Morgunblaðið - 16.02.2007, Side 14
14 FÖSTUDAGUR 16. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
AÐALMEÐFERÐ Í BAUGSMÁLINU
Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
SAKSÓKNARI hélt í gær áfram ít-
arlegum spurningum sínum til Jóns
Ásgeirs Jóhannessonar sem svaraði
oft einnig ítarlega og endurtók á
stundum eða ítrekaði fyrri svör. Um-
fjöllunarefnið í gær var fyrst og
fremst meintur fjárdráttur í tengslum
við rekstur skemmtibátsins Thee Vik-
ing og samskipti og viðskipti Jóns Ás-
geirs og föður hans við Jón Gerald
Sullenberger.
Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson eru
í ákærulið 18 sakaðir um að hafa á ár-
unum 2000–2002 látið Baug greiða 32
milljónir til að fjármagna eignarhlut
Gaums í bátnum. Þetta hafi verið gert
með því að láta Baug greiða reikninga
frá Nordica sem hljóðuðu upp á styrk
vegna markaðsstarfa sem báru yfir-
skriftina „contract fee for retail serv-
ices commissions finders fees and
consulting work“.
Líkt og von var á voru saksóknar-
inn og Jón Ásgeir varla sammála um
einn einasta hlut sem laut að þessum
ákærulið. Jón Ásgeir sagði að Gaum-
ur hefði aldrei eignast hlut í þessum
bát heldur hefði félagið lánað Jóni
Gerald til kaupanna, bæði á Thee Vik-
ing og forvera hans. Spurði hann sak-
sóknara oft hvort einhvers staðar
væri til skjal sem staðfesti eignarhlut-
inn en því var ekki svarað. Aðspurður
sagði Jón Ásgeir að aldrei hefði verið
gerður skriflegur lánasamningur
enda hefði verið mikill vinskapur á
milli manna og einfalt handtak dugað
en það hefði síðan heldur betur
breyst.
Út af þessum báti urðu árið 2003
málaferli í Bandaríkjunum sem sner-
ust um kröfur Baugsfeðga á hendur
Jóni Gerald um að eignarhlutur
þeirra í bátnum yrði viðurkenndur.
Sigurður Tómas vísaði ítrekað í fram-
burð Jóhannesar Jónssonar fyrir hin-
um bandaríska dómstóli og sagði
hann í verulegu ósamræmi við það
sem kom fram hjá Jóni Ásgeiri í gær.
Hjá Jóhannesi hefði m.a. komið fram
að Gaumur hefði kostað viðhald, af-
borgarnir af lánum og öll útgjöld. Jón
Ásgeir sagði að stundum hefði hann
persónulega greitt einhvern kostnað
en yfirleitt hefðu öll framlög verið í
formi lána. Síðar hefði hann sótt að
lánum yrði breytt í eign en því hefði
Jón Gerald þverneitað og að lokum
selt bátinn að honum forspurðum.
Hann neitaði annars að mestu að tjá
sig um framburð Jóhannesar og sagði
að saksóknarinn gæti spurt hann síð-
ar.
Var Myramar til?
Drjúgur tími fór í að spyrja um
bankaábyrgð vegna kaupa á fyrsta
bátnum á Flórída sem saksóknarinn
sagði að Bónus sf. hefði verið látinn
veita til bátakaupanna en hún væri
fyrir sömu fjárhæð og lán sem Jón
Gerald hefði tekið á sama tíma, hjá
sama banka fyrir bátnum. Jón Ásgeir
sagði ábyrgðina alls ekki vera vegna
bátsins heldur ábyrgðar vegna vöru-
kaupa. Lagði hann fram skjal frá um-
ræddum banka máli sínu til stuðnings
sem hann sagði að sýndu glögglega
fram á þetta, ábyrgðin hefði verið
vegna yfirdráttarheimildar vegna
vörukaupa. Þessa gagns hefði ríkis-
lögreglustjóri ekki hirt um að afla,
jafnvel þó að það hefði kostað litla fyr-
irhöfn. Þetta væri reyndar dæmigert
fyrir rannsóknina.
Sigurður Tómas benti m.a. á að
skilmálum ábyrgðarinnar hefði verið
breytt og hún gerð almennari en svo
að hún næði aðeins til vörukaupa. Jón
Ásgeir ítrekaði fyrri svör og spurði
hvort það væri verið að ákæra vegna
bankaábyrgðar. Því neitaði saksókn-
arinn og bætti við: „Það er verið að
reyna að sýna fram á að þú sért að
segja ósatt.“
Meðal þeirra gagna sem saksóknari
vísaði til var skjal sem fannst í tölvu
Tryggva Jónssonar með yfirskrift-
inni: „Talvert þarf að gera“ og snerti
bollaleggingar um hvernig ætti að
skipta eignarhlut í Thee Viking á milli
Jóns Ásgeirs, föður hans og Jóns Ger-
alds. Saksóknarinn sagði að í skjalinu
kæmi fram að senda ætti reikninga
vegna bátsins til „b/g“ með sama texta
og notaður var til að innheimta
greiðslur frá Baugi þ.e. „contract fee
for retail services commissions find-
ers fees and consulting work“. Spurð-
ur hvort þetta væru hugmyndir hans,
sagði Jón Ásgeir að hann hefði ekki
búið þetta skjal til og ítrekaði að hvað
sem stæði á þessu skjali hefði hug-
myndum sem þar kæmu fram aldrei
verið hrint í framkvæmd. Í skjalinu
var sömuleiðis rætt um að hlutur Jóns
Ásgeirs og Jóhannesar yrði færður til
eignarhaldsfélags á Bahamas sem
héti Myramar. Jón Ásgeir benti á
móti á að hann hefði engin skjöl séð
sem bentu til þess að Myramar hefði
orðið til.
Tjónið nam 260 milljörðum
Þegar kom að spurningum verj-
anda til Jóns Ásgeirs var farið ítar-
lega yfir eðli viðskipta Baugs við
Nordica, fyrirtæki Jóns Geralds. Jón
Ásgeir sagði að sams konar starfsemi
hefði verið innt af hendi í Danmörku
af hálfu annars fyrirtækis og
greiðslur til þeirra hefðu verið fylli-
lega sambærilegar og raunar með
sambærilegum texta og í reikningun-
um frá Nordica sem ákært er fyrir.
Lögregla hefði hins vegar ekkert
grennslast fyrir um þau viðskipti.
Ítarlega var farið yfir vinslit og lok
viðskipta við fyrirtækið og sagði Jón
Ásgeir m.a. að þegar kom fram á árið
2002 hefði yfirmaður innkaupa hjá
Baugi talið óverjandi að halda við-
skiptunum áfram þar sem þau borg-
uðu sig ekki. Jón Ásgeir kvaðst hvorki
hafa þrýst á að þeim yrði haldið áfram
né þeim hætt en á þessum tíma hefði
vinskapurinn súrnað, einkum vegna
þess að ekki náðist samkomulag um
að Gaumur ætti hluti í Thee Viking.
Endanlega hefði slitnaði upp úr við-
skiptunum vorið 2002 og vísaði Jón
Ásgeir til tölvubréfs frá Jóni Gerald
til Tryggva Jónssonar hinn 8. maí
2002 þar sem hann sagðist standa
uppi með tvær hendur tómar eftir 10
ára viðskipti við feðgana. Í skjalinu
hefðu einnig verið drög að samningi
sem Jón Gerald hefði virst hafa fallist
á. Síðan hefði Fréttablaðið leitt í ljós
að sama dag hefði Jónína Benedikts-
dóttir sent Styrmi Gunnarssyni, rit-
stjóra Morgunblaðsins, tölvubréf um
að Jón Gerald væri illur út í feðgana
og hvort Davíð væri til í að hringja í
hann. Þarna hefði atburðarás farið af
stað sem hefði leitt til húsleitarinnar í
aðalstöðvum Baugs sem hefði m.a.
kostað félagið um 260 milljarða þar
sem það hefði orðið af yfirtöku á Ar-
cadia. Gestur Jónsson las einnig upp
tölvubréf frá Jóni Gerald þar sem Jón
Ásgeir er sakaður um að reyna að fara
á fjörurnar við eiginkonu Jóns Ger-
alds. Þetta væri kolrangt, sagði Jón
Ásgeir en sýndi að af hálfu Jóns Ger-
alds hefðu það ekki verið viðskipti
sem skiptu máli undir lokin.
Morgunblaðið/ÞÖK
Dæma Héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður og Jón Finnbjörnsson ásamt Garðari Valdimarssyni meðdómara ganga í réttarsal.
Eignaðist
ekki bátinn
Í HNOTSKURN
Dagur 4
» Saksóknari heldur áfram ít-arlegri yfirheyrslu sinni yfir
Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, nú
um skemmtibát, Thee Viking.
» Jón Ásgeir og TryggviJónsson eru ákærðir fyrir
fjárdrátt með því að hafa á
tímabilinu 20. janúar 2000 til
11. júlí 2002 látið Baug greiða
32 milljónir til að fjármagna
eignarhlutdeild Gaums í bátn-
um.
» Jón Ásgeir neitar sök ogsegir Gaum aldrei hafa eign-
ast hlut í bátnum þótt sóst hefði
verið eftir því að lánum yrði
breytt í eign.
» Saksóknarinn vísar m.a. ískjal sem fannst í tölvu
Tryggva Jónssonar með yfir-
skriftinni: „Það sem þarf að
gera“ sem hann telur sýna að
ákveðið var að Baugur greiddi
kostnað við bátinn.
» Jón Ásgeir segir húsleitríkislögreglustjóra í höf-
uðstöðvum Baugs hafa orðið til
þess að Baugur missti af 260
milljarða hagnaði af Arcadia.
» Jón Ásgeir bendir enn ádæmi sem hann segir sýna
að lögregla kannaði ekki ábend-
ingar sakborninga.
Bátur á Flórída, upphaf Baugsmálsins
og eignarhaldsfélag sem ekki er til
„ÞAÐ er við engan að sakast
nema settan ríkissaksóknara,“
sagði Arngrímur Ísberg dóms-
formaður eftir að hann hafði
stöðvað yfirheyrslu saksóknarans
yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í
gær. Saksóknarinn mótmælti
harðlega en dómarinn sagði málið
útrætt.
Þinghaldið í gær hófst klukkan
13 og um klukkan 14.45 spurði
Arngrímur Ísberg dómsformaður
Sigurð Tómas, settan ríkis-
saksóknara, hversu langan tíma
hann teldi að það tæki hann að
klára yfirheyrsluna og fékk það
svar að líklega væru um þrír
klukkutímar eftir. Arngrímur til-
kynnti þá að saksóknari yrði að
ljúka spurningum sínum klukkan
16.15, þá yrði gert 15 mínútna hlé
og síðan gætu verjendur spurt til
klukkan 18. Sigurður Tómas mót-
mælti þessu harðlega og kvað
þetta geta stefnt sönnunarfærslu
sinni varðandi lið 18, sem varðar
meintan fjárdrátt í tengslum við
rekstur Thee Viking, í tvísýnu.
Dómarinn stóð við ákvörðun
sína og stöðvaði Sigurð Tómas í
miðri spurningu klukkan 16.15.
Enn mótmælti Sigurður Tómas og
sagðist eiga þriðjung spurning-
anna varðandi ákærulið 18 eftir.
Krafðist hann þess að skýrslutöku
af ákærða myndi a.m.k. ljúka áður
en vitni kæmu fyrir dóminn til að
gefa skýrslu en það verður 26.
febrúar.
Arngrímur var hvass og minnti
á að það hefðu verið málflytjend-
urnir, þ.e. saksóknari og verj-
endur, sem hefðu búið til dag-
skrána. Því miður hefði hún farið
úr böndunum og það væri alvar-
legt mál. Ætlaði saksóknarinn sér
að yfirheyra vitni með sama hætti
og Jón Ásgeir væri t.d. ljóst að yf-
irheyrsla yfir Jóhannesi Jónssyni
tæki ekki 100 mínútur heldur tvo
daga. Aðeins degi áður hefði verið
gengið út frá því að lokið yrði við
yfirheyrslur klukkan 18.
Aftur mótmælti Sigurður Tóm-
as og sagði að það hefði aðeins
verið dómarinn sem hefði nefnt að
ljúka ætti við skýrslutökur í heild,
þ.á m. spurningar verjenda,
klukkan 18. Arngrímur stóð fast
við ákvörðun sína og gaf verjanda
Jóns Ásgeirs orðið.
Í gærkvöldi höfðu saksóknari
og verjandi ekki komist að nið-
urstöðu um hvenær skýrslutöku
yfir Jóni Ásgeiri verður haldið
áfram. Í dag klukkan 9.15 hefst
yfirheyrsla saksóknarans yfir
Tryggva Jónssyni.
Saksóknarinn stöðvaður
í miðri spurningu
Morgunblaðið/Sverrir
Stöðvaður Sigurði Tómasi Magnússyni tókst ekki að ljúka yfirheyrslunni.