Morgunblaðið - 18.09.2007, Qupperneq 26
26 ÞRIÐJUDAGUR 18. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Siggeir Þor-geirsson fæddist
á Túnsbergi í
Hrunamannahreppi
28. júní 1932. Hann
lést á Kumbaravogi
4. september síðast-
liðinn. Foreldrar
hans voru hjónin
Þorgeir Jóhannes-
son bóndi og Sigríð-
ur Eiríksdóttir hús-
freyja. Foreldrar
Þorgeirs voru Jó-
hannes Eggertsson
vefari og forsöngv-
ari og Margrét Jónsdóttir hús-
freyja. Foreldrar Sigríðar voru
Eiríkur Runólfsson bóndi og Sig-
ríður Sæmundsdóttir húsfreyja.
Systkini Siggeirs eru Jóhanna
Margrét, f. 1926,
Eiríkur, f. 1927,
Gunnar Kristinn, f.
1928, d. 1942, Sig-
ríður Ófeigs, f.
1930, og Kjartan Jó-
hannes, f. 1934.
Siggeir dvaldi í
foreldrahúsum í
Túnsbergi allt að
þrítugsaldri, hann
vann við ýmis störf
til sjávar og sveita.
Síðan fluttist hann
að Kaldbak og bjó
þar framundir síð-
ustu ár er hann flutti aftur að
Túnsbergi.
Útför Siggeirs er gerð frá
Hrunakirkju í dag, 18. septem-
ber.
Þegar ég heyrði að Geiri gamli
væri fallinn frá koma margar minn-
ingar upp í hugann en hann Geiri eða
Siggeir eins og hann hét fullu nafni
kom á heimili foreldra minna, Hrafn-
hildar og Ásgeirs, sem vinnumaður
þegar þau byrjuðu að búa að Kald-
bak upp úr 1960. Hann bjó alla tíð hjá
okkur eða þangað til pabbi hætti að
búa, fluttist þá Geiri að fæðingarstað
sínum í gamla húsið í Túnsbergi og
var þar síðustu árin nema núna undir
það síðasta, þá dvaldi hann á Kumb-
aravogi þar sem hann lést.
Geiri giftist aldrei og eignaðist
ekki börn þannig að við systkinin
vorum það sem næst komst því hjá
honum. Geiri var um margt mjög
sérstakur karl og gerði í því að vera
sérvitur enda sagði hann að ekki
væru allir eins. Á Kaldbak var stórt
heimili, við systkinin erum sex og
þvældumst við mikið með Geira
hvort sem var að veiða en það kenndi
hann okkur eða á hestbaki. Geiri
hafði alla tíð mikið gaman af hestum.
Þegar ég var krakki átti hann brún-
skjóttan hest sem hét Strássi eftir
tónskáldinu Strauss og var mikill
gæðingur og uppáhald hjá honum.
Ég man vel þegar ég var átta eða níu
ára og verið var að ríða heim af kapp-
reiðum, þá lét hann mig prófa klár-
inn og ég reið honum heim hæst-
ánægð. Geiri hafði oft á orði:
„Manstu þegar þú reiðst honum
Strássa?“
Geiri var mikil tófuskytta og felldi
gegnum árin gífurlegt magn af varg-
inum. Hann vissi alveg hvað voru
bestu aðstæður til að veiða og hélt þá
af stað inn á skothús sem var grafið í
barð í Kaldbaksfjalli. Mamma reyndi
alltaf að nesta hann vel en það gekk
illa. Bara hafa nóg af kaffi og kannski
brauðsneið, svo kom hann aftur heim
einum eða tveim dögum seinna og
iðulega með dauðar tófur á bakinu.
Þetta þótti okkur krökkunum mjög
merkilegt og mikið var fengurinn
skoðaður, á sumrin kom hann oft
með einn eða tvo lifandi yrðlinga úr
grenjaleit handa okkur að leika við
þótti gestum þetta oft skrítinn sjón
að sjá krakkaskara að leika við varg.
Þeir voru yfirleitt látnir hverfa þegar
þeir voru farnir að gera usla í hæn-
unum hjá mömmu. Þetta þætti nú
sjálfsagt skrítið í dag en svona var nú
bara lífið í sveitinni.
Seinna þegar ég flutti að heiman
og eignaðist mína syni hafði Geiri
alla tíð sérlegt uppáhald á þeim og
kallaði þá oft drengina sína. Hann
gaukaði oft að þeim aur eða kíkti í
heimsókn bara til að gefa þeim mola
eins og hann kallaði öll sætindi.
Fyrir 4 árum byggðum við fjöl-
skyldan og pabbi hesthús á Flúðum
og kom Geiri oft við og skoðaði og
spekúleraði í hrossunum. Geira
fannst mikið frá sér tekið þegar hann
komst ekki á bak síðustu árin vegna
heilsuleysis. Hann átti síðustu árin
klár sem gekk jafnan undir nafninu
Geira-Jarpur. Geiri kallaði hann fol-
ann til tíu vetra og svo bara gamla
klárinn, það var enginn millivegur og
var hann mjög ánægur með það þeg-
ar strákarnir mínir gátu riðið klárn-
um.
Við viljum þakka Anne Kirsti,
mágkonu minni, sérstaklega fyrir
það hvað hún hugsaði vel um Geira á
Kumbaravogi og var dugleg að heim-
sækja hann utan vinnutíma. Ég og
fjölskyldan kveðjum gamla manninn,
hvíldu í friði, kæri vinur.
Ása María Ásgeirsdóttir
og fjölskylda.
Nú er Geiri dáinn og við í Hruna-
mannahreppi erum litríkum og um
margt skemmtilegum persónuleika
fátækari. Það er óhætt að segja að
Geiri fór sínar eigin leiðir allt sitt líf
og uppátæki hans gátu oft bæði
hneykslað og glatt samferðafólk
hans.
Eins sérstakur og Geiri var gat
hann hreyft auðveldlega við öllum
tilfinningaskalanum hjá manni. Með
skemmtilegri sjálfsgagnrýni gerði
hann gys að sjálfum sér svo maður
veltist um af hlátri, með ótrúlegri
þrjósku að gera hlutina á sinn hátt,
sem oft var ekki auðveldasta leiðin,
hneykslaðist maður upp fyrir haus.
Hann gerði mig líka oft saltvonda
þegar hann keyrði á eftir mér á
Súkkunni í fyrsta gír, kannski eina 3
km þegar ég fór á hestbak og sagði
mér til um reiðmennsku út um bíl-
gluggann. En jafnframt gat maður
tárast yfir tryggð hans og væntum-
þykju þegar börn voru annars vegar
og þá sérstaklega krakkarnir á Kald-
bak sem áttu góðan bakhjarl þar sem
Geiri var.
Geiri var náttúrubarn og í svo
miklum mæli að furðu sætti, þeir
sem hlustuðu á Geira gátu lært mikið
af honum. Innsæi hans og skilningur
á íslenska refnum gerði hann að
einni merkilegustu refaskyttu lands-
ins. Það var eins og hann gæti sett
sig inn í hugarheim tófunnar. Eitt
sinn kom hann á skíðum frá Kaldbak
að Túnsbergi og ætlaði að gista hjá
foreldrum sínum. Stuttu eftir að
hann er komin greip hann einhver
órói og hann lagði af stað aftur og fór
inn á heiðar í skothúsið, þá um nótt-
ina vann hann tvö dýr.
Geiri fór vel með skotvopn og var
hittinn með afbrigðum. Fyrir ekki
svo löngu skaut hann sér yngri læri-
sveinum ref fyrir rass í orðsins
fyllstu merkingu þegar hann skaut
ref í Skipholtsfjalli sárþjáður af
parkinsonsveiki.
Geiri var einnig mikill hestamaður
og þótti óskaplega gaman að stúdera
ættir og þá sérstaklega ættir fallinna
höfðingja því það voru að hans sögn
alvöru hestar. Einnig fannst honum
ekki mikið til þessarar reiðmennsku
okkar hérna í Túnsbergi koma, við
áttum að hleypa og það oft og mikið
og leggja svo almennilega á skeið.
Já, Geiri minn, ég er feginn að þú
þurftir ekki að búa lengi á Kumb-
aravogi, það var ekki fyrir náttúru-
barn eins og þig. Þú varst sérstakur,
það verður ekki af þér tekið, en af
sérstöku fólki lærir maður oft mest,
bara ef fólk gefur sér tíma til að
hlusta. Nú og það var ekki eins og þú
gætir ekki talað!
Magga S. Brynjólfs, Túnsbergi.
Hann var hluti af náttúrunni og
náttúran var hann að hluta.
Þannig eru efalaust öll náttúru-
börn, en ég hefi bara þekkt eitt og
það var hann. Nú er hann allur og því
er náttúran önnur en hún var og
verður aldrei söm.
Geiri var öðruvísi maður en flestir
aðrir og komst upp með það af því að
hann hafði gott hjartalag. Hann var
gæfumaður og það var hann fyrst og
fremst vegna þess að hann fékk að
vera hann sjálfur og gera það sem
hann vildi. Lífið er ekki flóknara en
það þó að flókið sé.
Hann var mikill veiðimaður og
stundaði allslags veiðar af ástríðu,
ekki til að drepa, heldur vegna þess
að hann vissi að manninum er eig-
inlegt að lifa af náttúrunni og með
henni.
Geiri ól sinn aldur lengst af á
stórri heiðarjörð við rætur óbyggð-
anna, þar sem frelsið er ótakmarkað
og kyrrðin seiðmögnuð. Þar var hans
ríki, þótt ekki hefði hann bréf upp á
það.
Vissi reyndar að öll bréf eru einsk-
is virði, sem náttúruna varða, hana
getur enginn átt.
Um árabil stundaði Geiri refaveið-
ar að vetrinum úr skotbyrgi, sem
hann byggði inni í óbyggðunum, og
var oft fengsæll.
Tófan var líka hans verðuga bráð
því þá reyndi á næmi og slóttugheit
veiðimannsins.
Einn veturinn náði hann um fjöru-
tíu. Sumarið eftir sungu spóinn og
hrossagaukurinn sem aldrei fyrr,
það voru hans laun.
Ef til vill var það fyrir þrjátíu ár-
um, komið fram á einmánuð, hafði
hlánað í niðursveitum en lítið til
fjalla. Það var heiðskírt, sólin að
mjakast upp á austurhimininn og
speglaði sig í svellgljáanum. Þá
skríður Geiri út um dyragatið á
byrginu sínu inn við Einbúa, gengur
frá rifflinum, bindur fjórar tófur
saman á skottunum og axlar sín
skinn. Hann er ekkert að flýta sér
því nú líður honum vel, þó að smá-
hrollur sé í kroppnum. Ekkert hefur
hann borðað síðan hann fór að heim-
an kvöldið áður, en hann er ekki
svangur og ekki er honum kalt. Hann
er of glaður til að hafa búksorgir.
Hann er sigurvegari og nú er hann
krónprinsinn, sem á ríki og álfur.
Hann röltir frameftir, það er um
þriggja kortera ganga en niður í
móti.
Fólkið á bænum er komið á fætur,
krakkar að flýta sér að borða morg-
unmatinn og koma sér í skólabílinn.
Hann fær sér kaffi og brauðsneið.
Heimilisfólk spyr hann um veiðina,
en fær óljós svör. Hann sigraði tóf-
urnar fjórar með sínum klókindum,
ekki fyrir aðra.
Hann gengur til gegninga eins og
vanalega, fær sér smáblund eftir há-
degið, annars er þessi dagur eins og
aðrir dagar. Þannig var lífið hans
Geira vinar míns, stundum stórir
sigrar en oftar þó bara grár hvers-
dagsleikinn, en frelsinu afsalaði hann
sér aldrei.
Geiri hafði næmi listamannsins,
var flest vel gefið, en batt bagga sína
öðrum hnútum en fjöldinn.
Hann var góður maður og þannig
minnumst við hans.
Jón Hermannsson.
Nú þegar Geiri á Kaldbak er allur
er bæði ljúft og skylt að minnast vin-
ar og félaga. Foreldrar mínir hófu
búskap á Kaldbak vorið 1963. Þá um
sumarið kom Geiri í heimsókn og bað
um að lofa sér að vera einhverja
daga. Hann hafði þá einhvern tíma
áður átt eitthvað í andlegum veikind-
um og átti erfitt félagslega og var
eiginlega á hrakhólum með sama-
stað. Þessir dagar urðu að hátt í 40
árum. Öll æskuminning mín er því
tengd Geira á einn eða annan hátt,
þegar ég fer fyrst að muna eftir hon-
um átti hann oft erfitt, hann var hald-
inn félagsfælni og minnimáttar-
kennd sem fór afskaplega illa með
þeirri miklu þörf hans fyrir að ráða
öllu í kringum sig. En þetta fór allt
eins vel og það gat farið, ég er ekki
viss um að foreldrar mínir hefðu búið
á Kaldbak með því lagi sem varð
hefði Geira ekki notið við, eins er ég
viss um að hann hefði ekki unað sér
betur annars staðar. Þarna fékk
hann útrás fyrir sína ástríðuveiði-
mennsku, frelsið og víðáttuna sem
honum var svo mikils virði alla tíð og
hann fékk að hafa sitt lag á hlutunum
en svo varð alltaf að vera.
Geiri var vel af Guði gerður, hann
var andans maður og hagur vel að
mörgu leyti, hann var afskaplega
hestfær, ástríðuveiðimaður og góð
skytta. Nokkru eftir að hann kom að
Kaldbak eignaðist hann hest sem
hann nefndi Strássa eftir tónskáld-
inu Johann Strauss, en Geiri kunni
vel skil á klassískri tónlist. Þessi
hestur var gæðingur, ég kom fyrst á
bak þessum hesti mjög ungur, varla
hestfær, ég hef komið á bak mörgum
hestum síðan, þeir hafa fáir verið
jafn góðir og sennilega enginn betri.
Samband Geira og Strássa var um
margt mjög merkilegt, hann var al-
veg óspar á að láta krakka sem hon-
um þóttu hestfærir prófa klárinn,
sérstaklega þegar hann hafði fengið
sér aðeins. Þá var eins og hann segði
við hestinn nú ætla ég að láta krakka
á bak þér, nú skulum við fara var-
lega, en þetta var sannarlega enginn
krakkahestur, mikill skaphestur sem
hikaði ekki við að henda eiganda sín-
um út í móa ef honum mislíkaði. Nú
fór ég yfir strikið, sagði Geiri eitt
sinn aðeins hálfur þegar Strássi
hafði hent honum af baki. Þetta var
alvöruhestur og einstaklega vel tam-
inn.
Einhvern tímann um miðjan átt-
unda áratuginn fékk Geiri gamlan
jeppa til afnota. Þetta var mikil
breyting fyrir Geira, hann hafði unun
af því að ferðast um landið þótt ekki
væri kannski alltaf farið langt. Hann
fór að umgangast fólk meira og leið
orðið miklu betur en áður. Við Geiri
áttum margar góðar stundir saman á
ferðalögum, fyrst ég með honum sem
unglingur, svo hann með mér í seinni
tíð, fórum við mörg ferðalög víða um
landið og hann talaði oft um það hvað
sér hefðu verið þessi ferðalög ómet-
anleg.
Geiri eignaðist ekki börn, en við
erum sex systkinin sem ólumst upp á
Kaldbak. Geiri var okkur systkinun-
um alla tíð mjög góður og bar okkar
hag fyrir brjósti til dauðadags sem
værum við hans eigin börn og við
mátum hann öll alla tíð mikils. Ég
votta eftirlifandi systkinum Geira,
fjölmörgum vinum og ættingjum
samúð mína, megi hann hvíla í friði,
minningin lifir.
Ævar Ásgeirsson.
Nú þegar Geiri er allur, reikar
hugurinn um liðna tíð. Ég sá hann í
fyrsta sinn fyrir margt löngu þar
sem hann veiddi lax í Litlu-Laxá. Það
er svo sem ekki furða þó mín fyrsta
minning um Geira hafi tengst veiði-
skap, svo mikill veiðimaður sem hann
var. Skipti þá ekki máli hvort um var
að ræða lax, gæs eða ref. Frægastur
varð hann fyrir refaveiðar sínar.
Og það var margt annað en veiði-
skapur sem Geira var til lista lagt.
Hann var lunkinn við hesta og tamdi
reiðhesta sína vel, en engan þó sem
Strássa, sem hann þjálfaði þannig að
aðdáun vakti á áttunda áratugnum.
Þessi hestur opnaði mér þá sýn að
enn í dag hef ég hann sem viðmið
hvernig ég vil hafa reiðhesta mína.
Okkur í Hruna hjálpaði Geiri oft,
s.s. við hrossaslátrun. Þar sem hross-
in voru ótamin og stygg fór oft ekki
hvað minnstur tími í að handsama
þau. Geira leiddist þetta og tók upp á
því að skjóta hrossin af færi í réttinni
af því öryggi að aldrei geigaði.
Eitt haustið hafði ég tekið með
mér flösku í réttina, en tekið fram að
hún yrði ekki opnuð fyrr en síðasta
hrossið væri fallið. Þegar við vorum
að hengja upp skrokkinn af næst síð-
asta hrossinu til fláningar, kvað við
skothvellur í réttinni þar sem Geiri
var. Er við litum til hans var hann að
blóðga síðasta hrossið sem hann
hafði þá skotið og spurði sposkur:
„Hvar er nú flaskan?“
Geiri gat verið orðheppinn í meira
lagi ef sá gállinn var á honum. Við fé-
lagarnir vorum á ferð fram hjá
Hruna fyrir nokkru og vakti það
furðu okkar hve mjög var verið að
stækka kirkjugarðinn. Þusuðum við
eitthvað um þetta. Að lokum datt
upp úr Geira; „Umm, ætli þeir eigi
von á pest?“
Ungur að árum veiktist Geiri and-
lega og fór svo að lokum að leggja
varð hann inn á Kleppspítalann í
Reykjavík. Lengi á eftir hafði hann á
orði í lítillæti sínu, „ekki vera að tala
við mig, hringavitlausan manninn,
búinn að vera á Kleppi og hvaðeina“.
Nokkru eftir dvölina þar, varð það
hans gæfa að ung hjón hófu búskap á
Kaldbak, þau Ásgeir Gestsson og
Hrafnhildur Sigurbjörnsdóttir. Varð
það úr að Ásgeir réð Geira til sín sem
vinnumann og hélst það svo allt þar
til Ásgeir brá búi og flutti sig um set
árið 2002. Þó svo Geiri hafi unnið
þeim Kaldbakshjónum vel þá er hins
vegar ljóst í mínum huga að það hef-
ur ekki alltaf verið auðvelt að hafa
hann á heimili, svo ágætur sem hann
annars var, blessaður.
Hann varð fljótlega sem einn af
Kalbaksfjölskyldunni og jukust þau
tengsl eftir því sem árin liðu. Það
hefur komið berlega í ljós undanfarið
í veikindum hans, sú væntumþykja
sem Ásgeir og börn hans sýndu
Geira.
Nú er tími rétta og fjallferða og
minn maður er riðinn til fjalls. Það
kæmi mér ekki á óvart þó þar færu
saman Geirar tveir, annar kenndur
við ref en hinn við kaupskap. Og ég
er viss um að þeim líkar ekki illa
samveran þar efra frekar en forðum
daga.
Það er óneitanlega dapurlegt að
hugsa til þess að Geiri á Kaldbak
verður ekki á vegi manns næst þegar
farið verður í Hreppinn. Ég og fjöl-
skylda mín kveðjum vin okkar Sig-
geir Þorgeirsson með söknuði.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson.
Siggeir Þorgeirsson
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
INGIBER MARINÓ ÓLAFSSON
plötu og ketilsmiður,
Stekkjargötu 3,
Innri-Njarðvík,
lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þriðjudaginn
11. september.
Jarðaförin fer fram frá Keflavíkurkirkju
miðvikudaginn 19. september kl.14.00.
Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir.
Auður Brynjólfsdóttir,
Brynja Sif Ingibersdóttir, Óskar Húnfjörð,
Marta Rún Ingibersdóttir,
Ólafur Örn Ingibersson, María Júlíana Arnardóttir,
Guðmundur Þórir Ingibersson, Arthittya Aryamueang,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær dóttir okkar, systir og barnabarn,
EDDA SIGRÚN JÓNSDÓTTIR,
Álftamýri 8,
lést þriðjudaginn 11. september.
Útför hennar verður auglýst síðar.
Fyrir hönd systkina, ömmu, afa og annarra
vandamanna,
Anna Reynisdóttir, Jón B. Sveinsson.