Morgunblaðið - 30.08.2006, Blaðsíða 40

Morgunblaðið - 30.08.2006, Blaðsíða 40
40 MIÐVIKUDAGUR 30. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ menning „VIÐ VILDUM minnast Guðbjargar með einhverjum hætti og þá í tengslum við Þingvallasveitina þaðan sem hún var ættuð.“ Þannig greinir klarínettuleik- arinn Einar Jó- hannesson frá til- drögum þess að stofnaður hefur verið minning- arsjóður um móð- ursystur hans, Guðbjörgu Ein- arsdóttur frá Kárastöðum, sem lést 76 ára að aldri síðla árs 2004. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við tónlist- arflutning tengdan kirkjuathöfnum í Þingvallakirkju, en vegna smæðar kirkjunnar eru tónlistarflutningi þar sannarlega settar skorður. „Teng- ingin er sú að Guðbjörg starfaði við kirkjuna fyrir margt löngu,“ útskýrir Einar. Móðursystur hans var ungri fengið það hlutverk að leika á org- elharmóníum kirkjunnar. „Sveitin var einangraðri á þessum tíma en nú og þá sérstaklega á veturna. Þannig að fólkið í hreppnum gekk í þau störf sem þurfti,“ bætir hann við og gefur í skyn að það hafi verið að undirlagi afa hans, Einars Halldórssonar hreppsstjóra og meðhjálpara við kirkjuna, að Guðbjörg og fleiri af börnum hans tóku að sér þetta hlut- verk. Einar situr í stjórn sjóðsins ásamt séra Kristjáni Val Ingólfssyni og Sveinbirni Jóhannessyni bónda á Heiðarbæ. Hann segir að það hafi komið til tals að safna fyrir litlu pípu- orgeli fyrir kirkjuna. Hann upplýsir þó að þar sem sjóðurinn sé nýlega stofnaður hafi starfsemi hans ekki verið að fullu mótuð. „Við erum með lítinn höfuðstól sem er í raun loka- uppgjörið úr dánarbúi Guðbjargar. Þar að auki hafa lagt okkur lið með fjárframlagi niðjar Guðbjarnar Ein- arssonar bónda og hreppstjóra sem tók við búi föður síns og afa míns að Kárastöðum á sínum tíma. Einnig vil ég minnast á þátt Sveinbjarnar Dag- finnssonar fyrrverandi ráðuneyt- isstjóra sem átti snaran átt í að koma þessu heim og saman. Það er svo auðvitað von okkar að fólk vilji leggja málefninu lið.“ Tónlist | Minningarsjóður um Guðbjörgu Einarsdóttur frá Kárastöðum stofnaður Ætlað að styðja við tónlistar- flutning í Þingvallakirkju Morgunblaðið/Brynjar Gauti Organisti Guðbjörg lék á harmóníum við guðsþjónustur í Þingvallakirkju. Eftir Flóka Guðmundsson floki@mbl.is Einar Jóhannesson ARON Reyr Sverrison sýnir nú mál- verk í Galleríi Turpentine í Ingólfs- stræti. Í raunsæislega máluðum myndum (olía á striga) getur að líta mannlaus innanhússrými sem vísa jafnframt í önnur rými og þá einkum náttúruna utandyra. Á einni myndinni (nr. 7) er líkt og staðið sé við glugga þar sem tjöldin hafa verið dregin frá að hluta. Úti er skuggsýnt en þar sést skógur og fjall- lendi. Bygging myndarinnar er ein- föld og sterk: henni er skipt í fjóra misstóra fleti, línur gluggatjalda eru lóðréttar andspænis láréttum sjón- baug. Lögun myndarinnar er hins vegar óvenjuleg, með rúnnuðum hornum líkt og gamall sjónvarpsskjár eða ljósmynd. Þetta myndar fjarlægð milli sýningargesta og myndefnis, eins og horft sé á málverkið í gegnum annan miðil. Þá er andblær liðins tíma undirstrikaður með húsgögnum og munum í myndunum sem gætu verið frá 6. og sérstaklega 7. áratug sl. aldar og ber litameðferð einnig keim af því tímabili. Þá ríkir kaldr- analeg tómleikatilfinning í mann- lausum – og líkt og yfirgefnum – húsakynnunum. Sviðsetningin í myndunum minnir óneitanlega á verk bandaríska raunsæismálarans Edw- ards Hoppers. Í nýjustu verkunum, myndum nr. 4 og 5, má sjá „tóma“ eða auða striga á blindrömmum sem standa upp við vegg í herbergi sem gæti verið vinnu- stofa listamannsins en þar minnir hann jafnframt á nærveru sína, eða augnaráð. Einnig hanga á veggjum málverk frá sýningunni. Horn auðu verkanna eru þó ekki rúnnuð líkt og hinna en ef til vill er með því vísað í geómetríska fleti og línur herberg- isins og húsgagna og jafnframt í eig- inleika málverksins sem byggir á slík- um þáttum í módernískum anda. Túlka mætti skírskotanir Arons í for- tíðina og málverkið sem hugleiðingar um sögu málverksins. Á einum hinna auðu strigaflata á myndinni glittir í ómálaðan hörstrigann – líkt og um „glugga“ inn í sjálfa undirstöðu mál- verksins sé að ræða. Mynd nr. 5 sýnir ýmsa aðra „skjái“: í forgrunni sést sjónvarp, á vegg hangir málverk sem sýnir borg- arlandslag og í gegnum dyr inn í ann- að herbergi sést fjallalandslag út um glugga. Uppbygging myndarinnar og veggmálverkið skírskota til hug- myndarinnar um fjarvíddarmál- verkið sem glugga út í heiminn. Þá undirstrikar Aron blekkingu mál- verksins með sjónvarpsskjánum – glugga nútímamannsins út í heiminn. Gamalkunnum andstæðupörum bregður fyrir; geómetrísku skipulagi borgar/menningar andspænis líf- rænni náttúru; rökhyggju andspænis rómantík. Í yfirveguðum myndum Arons, þar sem lítið er um „maleríska“ tilburði virðist ríkja röklegt skipulag. Náttúr- an sem sést eins og út um glugga, virðist vandlega „bundin“, eða inn- römmuð í arkitektúrnum. Í mynd nr. 3 er lokað fyrir hana. Þó er ýmislegt í málaratækninni – kannski gert af ásettu ráði – sem veldur ákveðinni togstreitu í fjarvíddinni og virðist náttúran hafa þrengt sér inn í rýmið. Í mynd nr. 8 gæti gólf salarins allt eins verið framhald af landslaginu úti fyrir og loftið himinn. Súlur virðast fljóta í lausu lofti og fjarvíddarlínur skekkjast líkt og hið fastskipaða kerfi sé að riðlast. Slík fjarvíddarskekkja veikir hins vegar byggingu myndanna en myndir 6 og 8 líða talsvert fyrir þann æfing- arbrag sem á þeim er, hvort sem hann er vísvitaður eða ekki. Til að ná tilætluðum áhrifum þyrfti listamað- urinn einnig að huga að því að gæða myndflötinn meira lífi í stað hins flat- neskjulega eða „sleikta“ yfirborðs. Hins vegar er mynd nr. 2, líkt og áðurnefnd mynd 7, gott dæmi um ákveðna myndbyggingu þar sem listamaðurinn nær að kalla fram hin óræðu mörk milli rýma, milli hins opna og hins lokaða. Landslagið úti- fyrir gæti allt eins verið flatt lands- lagsmálverk á vegg – blekking líkt og skugginn af lampanum sem þar stendur einn í tómlegu herberginu sem tákn ákveðins tíðaranda. Óræð rými MYNDLIST Gallery Turpentine Til 5. september 2006 Opið þri.– fö. kl. 12-18, lau. kl. 12–16. Ókeypis aðgangur. Aron Reyr Sverrisson Málverk „Bygging myndarinnar er einföld og sterk: henni er skipt í fjóra misstóra fleti, línur gluggatjalda eru lóðréttar andspænis láréttum sjón- baug. Lögun myndarinnar er hins vegar óvenjuleg, með rúnnuðum horn- um líkt og gamall sjónvarpsskjár. Þetta myndar fjarlægð milli sýningar- gesta og myndefnis, eins og horft sé á málverkið í gegnum annan miðil.“ Anna Jóa VARLA verður annað sagt en að fyrsta sumartónleikaröðin að Gljúfrasteini hafi endað með trompi hvað aðsókn varðar, því færri komust að en vildu sl. sunnudag og urðu sumir að standa, þ.á m. undirritaður. Tæp- lega gat þjóðskáldið séð þetta aukahlutverk fyrir þá húsið var hannað fyrir rúmum sextíu árum, og því aðeins við núverandi hús- ráðendur að sakast þegar þeir réðu jafn ástsælan píanista og Jónas Ingimundarson til leiks á ekki stærri stað. Auk áþreifanlegrar bílastæða- eklu fylgdi ofuraðstreyminu sá annmarki að illa heyrðist í ann- áluðum kynningum píanistans – a.m.k. úti í eldhúsi þar sem ég stóð og studdist endilangur við hvíta Frigidaire kæliskápinn frá 7. áratug. Þangað barst og aðeins endurómur af slaghörpunni eftir krókaleiðum, fyrir nú utan hvað flytjandinn var gjörsamlega úr augsýn, svo heildaráhrifin voru líkt og í dofnandi draumi. En það sem heyrðist var aftur á móti flest ánægjulegt, og alltjent yfrið til að eyða tímabundnum óþægindum. Stemningin var líka afar einbeitt, utan hvað örfáir hlustendur er vissu ekki betur hófu fljótkæft klapp eftir I. þátt úr þríþættri Vínarsónötu Mozarts í A-dúr K331, enda þættirnir ekki tilgreindir á tónleikaskrárblaði. Jónas lék þessa vínarklassísku perlu af sinni landskunnu mýkt, þó svo að vottaði aðeins fyrir stirðleika í lokatilbrigði I. þáttar og miðþátturinn virtist frekar andstæðudeigur. E.t.v. réðst það þó sumpart af varfærni gagnvart salarsmæðinni, eins og mátti gruna af „tyrkneska“ lokaþætt- inum þar sem kýla hefði mátt grimmar á jannisaríska villi- mennsku í köflunum með kunn- uglegu 1. maí-bassabumbuhrynj- unum. Hraðarunurnar perluðu hins vegar lipurt við hæfi. Bókhneigði snemmrómantíker- inn Robert Schumann er sem stendur í ferskum fókus, ekki að- eins vegna 150 ára dánarafmælis hans heldur einnig vegna frábærr- ar þáttaraðar Unu Margrétar Jónsdóttur um hann og Clöru á Gufunni. Eftir þennan frumkvöðul svonefndra skapgerðarstykkja fyr- ir píanó á fyrri hluta 19. aldar lék Jónas „Papillion“ [þ.e. Papillons] Op. 2 frá 1831. Hið litríka æsku- verk Schumanns mun, líkt og síð- ar Carnaval, tengt grímuballs- atriði í skáldsögu Jeans Paul, enda að mestu byggt á dans- köflum. Túlkunin var, þrátt fyrir staka misskýra og stundum jafnvel nærri því flaumósa staði, í heild sjarmerandi, ekki sízt pólónesan, og rúnnaði slagherpillinn síðan af með að eigin sögn tveim aukalög- um þótt ættu eftir að reynast þrjú. Miðlagið kannaðist ég því miður ekki við í fljótu bragði, þrátt fyrir mikla sönghæfni og fal- lega mótaðar stórarpeggjur í lok- in. Öllu auðþekktari voru aftur á móti nr. 1, Impromptu Schuberts Op. 90,3 í Ges, og nr. 3, hið brokk- þýða Moment musical hans í f Op. 94,3 er vaggaði hlustendum ljúf- lega út í síðsumarblíðuna. Eldhús- dagur að Gljúfra- steini TÓNLIST Gljúfrasteinn Verk eftir Mozart og Schumann. Jónas Ingimundarson píanó. Sunnudaginn 27. ágúst kl. 16. Píanótónleikar Ríkarður Ö. Pálsson GÍTARSÓLÓ Davids Gilmours í laginu „Comfortably Numb“, sem kom út á plötu Pink Floyd The Wall árið 1979 er besta gítarsóló allra tíma. Þetta er niðurstaða könnunar sem útvarpsstöðin Planet Rock stóð fyrir. Í öðru sæti var gítarsóló Slash í hljómsveitinni Guns N’ Roses í lag- inu „Sweet Child O’ Mine“ og í þriðja sæti var sólóið í laginu „Free Bird“ með Lynyrd Skynyrd. Meistari Jimi Hendrix á tvö sóló á listanum yfir þau 20 bestu. Reuters Bestur David Gilmour. Gilmour á besta sólóið 20 bestu gítarsólóin samkvæmt könnun Planet Rock: 1. Pink Floyd – Comfortably Numb 2. Guns N’ Roses – Sweet Child O’ Mine 3. Lynyrd Skynyrd – Free Bird 4. Van Halen – Eruption 5. Guns N’ Roses – November Rain 6. Led Zeppelin – Stairway to Heaven 7. Dire Straits – Sultans of Swing 8. Jethro Tull – Aqualung 9. The Eagles – Hotel California 10. Deep Purple – Child In Time 11. Queen – Brighton Rock 12. Jimi Hendrix – All Along The Watchtower 13. Deep Purple – Highway Star 14. Wishbone Ash – Throw Down The Sword 15. Ozzy Osbourne – No More Tears 16. Cream – Crossroads 17. Guns N’ Roses – Paradise City 18. Led Zeppelin – Since I’ve Been Loving You 19. Ten Years After I’m Going Home (Woodstock) 20. Jimi Hendrix – Voodoo Chile

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.