Morgunblaðið - 17.06.2007, Blaðsíða 44
44 SUNNUDAGUR 17. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
S
tundum finnst manni eins og það sé alltaf
verið að endurútgefa Doors og safnkassar
og plötur virðast hrynja yfir okkur með
reglubundnum hætti. Þetta nýjasta framtak
markar fjörutíu ára útgáfuafmæli sveit-
arinnar en fyrsta smáskífan, „Break on
Through (To The Other Side)“, kom út í jan-
úar 1967 og vakti litla athygli (náði ekki einu
sinni inn á topp 100 í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að koma út
hjá sæmilega stöndugu fyrirtæki, Elektra Records). Betur
vegnaði sveitinni er smáskífa númer tvö, „Light My Fire“,
kom út en hún hafnaði á endanum í fyrsta sæti listans.
Það er eftir mörgu að slægjast fyrir safnara, Doors-
aðdáendur og tónlistaráhugamenn almennt hvað þessar fjöru-
tíu ára afmælisútgáfur varðar. Fyrir það fyrsta er búið að
endurútgefa þær sex hljóðversplötur sem Jim Morrison söng
á, en þeim tveimur plötum sem félagar hans gáfu út eftir
andlát hans árið 1971 er sleppt. Áhugi fyrir því efni er af-
skaplega takmarkaður, eðli málsins samkvæmt. Plöturnar eru
annars Other Voices (’71) og Full Circle (’72) og eftir á að
hyggja verður að teljast merkilegt – nærri því fífldjarft – að
þeir Ray Manzarek, Robby Krieger og John Densmore skuli
hafa lagt í að gefa út plötur án hins ofursjarmerandi forvíg-
ismanns. Líklega voru þeir að reyna að hala eitthvað inn út á
nafnið fræga en mögulega vildu þeir sýna fram á að þeir
gætu staðið í lappirnar sem tónlistarmenn án Morrisons. Slíkt
var eðlilega ekki að gera sig en plöturnar eru í þó öllu falli at-
hyglisverðar fyrir það að á þeim er að finna lög sem var byrj-
að að vinna í á meðan Morrison var enn á meðal vor. Hvað
sem ástæðum líður hafa eftirlifandi Doorsmeðlimir, einkum
þá Ray Manzarek, orgelleikari og heili sveitarinnar, verið
duglegir við að halda nafni sveitarinnar á loft undanfarin ár.
Þá koma ekki bara til endurútgáfur á upprunalegu og sjald-
gæfu efni því að Manzarek og Krieger reka í dag sveitina
Riders on the Storm, þar sem lög Doors eru spiluð. Sú starf-
semi hefur getið af sér mikið lagastapp og Densmore, sem
stefndi fyrrverandi félögum sínum fyrir að nota Doorsnafnið,
er fjarri góðu gamni og á trommustólnum er Stewart Copel-
and úr The Police. Undanfarin ár hefur Ian Astbury, söngv-
ari The Cult, séð um sönginn en hann tilkynnti fyrir stuttu að
hann væri hættur og framtíð sveitarinnar því í uppnámi eins
og er.
Smekklegt
En aftur að „gömlu góðu“ Doors. Þær sex plötur sem eru
komnar út á nýjan leik eru The Doors (’67), Strange Days
(’67), Waiting For The Sun (’68), The Soft Parade (’69), Morr-
ison Hotel (’70) og L.A. Woman (’71). Plöturnar hafa verið
hljóðblandaðar upp á nýtt og jafnvel er gengið svo langt að
færa inn hljóð og hljóma sem var sleppt upprunalega en er
enn hægt að ganga í á upprunalegu segulböndunum. Hraðinn
á fyrstu plötunni hefur þá verið leiðréttur, en þegar frum-
eintak var gert var það aðeins of hægt. Meðfram þessum
plötum, sem innihalda einnig aukalög, hefur safnplatan The
Very Best of The Doors verið gefin út á nýjan leik í þremur
mismunandi myndum, allt eftir því hversu vel fólk vill heilsa
upp á Jim gamla á nýjan leik. Fyrst er að nefna einfaldan
tuttugu laga disk, en svo er hægt að smella sér á tvöfaldan
disk, og þá erum við komin upp í 34 lög. Þá er sá þrefaldi, en
hann er í smekklegu boxi og inniheldur auk laganna 34 mynd-
disk þar sem hægt er að sjá Doors á tónleikum árið 1968, en
þá fór sveitin í mikla frægðarför til Evrópu og var algerlega á
toppnum um það leyti. Fimm lög eru á diskinum, „Light My
Fire“, „Hello I Love You“, „Spanish Caravan“, „Unknown
Soldier“ og „Love Me Two Times“. Myndir, textar og lærðar
greinar fylgja þá líka.
Það er Rhino, mikilvirkasta endurútgáfufyrirtæki heims,
sem stendur að þessum herlegheitum og er ekkert að gera
hlutina til hálfs í þessum efnum. Ný tónleikaplata kom þannig
út fyrir stuttu, Live in Philadelphia ’70, og önnur, Live in
Boston ’70, er áætluð í sumar og verður um þrefaldan disk að
ræða.
Frambærilegt
Meira að segja vínilnördarnir fá sitthvað fyrir sinn snúð. Í
ágúst kemur út The Doors Vinyl Box Set þar sem verður að
finna sjö vínilplötur, allar Morrison-plöturnar auk þess sem
fyrsta platan verður bæði í ein- og tvíóma útgáfu (mono og
stereo). Plöturnar eru pressaðar á 180 gramma vínil (og skrif-
ari er nú að fá gæsahúð). Öll þessi starfsemi á rætur sínar í
Perception-boxinu sem kom út síðasta haust. Þrátt fyrir að
vera þriðja boxið með Doors-efni á innan við áratug er þetta
boxið sem nær að seðja Doorspælarana hvað best. Allar upp-
runalegu plöturnar eru í boxinu og aukaefni á þeim öllum.
Þær eru þar líka sem mynddiskar í 5.1. „surround“-hljómi
þar sem er og að finna myndbönd. Tólf diskar allt í allt sem-
sagt.
Eins og áður segir er endurútgáfan á fyrstu plötunni æði
merkileg, þar sem hraðinn á henni, eftir öll þessi ár, hefur
verið leiðréttur. Þar er þá að finna tvær áður óheyrðar út-
gáfur af „Moonlight Drive“, fyrsta laginu sem Morrison söng
fyrir Manzarek er þeir voru að skrafa saman á ströndinni, tvö
kvikmyndaskóla-droppát pælandi í því að stofna hljómsveit.
Bruce Botnick, sem var bæði upptökumaður fyrir sveitina og
upptökustjórnandi, hefur séð um að yfirfara gömlu upptök-
urnar og talar um að hann hafi sett inn á nýjan leik ýmislegt
sem var sleppt á sínum tíma vegna pressu frá yfirmönnum og
hræðslu við að fá ekki útvarpsspilun væri of langt gengið.
The Doors verður að teljast einn frambærilegasti frum-
burður allra tíma, sveitin stökk fram svo gott sem fullmótuð á
plötunni eftir að hafa giggað í um tvö ár á hinum og þessum
knæpum í LA. Á þessum tíma var ekki óvanalegt að sveitir
væru með tvær breiðskífur á ári og önnur plata Doors,
Strange Days, kom út þá um haustið og samanstóð sumpart
af lögum sem komust ekki fyrir á frumrauninni glæstu. Auka-
lögin hér eru þó fremur fátækleg, mismunandi útgáfur af
tveimur vel þekktum lögum, „People Are Strange“ og „Love
Me Two Times“. Þriðja plata Doors, Waiting For The Sun,
kom út sumarið ’68 og olli nokkrum vonbrigðum á þeim tíma.
En aukalögin sem fylgja nýju útgáfunni eru allrar athygli
verð. Fyrst ber að nefna útgáfu af „Adagio in G Minor“ eftir
Albinoni en svo eru tvær útgáfur af hinu magnaða „Not To
Touch The Earth“. Trompið liggur þó í sautján mínútna út-
gáfu af lagi sem aldrei hefur heyrst áður, „Celebration of the
Lizard“. Botnick lýsir því að lagið hafi verið tekið upp í hljóð-
verinu, og það hafi verið spilað af fingrum fram. Sé raunveru-
lega verk í vinnslu. Ýmislegt hafi verið sett inn á band þá um
kvöldið en það eina sem komst af var þessi bútur. Starfsmenn
Elektra stunduðu það nefnilega á þessum árum að henda seg-
ulböndum með efni sem var ekki notað, og þið getið rétt
ímyndað ykkur þá grófskornu demanta sem fóru þá á haug-
ana. Í dag eru helstu kanónur rokksins blóðmjólkaðar þegar
kemur að svona efni og í sumum tilfellum á slík starfsemi vel
rétt á sér, öðruvísi tökur á lögum dýpka skilning eða veita
manni áður óþekkta innsýn í feril viðkomandi listamanns.
Mjög gott dæmi er um slíkt er t.a.m. útgáfa af lagi Byrds,
„Eight Miles High“, sem kom út sem aukalag þegar 5th Di-
mension var endurútgefin.
Ferskt
Fjórða plata Doors, The Soft Parade (’69), mætti mikilli
andstöðu er hún kom út og ekki hjálpaði að sjálfur söngv-
arinn var lítt hrifinn af efni þeirrar plötu, fannst það of popp-
að og sölumiðað (þótt hann standi sig með sóma og sann í
hinu dásamlega „Touch Me“). Á endurútgáfunni eru þó sex
aukalög, tvær áður óútgefnar tökur af „Touch Me“ og svo
tvær af „Whiskey, Mystics and Men“. B-hliðarlagið „Who
Scared You“ er þá hérna líka og lagið „Push Push“ sem hefur
aldrei heyrst áður.
Á Morrison Hotel (’70) leituðu Doors-menn á náðir hrás
blúsrokks og uppskáru fyrir það velþóknun hinna hökustrjúk-
andi gagnrýnenda. Og hér eru hvorki meira né minna en tíu
aukalög. Nokkrar tökur af slagaranum „Roadhouse Blues“ er
að finna hér (sem inniheldur hina guðdómlegu línu „Well, I
woke up this morning/And I got myself a beer“) en einnig
stutta og vel skítuga útgáfu af „Carol“ eftir Chuck Berry.
Síðasta „Morrison“-plata Doors var L.A. Woman sem kom
út 1971. Það tók aðeins fjóra daga að rúlla henni inn á band
og margir halda því fram að hér sé komin ein allra besta
plata sveitarinnar, í henni sé að finna eitthvert óútskýranlegt
„mojo“. Rödd Morrisons var farin að láta undan þegar hér
var komið sögu en það bætti í sjarmann ef eitthvað var.
Aukalögin eru ekki nema tvö, „Orange County Suite“ og
„(You Need Meat) Don’t Go No Further“, en vel þess virði að
maður pungi út aur fyrir þeim.
Eins og ýjað er að í inngangi er eitthvað við Doors sem
hefur haldið henni ferskri í fjörutíu ár. Það er bara ekki hægt
að neita því að það er eitthvað óheyrilega svalt við tónlist Do-
ors og þegar litið er framhjá hinni teiknimyndalegu mýtu sem
hverfist í kringum Jim Morrison stendur eftir tónlist sem
staðist hefur tímans tönn. Tónlist sem heldur áfram að hafa
áhrif á samtímarokkara og mun ábyggilega gera um langa
framtíð. Og eins og sést í upptalningunni hér að ofan bjóðast
mönnum ýmsar leiðir til að halda sér ferskum sömuleiðis í
Doorsfræðunum.
The Doors er ein þeirra sveita sem hafa
aldrei náð því að vera hallærislegar, svo
sterk er ára hins fallna eðlukonungs,
Jims Morrisons. Enn á ný hefur verið
ráðist í endurútgáfu á plötum Doors en í
þetta skiptið er um talsverða yfirhaln-
ingu að ræða eins og Arnar Eggert
Thoroddsen komst að.
Hurðaskellir Tónlist bandarísku hljómsveitarinnar Doors hefur staðist tímans tönn og haldist fersk í fjóra áratugi.
»Meira að segja vínilnördarnir fá sitthvað fyrir sinn snúð. Í ágúst kemur út The
Doors Vinyl Box Set þar sem verður að finna sjö vínilplötur, allar Morrison-plöt-
urnar auk þess sem fyrsta platan verður bæði í ein- og tvíóma útgáfu (mono og stereo).
Upp á gátt