hebbi minn, og þökkum þér fyrir samfylgd- ina, lofum við því að gera okkar besta til að hjálpa foreldrum þínum, systk- inum og ekki síst afa þínum og ömmu að vinna sig út úr sorginni á þessum erfiðu tímum sem nú fara í hönd. Litla fjölskyldan á Mánaveginum stendur þétt saman og veitir hvert öðru styrk, þótt aldrei verði fyllt í það skarð sem nú hefur verið höggvið í frændgarðinn. Góða ferð, vinur, við vitum að það verður vel tekið á móti þér hinum megin. Minningin um góðan dreng lifir. Eygló og Emma Gränz. Að setjast niður á síðasta degi vetr- ar og þurfa ekki aðeins að kveðja vet- urinn, heldur einnig strák sem fór frá þessum heimi alltof snemma, er eitt það erfiðasta sem við vinkonurnar höfum þurft að ganga í gegnum tíð- ina. Við kynntumst Hebba og vinum hans um síðustu áramót. Við byrjuð- um með tveimur vinum Hebba og urðum strax öll bestu vinir og eydd- um mörgum stundum saman, en ekki datt okkur í hug að nokkrum mán- uðum seinna myndi sorg umkringja þennan vinahóp og við þyrftum að kveðja þennan brosmilda yndislega strák. Það var okkur heiður að fá að kynnast Hebba þó kynnin væru stutt. Það var svo fyndið að horfa á hann segja frá, röddin hækkaði, handa- hreyfingar á fullu og kaffibollarnir á borðinu skutust upp í loftið. Við gæt- um sagt fullt af sögum um Hebba, all- ar fá þær okkur til að hlæja. Við hitt- um Hebba stundum um helgar, og alltaf var hann svo glaður og ánægð- ur að sjá okkur, alltaf fékk maður stórt faðmlag. Síðast sáum við hann síðastliðinn laugardag, við stukkum á hann og föðmuðum. Hebbi sagði við mig: „Farðu vel með þig, Bryndís mín.“ Síðan hvarf hann. Þegar við sitjum og minnumst Hebba með ótal spurningar í hausnum og sorg í hjarta getum við ekki annað gert en brosað, því við minnumst hans sem fyndnasta og brosmildasta stráks sem við höfum kynnst. Þó að erfiðleikarnir streymdu að honum, gat hann þó allt- af brosað og var ekki mikið að sýna aðra hlið á sér en gleði. Vonandi líður þér betur þar sem þú ert nú, hafðu auga með strákunum, þú veist ekki hvað þeir sakna þín mik- ið. Takk fyrir brosin, brandarana, faðmlögin og allar góðu stundirnar. Við ætlum nú að standa saman og styrkja strákana og hver aðra í gegn- um þessa sorg. Hebbi var einn sá besti strákur sem við höfum kynnst, takk fyrir að leyfa okkur að fá tæki- færi til þess að kynnast þér. Við sendum fjölskyldu Herberts innilegar samúðarkveðjur. Megi guð styrkja þau í þeirra miklu sorg. Bryndís og Hrafnhildur. Ég fel í forsjá þína, Guð faðir, sálu mína, því nú er komin nótt. Um ljósið lát mig dreyma og ljúfa engla geyma öll börnin þín, svo blundi rótt. (M. Joch.) Elsku Svava, Rúnar, Kalli og Ella. Megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Arnrún og fjölskylda. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Minningar um Herbert verða ljóslifandi í huga mínum, minn- ingar sem ég hélt horfnar. Minningar um atvik, sem á sínum tíma virtust lítilvægar, verða ógleymanlegar. Ég kynntist Hebba fyrst í skátun- um hér á Selfossi og eftir það varð ekki aftur snúið, við urðum mestu mátar og gerðum ýmis prakkarastrik saman enda var Hebbi þekktur fyrir þau. Ég man eitt sinn um áramót þegar við vorum peyjar, þá príluðum við upp á þakið á gamla húsinu hans í Miðenginu þar sem pabbi hans var að horfa á áramótaskaupið í mestu mak- indum með logandi á arni inni í stofu. Hebbi tók þá upp á því að kasta smá- vægilegum áramótasprengjum ofan í strompinn, brátt urðu hlátrasköll pabba hans yfir skaupinu að skammaröskrum þegar sprengjurn- ar skutust um allt stofugólfið og við veltumst um af hlátri, áður en við flúðum af vettvangi eins og sönnum prökkurum sæmir. Það má vera að Hebba hafi gengið misvel í skóla en öðru máli gegndi um vinnu, hann var kappsamur og hafði gaman af allri þeirri vinnu sem hann tók sér fyrir hendur, enda vinsæll á hverjum þeim vinnustað sem hann vann á. Hebbi bjó yfir fjörugu ímyndunar- afli, hann var gæddur þeim hæfileika að breyta grámyglulegum veru- leikanum í sannkölluð ævintýri, með sínum skemmtilegu skoðunum á hlut- unum og frábærum húmor. Herbert var tryggur vinur og trúr ættingjum sínum, hann var mjög stoltur af fjölskyldunni sinni og þá sérstaklega systkinum sínum, þeim Ellu og Kalla og fór það ekki fram hjá neinum sem varð þeirrar ánægju að- njótandi að þekkja hann í lifanda lífi. Það er sárt að kveðja góðan vin en þrátt fyrir að hann sé ekki lengur á meðal okkar mun minningin um hann ávallt lifa. Ellu, Kalla, foreldrum hans og öðr- um aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Heimir Þór Óskarsson. Elsku Hebbi litli frændi okkar. Nú er þú farinn frá okkar jarðneska lífi inn í annan heim þar sem aðrir taka við þér opnum örmun og gæta þín. Það var sárt að fá fréttirnar af andláti þínu. Við vonum að þér líði vel á þeim stað sem þú ert nú kominn á. Ísgrár steinn lá hjá alfaravegi, hvarf í jörðu með hverjum degi. Fáir vissu, sem fóru um dalinn, að í þessum steini var engill falinn. Ókunnur gestur, sem enginn treysti, engilinn fagra úr fjötrum leysti Sá máttur fylgir meistarans höndum, að leysa fjötraða fegurð úr böndum (Davíð Stef.) Við kveðjum þig, elsku litli frændi, með sorg í hjarta. Guðlaugur og Helena. Það var örugglega sólskin daginn sem þú komst valhoppandi í gúmmí- stígvélunum niður Miðengið örlítið útskeifur og hallaðir undir flatt. Sniðugur og lífsglaður strákur. Einhvern veginn svona finnst mér þetta hafa verið er þú stimplaðir þig inn hjá fjölskyldunni á númer 17. Mér finnst þetta hafa getað verið í gær, já hratt snýst tímans hjól. Herbert eða Hebbi eins og hann var alltaf kallaður var heimagangur hjá okkur öll uppvaxtarár strákanna og þeir hvor hjá öðrum. Við minn- umst hans sem líflegs listræns og skemmtilegs stráks með ótrúlega smitandi hlátur, aldrei lognmolla í kringum þá. Og þegar myndaalbúm fjölskyldunnar eru skoðuð sjást strákar í alls konar skondnum bún- ingum eða að skapa eitthvert frum- legt leikrit á ganginum heima. Já, litlu strákarnir voru orðnir ung- ir menn og lífið blasti við, báðir fluttir suður í vinnu og skóla. Fyrir flestum okkar liggur að ná háum aldri og geta litið yfir farinn veg. Við sem það gerum munum muna góðan dreng sem átti svo margt að gefa og hefði átt að þiggja líka. Enginn veit sína ævi fyrr enn öll er og enginn sá fyrir þessi sorglegu ör- lög sem fyrir Herberti lágu. Þú val- hoppar ekki meira um göturnar og þinn ótrúlega skondni hlátur heyrist ekki meir hér á jörðu. En við í fjöl- skyldunni þökkum þér samfylgdina og biðjum þér góðrar ferðar til nýrra heima og höldum að við hittumst aft- ur er okkar tími kemur. Foreldrum þínum Svövu og Rúnari, systkinum þínum og fjöl- skyldunni allri sem og vinum þínum fjölmörgu sem sakna þín sendum við innilegar samúðarkveðjur okkar. Hvíl í friði, kæri vinur. Hrund, Kristinn, Baldur Karl og Eyþór Ingi. HERBERT GRÄNZ Bróðir minn, INGI RAGNAR ÁSMUNDSSON frá Skálanesi, Vesturvegi 11, Seyðisfirði, lést miðvikudaginn 12. apríl sl. Að ósk hans fór útförin fram í kyrrþey. Starfsfólki Sjúkrahúss Seyðisfjarðar eru færðar sérstakar þakkir fyrir frábæra umönnun í veikindum hans. Magna Ásmundsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.