Morgunblaðið - 28.10.2007, Síða 32
atvinnusköpun
32 SUNNUDAGUR 28. OKTÓBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
V
axtarsprotar er heildstætt stuðningsverkefni sem hefur það að
markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í
sveitum landsins. Verkefnið er samvinnuverkefni Framleiðni-
sjóðs landbúnaðarins og Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Verkefninu var ýtt úr vör á tveimur svæðum á þessu ári, á Suð-
urlandi og við Húnaflóa, en stefnt er að framhaldi annars staðar á næstu
tveimur árum. Á árinu 2008 er stefnt að því að verkefnið komi til fram-
kvæmdar á Norðausturlandi, með áherslu á Þingeyjarsýslur, og á Vest-
fjörðum.
Að sögn Elínar Aradóttur verkefnisstjóra Vaxtarsprota hefur þátttak-
endum í verkefninu staðið til boða margvíslegur stuðningur. Boðið hefur ver-
ið upp á námskeið, einstaklingsbundna handleiðslu og ráðgjöf, auk þess sem
ýmsir styrkjamöguleikar hafa verið kynntir. „Lögð hefur verið áhersla á að
hafa þjónustuna einstaklingsmiðaða og að heimsækja hvern og einn þátttak-
anda,“ segir Elín.
Mikill áhugi á verkefninu
Hún segir að áhugi á verkefninu hafi strax í upphafi verið mjög mikill og
aðsókn góð á námskeið og aðra viðburði á þess vegum. Yfir sextíu ein-
staklingar hafa nú lokið námskeiðunum og mun fleiri nýtt sér hluta þeirra,
auk handleiðslu starfsmanna verkefnisins. „Við vissum ekki í upphafi hver
eftirspurnin yrði eftir verkefni af þessu tagi hjá fólki í sveitum en viðbrögðin
hafa verið framar vonum.“
Elín segir mikilvægt að í verkefni af þessu tagi sé unnið í góðu samstarfi
við stoðþjónustuaðila í viðkomandi héruðum. „Það markmið hefur náðst.
Heimamenn hafa sýnt þessu mikinn áhuga og samstarfið undantekning-
arlaust verið mjög gott.“
Að sögn Elínar hefur mörgum þeirra atvinnuskapandi verkefna sem þátt-
takendur hafa unnið að á tímabilinu þegar verið ýtt úr vör en önnur munu
enn vera á undirbúningsstigi. „Formlegri vinnu er í þann mund að ljúka en
verkefnin verða áfram í mótun og stefnt er að því að Impra verði áfram til
stuðnings.“
Elín bætir við að ennfremur hafi margir forsvarsmenn starfandi fyr-
irtækja nýtt sér Vaxtarsprotaverkefnið til frekari framþróunar á sinni starf-
semi.
Uppskeruhátíðir í vændum
Hún segir ekki tímabært að leggja mat á árangurinn enda séu viðfangsefni
þátttakenda mörg hver enn á undirbúningsstigi. „En mér líst þó þannig á að
Vaxtarsprotar muni þegar upp er staðið skila tilætluðum árangri. Það eru
mörg efnileg verkefni þarna á ferðinni sem hefur verið ánægjulegt að sjá
þróast.“
Nú í byrjun nóvember verða haldnar veglegar uppskeruhátíðir á vegum
Vaxtarsprotaverkefnisins. Markmið hátíðanna er, að sögn Elínar, að skapa
formlega umgjörð um lok verkefnisferlisins, að hefja vinnu þátttakenda til
vegs og virðingar og vekja athygli á verkefnum þeirra. Hátíðirnar verða
haldnar á Staðarflöt í Hrútafirði 1. nóvember og í félagsheimilinu Hvoli á
Hvolsvelli 2. nóvember.
Verkefnið Vaxtarsprotar er unnið í samvinnu við búnaðarsambönd og at-
vinnuþróunarfélög á þeim svæðum sem um ræðir. Samstarfsaðilarnir eru At-
vinnuþróunarfélag Suðurlands, Búnaðarsamband Suðurlands, Atvinnuþró-
unarfélag Vestfjarða, Atvinnuráðgjöf Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi
vestra og Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda.
Þar sem sprot-
arnir spretta
Vaxtarsprotar er yfirskrift verkefnis sem fjölmennur hópur fólks sem búsettur er í sveitum Suðurlands og við Húna-
flóa hefur undanfarna mánuði tekið þátt í. Verkefnið hverfist um atvinnusköpun í sveitum og hafa þátttakendur unnið
að fjölbreyttum viðfangsefnum á sviði iðnaðar, ferðaþjónustu og annarrar þjónustu.
Eftir Steinunni Ósk Kolbeinsdóttur
sok57@simnet.is
Við rætur Þríhyrnings í miðjusögusviði Njálu er risinbygging í fornum stíl kennd
við konur og kölluð Meyjarhof. Það
eru ferðaþjónustubændurnir Ingi-
björg Sigurðardóttir og Jón Ólafs-
son frá Kirkjulæk sem hafa reist
hofið en þau reka einnig Kaffi Lang-
brók og tjaldstæði í Fljótshlíðinni.
Mikill áhugi Jóns á kjörum og að-
búnaði Íslendinga í gegnum aldirnar
varð í raun kveikjan að bygging-
unni. „Ég hafði ekki mikinn áhuga
fyrir Íslandssögu þegar ég var yngri
en með árunum hefur áhugi minn
aukist og í dag er ég alveg hugfang-
inn af sögunni. Mig langaði að sýna
fram á það kraftaverk hvernig Ís-
lendingar hafa komist af í gegnum
tíðina án þess að gefast upp. Ég væri
ekki til ef Íslendingar hefðu ekki
haft kraft og þrautseigju til að lifa af
hörmungar aldanna, hafísárin
miklu, farsóttir, eldgos og jarð-
skjálfta,“ segir Jón.
Jón og Inga reistu Kaffi Langbrók
árið 2002 og þremur árum síðar
opnuðu þau tjaldstæði. Síðan hefur
fyrirtækinu vaxið fiskur um hrygg.
Haustið 2006 hóf Jón byggingu hofs-
ins. Hofið var vígt á Jónsmessu 2007
að viðstöddu fjölmenni. Jón reisti
hofið aðallega af eigin rammleik,
með aðstoð konu sinnar og sona.
„Ég hef mikið unnið við að end-
urgera gamlar byggingar, meðal
annars á byggðasafninu í Skógum
þar sem ég hef lært forna húsagerð.
Ég var búinn að safna að mér grjóti
úr gömlum húsum og kofum sem
hefur verið rifið. Húsið er allt hand-
gert og byggt samkvæmt upplýs-
ingum sem ég hef aflað mér úr Eyr-
byggju og Laxdælu.
Þrír snillingar hafa verið mér inn-
an handar með upplýsingar, það eru
þeir Þórður í Skógum, Vilhjálmur
frá Hnausum og Oddgeir frá Tungu
í Fljótshlíð. Þeir þekkja þetta allt og
hafa unnið við að endurgera gömul
torfhús. Hjá þeim lærði ég hvernig
steinninn á að sitja og þessa fornu
hleðslulist. Húsið er mjög gróft, eins
og ég ímynda mér að húsin hafi ver-
ið fyrir árið 1000 enda höfðu menn
ekki mikið af verkfærum í þann tíð.“
Þegar þekjan í húsinu er skoðuð
kemur í ljós að þar eru þrjár aðferð-
ir notaðar en Jón segir þetta þekkt-
ar aðferðir eins og notaðar voru á
Suðurlandi. En hvert er markmiðið
með að reisa hofið?
„Við viljum að almenningi gefist
kostur á að sjá og upplifa þær að-
stæður sem fólk bjó við til forna.
Bara lyktin í húsinu ímynda ég mér
að sé lík því sem var, hangikjötslykt
í bland við moldar- og viðarlykt.“
Húsið er ótrúlega vistlegt, þurrt
og alls ekki rakt þrátt fyrir október-
rigninguna. Jón hefur útbúið lang-
eld í húsinu sem hann segir að hafi
ekki verið langur, heldur hafi hann
heitað langeldur af því að hann var
látinn lifa lengi.
En hvernig fengu þau hugmynd-
ina að því að tileinka húsið konum?
„Hugmyndin er komin til vegna
þess íslenskar konur voru svo gáf-
aðar og höfðu þá kunnáttu sem
þurfti til að lifa af við þær aðstæður
sem voru hér á landi, og halda lífi í
börnunum sem var það mikilvæg-
asta. Þó að við köllum húsið hof er
það ekki tileinkað heiðni, heldur öll-
um trúarbrögðum þar sem mæður
eru í heiðri hafðar og er húsið eins
konar lofgjörð til kvenna,“ segir Jón
alvarlegur á svip.
Inga segir að ætlunin sé að bjóða
ferðir í hofið undir leiðsögn, þar sem
m.a. verður boðið upp á sýnishorn af
mat eins og forfeður okkar lifðu á.
Þau séu nú að útbúa auglýsinga-
bækling um hofið til að markaðssetja
það. Framtíðaráætlanir þeirra hjóna
eru að byggja járnsmiðju og gufubað
við hofið og útbúa þar einnig kalt
bað. „Við munum tengja starfsemi
hofsins við rekstur Kaffi Langbrókar
og draumurinn er líka að búa til ein-
hvers konar safnahringferð um sveit-
arfélagið. Markmiðið er líka að þetta
verði upplagður staður fyrir vík-
ingamót því nóg er plássið hér og
fagurt útsýni til Þríhyrnings. Hér á
flötunum munu menn geta upplifað
sanna víkingastemningu í anda forn-
sagnanna, enda sennilega fáir staðir
tilvaldari til þess,“ segir Jón.
Meyjarhofið við Kaffi Langbrók
Lofgjörð
til kvenna
Jón og Inga í hofinu Mununum, sem prýða hofið, hafa þau hjónin safnað í
gegnum tíðina, sumt eru gamlir ættargripir en annað hafa þau keypt.
Í HNOTSKURN
» Árið 2002 opnuðu Jón ogInga Kaffi Langbrók í
Fljótshlíðinni.
» Árið 2005 opnuðu þautjaldstæði við kaffihúsið.
» Jón reisti meyjarhofið síð-asta vetur og vígði sl. vor.
» Markmiðið er að bjóðaupp á safnahringferðir og
að halda víkingahátíðir.
Eftir Ólaf Bernódusson
olbern@simnet.is
Ístórbrotnu landslaginu ut-arlega á Skaga er hlunn-indajörðin Hafnir, sem eitt
sinn þótti með bestu jörðum lands-
ins. Þar er reki, selalátur og æð-
arvarp auk gjöfulla silungsvatna í
næsta nágrenni. Í Höfnum búa
hjónin Vignir Sveinsson og Helga
Ingimarsdóttir ásamt fjölskyldu
sinni. Þar heima vinna þau hjónin
hágæðasængur úr einu dýrasta hrá-
efni landsins, æðardúni.
„Hér er rótgróið æðarvarp og
mikil hefð fyrir nýtingu á dún,“ seg-
ir Vignir. „Frá því að við keyptum
jörðina fyrir fjórum árum höfum við
reynt að sinna æðarvarpinu vel og
hefur tekist að fjölga nokkuð hreiðr-
um í varpinu.“
Æðardúninn hafa hjónin fram að
þessu selt hreinsaðan bæði til heild-
sala hér innanlands og einnig milli-
liðalaust til kaupanda í Þýskalandi.
Nú hafa þau uppi áform um að full-
vinna dúninn með því að þvo hann
og búa til sængur. „Við tókum þátt í
verkefninu „Vaxtarsprotar 2007“ og
unnum þar áætlanir fyrir verkefni
sem við köllum „Úr hreiðri í sæng“.
Það þýðir að við ætlum sjálf að full-
vinna úr okkar dún – og jafnvel frá
öðrum ef vel gengur – og selja síðan
sængurnar, milliliðalaust. Við viljum
helst komast í beint samband við
kaupendurna því á þann hátt getum
við ábyrgst að um er að ræða 100%
æðardúnssængur sem sniðnar eru
að óskum hvers og eins,“ segir
Helga, sem hefur þegar hafið fram-
leiðslu og sölu á sængum.
Til að vera betur í stakk búin til
að flytja sængurnar út stefna þau að
því að auka vélakost sinn með því að
fá sér sérstaka þvottavél til að þvo
dúninn. Nefndu þau sem dæmi að
fyrir Japansmarkað væri það nauð-
synlegt til að losna við lykt sem get-
ur komið af dúninum þegar hitastig
fer um og yfir 40°C.
Í eina fullorðinssæng af með-
alstærð fara 900-1.000 grömm af
dún. Sængurnar eru saumaðar eftir
óskum hvers og eins og því getur
dúnmagnið verið mjög mismunandi.
Í varpinu hjá þeim Vigni og
Helgu eru 2.000-2.300 hreiður sem
gefa af sér um 40 kg af hreinsuðum
dún á ári. Dúnninn í Höfnum þykir
einstaklega góður og segir Vignir að
það sé varplandinu að þakka. „Varp-
ið er úti í Landey þar sem hvorki er
mosi né lyng eða fjalldrapi. Þar er
gróðurinn eingöngu gras og því er
auðvelt og fljótlegt að hreinsa dún-
inn. Því lengri tíma sem dúnninn
þarf að þvælast í vélunum í hreins-
uninni því lakari verður hann,“ segir
Vignir.
Þau hafa í hyggju að vera með
netverslun auk þess að koma sér í
samband við erlenda aðila. „Annars
selja sængurnar sig best sjálfar ef
fólk fær bara að prófa að breiða þær
yfir sig,“ segir Helga og hlær. Æð-
ardúnssængur eru vinsæl gjafavara
víða um lönd, einkum til brúðar-,
fæðingar- og fermingargjafa, og
segist Helga sjá fyrir sér að pakka
sængum í gjafapakkningar að ósk-
um kaupenda. Ef salan gengur vel
áforma þau hjónin að kaupa dún af
öðrum framleiðendum til að upp-
fylla óskir markaðarins.
Þau Vignir og Helga eru með
mörg járn í eldinum og eru meðal
annars að byggja upp ferðaþjónustu
í Höfnum. Leigja þau út sumarhús
og Helga, sem er í fjarnámi í ferða-
málafræðum við Háskólann á Hól-
um, er með áform um að merkja
verbúðirnar sem eru við fjörukamb-
inn neðan við bæinn og leggja
göngustíga um svæðið. „Við viljum
búa hér í sveitinni og því erum við
að reyna að nýta þau gæði sem jörð-
in býður upp á,“ segja þessi dug-
miklu hjón að lokum.
Úr hreiðri í sæng
Sérsniðnar 100%
æðardúnssængur
Í einni sæng Hjónin Helga og Vignir breiða yfir sig dúnhjónasæng.
Einbýlishús Vel er hugsað um æð-
arfuglinn í Höfnum. Þar búa flestar
kollurnar í sér húsum meðan þær
liggja á eggjum.
Í HNOTSKURN
» Hafnir eru mikil hlunn-indajörð og þar hefur æð-
arvarp verið nýtt til dúntekju
um árabil.
» Hugmynd Helgu og Vign-is snýst um að stofna fyr-
irtæki sem fullvinnur æð-
ardún.
» Nokkrar sængur hafa ver-ið seldar og áformað er að
auka umsvifin enn frekar á
næsta ári.