Morgunblaðið - 02.11.2007, Qupperneq 37

Morgunblaðið - 02.11.2007, Qupperneq 37
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. NÓVEMBER 2007 37 ✝ HólmfríðurHólmgríms- dóttir fæddist í Kirkjubóli á Rauf- arhöfn 14. janúar 1943. Hún lést á líknardeild Land- spítalans laug- ardaginn 27. októ- ber síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Svanhvít Pét- ursdóttir húsfreyja, f. 1911, d. 1981, og Hólmgrímur Jós- efsson sókn- arprestur, f. 1906, d. 1946. Systk- ini Hólmfríðar eru Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir, f. 1936, d. 2006, Halldóra Hólmgrímsdóttir, f. 1936, Jóhann Hólmgrímsson, f. 1938, Þuríður Hólmgrímsdóttir, f. 1943, Selma Dóra Þorsteinsdóttir, f. 1953, d. 1993, og Hólmgrímur Þorsteinsson, f. 1956. Fóst- ursystkini Hólmfríðar eru Krist- rún Guðnadóttir, f. 1927, og Sig- urbjörg Sverrisdóttir, f. 1946. Hólmfríður giftist hinn 5. febr- úar 1966 Braga Halldóri Guð- mundssyni sjómanni, f. 19. sept- ember 1947. Synir þeirra eru: 1) Guðmundur Halldór, f. 1965, kona hans er Svava Ýr Baldvinsdóttir, f. 1965, þau eiga þrjú börn; Arnór Snæ, f. 1993, Birki Þór, f. 1997, og Fanneyju Björk, f. 2001. 2) Hólm- grímur Elís, f. 1967, kona hans er Guð- laug Árnadóttir, f. 1965, þau eiga þrjá syni, Gísla Pálma- son, f. 1990, Braga Halldór, f. 2003, og Árna Þorberg, f. 2003. 3) Lúðvík Baldur, f. 1969, kona hans er Sigríður Sigurð- ardóttir, f. 1968. Hólmfríður ólst upp í Vogi við Raufarhöfn. Ung fór hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Braga, eiginmanni sínum. Seinna fluttu þau ásamt ungri fjölskyldu sinni til Hellissands þar sem Hólmfríður sinnti fjölskyldu sinni og vann við almenn störf. Hún flutti síðan til Reykjavíkur þar sem hún starfaði hjá Leikskólum Reykjavíkur og Félagslegri heimaþjónustu hjá Reykjavík- urborg. Útför Hólmfríðar verður gerð frá Neskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Mig langar til að minnast með örfá- um orðum kærrar tengdamóður minnar Hólmfríðar Hólmgrímsdótt- ur. Kynni okkar Hólmfríðar hófust fyrir ellefu árum. Ég fann strax að þar fór ákveðin en kærleiksrík kona. Ástríki hennar og gæska birtist mér ekki síst í viðmóti hennar gagnvart syni mínum sem hún tók strax sem sínu barnabarni. Milli þeirra var síð- an ætíð afar kært. Á stórum stundum í lífi hans stóð hún við okkar hlið og veitti okkur ómetanlegan stuðning. Fyrir það verð ég henni ævarandi þakklát. Hólmfríður flíkaði ekki endilega tilfinningum sínum en hennar kær- leiksríka hjarta birtist einmitt barna- börnum hennar svo ótakmarkað. Hún dýrkaði þau og dáði og stóð með þeim í hverju því sem þau tóku sér fyrir hendur. Það var sannarlega líka gagnkvæmt. Hjá ömmu vildu þau öll vera sem allra mest. Við bjuggum heldur langt í burtu að hennar mati og kvartaði hún oft hástöfum yfir því. En þegar við komum í bæinn fengu strákarnir mínir ærlegt knús frá ömmu sem þeir elskuðu afar heitt. Henni fannst það súrt að geta ekki passað litlu guttana í haust, þegar við komum í bæinn, en þá var hún orðin fárveik. Hólmfríður hafði ríka réttlætis- kennd og lá ekki á skoðunum sínum. Henni voru ofarlega í huga málefni aldraðra enda starfaði hún síðustu æviárin að aðhlynningu þeirra. Börn voru henni líka hjartans mál en hún hafði starfað í mörg ár á leikskóla og víst að mörg börn áttu þar höfði að ástríku brjósti að halla. Hólmfríður var afar skemmtileg kona. Hún gat rökrætt af festu svo úr varð hin mesta skemmtun og oft var svo sann- arlega hlegið af hjartans lyst á heimili hennar. Hún var líka snillingur í mat- argerð og hafði gaman af því að elda góðan mat. Hólmfríður hafði sérstaklega gam- an af því að ferðast og fékk sem betur fer tækifæri til að fara víða. Áhugi hennar á íþróttum hafði vart nokkur takmörk og vitneskja hennar á því sviði sló öllum við. Og þegar stórleikir voru í enska boltanum stóð mikið til. Það var mér mikill heiður að fá að kynnast þessari góðu konu og með gleði og virðingu skal ég halda minn- ingu henni á lofti gagnvart drengj- unum mínum. Minning um góða konu lifir að eilífu. Í haust sagðir þú mér, kæra Hólm- fríður að þú tækir bara því sem hönd- um bæri og reyndir að gera gott úr því. Það hefur mér alltaf fundist ein- kenna þig og ég hef svo oft dáðst að þér fyrir það. Hjartans þakkir fyrir tryggð, vináttu og ótakmarkaðan kærleika þinn okkur til handa. Elsku Bragi minn. Góður Guð styrki og leiði þig á erfiðum stundum. Vaktu minn Jesú, vaktu í mér, vaka láttu mig eins í þér, sálin vaki þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf. (Hallgr. Péturss.) Guðlaug Árnadóttir. Ég kynntist Hoffý fyrst sumarið 1988 þegar ég fór að koma inn á heim- ili hennar og Braga sem kærasta Lúlla, yngsta sonar þeirra hjóna. Hún tók mér opnum örmum og varð ég strax hluti af fjölskyldunni. Hoffý var ótrúlega kraftmikil, hrein og bein og traust sínum nánustu. Það er ótal margs að minnast á þessum tæpu tuttugu árum sem eru liðin. Hoffý hafði mjög gaman af að ferðast og best leið henni í miklum hita – það var hálf kalt ef hitamælirinn sýndi minna en 30 gráður. Þau Hoffý og Bragi voru dugleg að heimsækja okkur Lúlla, oft ásamt foreldrum mínum, hvar sem við höf- um búið í heiminum. Við eigum nú yndislegar minningar um ævintýra- ferðir bæði um Ísland og Suður-Kar- olínu, Flórída, Ástralíu, Singapore, Malasíu, Indónesíu og um England. Við héldum upp á 60 ára afmæli Hoffýar í Sydney í Ástralíu og henni fannst nú ekki mikið mál að fljúga í 30 klukkutíma til að koma til okkar. Við ferðuðumst víða í þeirri ferð og var Hoffý óhrædd við að prófa óvenjuleg- an mat eins og krókódíla-, strúts- og kengúrukjöt sem henni fannst gaman að segja barnabörnunum frá þegar heim var komið. Dýrmætust er ferðin sem við fórum saman í núna í vor um Cornwall á Englandi. Þá var Hoffý orðin mjög lasin en bar sig vel og vildi njóta ferðarinnar og við áttum öll yndislegan tíma saman. Hoffý var mikil íþróttaáhugamann- eskja og voru hún og Lúlli harðir Liv- erpool-aðdáendur á móti feðgunum sem styðja Manchester United. Ég man eftir mörgum símtölum til Lúlla þegar Liverpool var að spila. Þá hafði Hoffý oftar en ekki eitthvað til mál- anna að leggja. Hinn og þessi leik- maður var handónýtur eða „Jess… sástu markið“ og mikið var fagnað þegar Liverpool vann. Fjölskyldan skipti Hoffý mestu máli, hún var mjög stolt af uppruna sínum að norðan og allri fjölskyldu sinni. Hún studdi þéttingsfast við strákana sína í hverju sem þeir tóku sér fyrir hendur, var tengdadætrun- um afskaplega góð og elskaði barna- börnin sín mikið. Henni leið allra best með þau öll í kringum sig. Ég er afar þakklát fyrir allar ynd- islegu samverustundirnar og þá ást, vináttu og hlýju sem Hoffý veitti mér. Hennar verður sárt saknað. Guð blessi minningu hennar. Sigríður Sigurðardóttir. Elsku Hoffý, dagar þínir eru nú all- ir. Ég vil þakka þér fyrir þau 22 ár sem ég þekkti þig. Þakka þér fyrir hversu góð amma þú varst. Þakka þér fyrir öll góðu heilræðin sem þú gafst börnunum mínum. Þín er sárt saknað. Þakka þér fyrir alla hjálpina í gengum tíðina. Nú kveikjum við fjölskyldan á ömmukerti á hverju kvöldi og hugsum til þín. Hvíldu í friði. Þín tengdadóttir, Svava Ýr Baldvinsdóttir. Elsku amma. Ég veit ekki hvort þú hefur huga þinn við það fest. Að fegursta gjöf sem þú hefur er gjöfin sem varla sést. Ástúð í andartaki augað sem glaðlega hlær hlýja í handartaki, hjarta sem örar slær. Allt sem þú hugsar heiminum breytir til. Gef þú úr sálarsjóði, sakleysi fegurð og yl. (Úlfar Ragnarsson.) Takk fyrir öll góðu árin okkar, amma mín. Og ég veit að þér líður vel núna. Þinn ömmustrákur, Birkir Þór Guðmundsson. Elsku amma mín. Vertu nú yfir og allt um kring, með eilífri blessun þinni. Sitji guðs englar saman í hring, sænginni yfir minni. Þín ömmustelpa, Fanney Björk Guðmundsdóttir. Elsku amma mín. Ég þakka þér fyrir öll góðu og skemmtilegu árin sem við áttum sam- an. Ég gleymi þeim aldrei. Sérstak- lega þegar við sátum saman og horfð- um á fótboltaleiki, ég tala nú ekki um þegar þínu liði, Liverpool, gekk vel. Þá var gaman hjá þér. Ég man t.d. þegar Liverpool varð Evrópumeistari og þú hoppaðir hæð þína í loft upp í sófanum á Þorragötunni. Það fannst mér fyndið. Hvíl í friði, elsku amma. Arnór Snær Guðmundsson. Er veturinn heilsar og fölnuð lauf- blöðin fjúka um kveður Hólmfríður systir mín þetta jarðlíf. Hún barðist hetjulegri baráttu í rúmlega ár við krabbamein. Hólmfríður er þriðja systirin sem lýtur í lægra haldi fyrir þessum illvíga sjúkdómi. Áður eru farnar Selma Dóra, yngsta systir okk- ar, sem lést langt um aldur fram árið 1993. Sigurbjörg Petra lést svo fyrir hálfu öðru ári. Við veikindi þeirra beggja stóð Hólmfríður eins og klett- ur við hlið þeirra systra og reyndi að létta þeim stundirnar. Það var stór systkinahópur sem ólst upp norður í Vogi við Raufarhöfn. Í hópnum voru tvennir tvíburar, allt stúlkur sem hvorki er algengt nú til dags né var í þá daga. Nú er annar tví- burinn úr hvoru parinu farinn. Eftir erum við tvær systur, tveir bræður og tvær fóstursystur. Eins og gengur voru mörg verkin bæði úti og inni sem við systkinin þurftum að taka þátt í. Dugnaðarfork- ur var hún Hólmfríður systir mín og lá ekki á liði sínu þá á unga aldri frekar en síðar á ævinni. Hún vildi þó heldur vinna úti við í sveitinni en inni enda einstaklega lagin við að hjálpa lömb- unum í heiminn á vorin. Hólmfríður var hrein og bein, hafði ákveðnar skoðanir sem hún lá ekki á, en bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hún var traustur vinur vina sinna og ávallt stoð og stytta fjölskyldunnar. Ung fór hún til Reykjavíkur og kynntist þar manni sínum, Braga, og eignuðust þau þrjá syni, allt góða drengi sem bera foreldrum sínum vitni um hlýtt og gott uppeldi. Um tíma bjó fjölskyldan á Hellissandi og var þar oft æði gestkvæmt hjá þeim. Þótti fólki alltaf gott að koma vestur og dvelja um tíma. Eins og gefur að skilja voru síðustu vikurnar í lífi Hólmfríðar erfiðar. Má segja að Bragi hafi ekki vikið frá sjúkrabeði konu sinnar. Ég minnist með lotningu ástar og hlýju þeirra hjóna hvort til annars er hann var að búa hana undir svefninn kvöld eitt á sjúkrahúsinu. Því gleymi ég aldrei. Vertu sæl elsku „litla“ systir. Þú varst hetja. Minning þín lifir. Þín systir, Halldóra. Fyrsta minning mín um frænku mína Hólmfríði er þegar ég var í leik- skóla á Hálsaborg. Það fór sko ekki á milli mála að við vorum vinkonur, alla- vega í mínum augum. Hún var ekki fullorðin sem ég þurfti að berjast fyrir að halda mínum fyrirætlunum eða plönum gagnvart og standa á mínu. Á hverjum degi fór ég inn í eldhús til hennar þar sem hún vann þar á Háls- aborg og sat þar löngum stundum með ís. Já, hún gaf mér alltaf ís. Þetta er í minningunni. Í minningunni eyddi ég líka öllum mínum frítíma af leikskólanum heima hjá henni og Braga í Brekkuselinu. Þar eyddi ég tímanum í að spjalla eða horfa á „Heilsubælið“ Allt þar var sport, hún átti meira segja svona fjar- stýringu sem tengdist í video-tækið með snúru, og spólaði ég fram og til baka bara til að geta notað þetta flotta tæki. Stundum fékk ég meira segja að þvælast með syni hennar Hólmgrími þegar hann var að keyra sendibíl. Fékk hann viðurnefnið besti frændi, sem og nokkrir aðrir frændur mínir og er ég fer að hugsa bera flestir þeirra nafnið Hólmgrímur. Það fylgir kannski nafninu að vera yndislegar manneskjur. Þegar ég varð eldri minnkuðu sam- skipti okkar mikið og þegar ég lít til baka þykir mér það miður. Það er bara svo margt annað sem fær ein- hvernvegin forgang að oft vill þetta verða svona. Ég minnist síðustu stundanna með Hólmfríði, en þær munu sitja svo sterkt í minni mínu alla mína ævi. Ég og bróðir minn vorum send í nætur- gistingu til Hólmfríðar og man ég hvað mér fannst skrítið að bróðir minn ætlaði að gista með mér enda orðinn sextán ára og ekki vanur að gista. Líklega hefur mér verið sagt hvað var í vændum og er mér sagt að svo hafi verið en ég virðist ekki vilja muna þá hlið málsins. En þessa ör- lagaríku nótt dó mamma mín (Selma Dóra Þorsteinsdóttir), systir Hólm- fríðar. Ég gleymi ekki þegar pabbi kom til þess að segja okkur þetta, ég hlaupandi um og látandi eins og ég vildi ekkert heyra þessar fréttir. En mikið var samt gott að vera hjá Hólm- fríði, ég aðeins að nálgast tíu ára ald- urinn. Hún tók þéttingsfast utan um mig og ég man að ég skildi ekki af hverju hún var svona leið. Að hafa verið hjá henni var það besta fyrir mig enda skildi ég ekkert í þessu. Að ég myndi aldrei sjá mömmu mína aftur, það er ekki á færi 10 ára gamals barns að skilja. Hólmfríður og mamma voru miklar vinkonur og vissi mamma mín það best að Hólmfríður hafði svo gott vald á mér. Nú er hún komin yfir móðuna miklu og vona ég að þar hitti hún mömmu og geti þær spjallað, hlegið, sungið og spilað. Líklega hafa þær um nóg að tala. Svo veit ég að þær fylgjast með ástvinum sínum sem eru enn hér á jörðu. Þegar ég dey, sem ég vona að verði ekki strax, hlakka ég svo sann- arlega til að geta komist í fjörið til systranna. Ég sé þær fyrir mér, mömmu, Sifu og Hólmfríði, með bros á vör við skemmtilegan endurfund. Eig- ið yndislegan tíma saman, elsku syst- ur. Vil ég votta Braga, Gumma, Lúlla, Ella og fjölskyldum þeirra samúð mína og öllum þeim sem standa sem næst. Hrefna Ýr Guðjónsdóttir. Horfin er á braut frá okkur mann- fólkinu og hafin til æðra sviðs vinkona okkar Hólmfríður Hólmgrímsdóttir. Við sitjum eftir í sorg og getum ekki breytt Guðs vilja. Veikindi Hólmfríðar komu okkur mörgum verulega á óvart, fyrir rúmu ári síðan geislaði hamingjan af henni og Braga manni hennar. Framtíðin var björt, þau voru á besta aldri, áttu miklu barnaláni að fagna og barnabörnin voru líf þeirra og yndi. Þá kom reiðarslagið, illkynja sjúkdómur í báðum lungum. Sumum virðist vera gefinn meiri styrkur en öðrum og sagði hún strax að þetta væri bara til að sigrast á og þegar hún var spurð um heilsuna vantaði alltaf bara rétt herslumuninn á bata. Hún gaf sig aldrei með þetta og heyrðum við starfsfólkið á spítalanum kalla hana orkuboltann. Hólmfríður Hólmgrímsdóttir. Sterkt nafn, sterk kona til orðs og æð- is, raunsæ og með mikla réttlætis- kennd. Dugleg og drífandi. Okkar kynni hófust fyrir fjörutíu árum er þau hjónin fluttust árið 1967 í gamla íbúðarhúsið á Rifi í Snæfellsbæ. Ekki var samgangurinn mikill í fyrstu enda flestir eiginmenn á sjónum og konurnar í fiskverkun með börnin nánast á bakinu því þær þurftu auk vinnu að gæta bús og barna. Það gafst ekki mikill tími í kaffiráp í þá daga og það var ekki fyrr en við vorum öll flutt á Hellissand og börnin farin að stækka að kynnin fóru að aukast. Sennilega byrjuðu þau þannig að Hólmfríður hafði mikinn áhuga á að fylgjast með hreppsmálunum og vildi fá að vita hvað væri að gerast en varð oft vör við að það voru oft mismunandi útgáfur í gangi. Á þessum árum var ég viðloð- andi hreppsmálin og átti því að vita hið rétta og þar sem hún var hreinskiptin kona og vildi fá svörin milliliðalaust kom hún bara í heimsókn og spurði formálalaust: Ingi, er þetta satt? Stundum þurfti ég að kynna mér mál- ið betur og þá fórum við í heimsókn til þeirra Braga og ræddum málin. Við vorum ekki samstiga í flokkum en allt- af skildum við sátt á velli. Þessi hrein- skiptni var okkur mikils virði. Breytingar verða á högum fólks og þannig æxlaðist að við fluttum öll á höfuðborgarsvæðið og þar héldu sam- skipti okkar áfram í sterkari vináttu sem leiddi til þess að við Bragi urðum samstarfsmenn á Nýju-Sendibílastöð- inni. Þá fórum við að fara í frí saman, meðal annars til sólarlanda. Það var með eindæmum gleðilegur tími og margt brallað saman. Stundum vorum við í sömu íbúðinni, eins og t.d. á Kýp- ur þaðan sem við fórum í ógleyman- lega ferð bæði til Egyptalands og Ísr- aels. Þessar ferðir lifa í minningunum en það sem okkur þykir allra vænst um er þegar þau hjónin komu í sjötíu ára afmælið hennar Sigurlaugar sem haldið var á Kanarí í nóvember í fyrra. Þá var Hólmfríður orðin veik en lét það ekki aftra sér að mæta. Hólmfríður var góður vinur og einn var sá þáttur sem segir m.a. margt um umhyggjusemi og vináttu hennar og lýsir henni vel. Í mörg ár eftir að Sig- urlaug varð lasin kom Hólmfríður í heimsókn á hverjum föstudegi ef hún mögulega gat, alltaf klukkan ellefu. Fyrir utan alla vináttuna vill Sigur- laug sérstaklega þakka fyrir þessar heimsóknir, hún beið eftir þeim alla vikuna og þótti þær ómetanlegar og jafnvel lækning. Við kveðjum Hólmfríði með hlýhug og þökkum henni innilega fyrir allar samverustundirnar og biðjum góðan Guð að styðja og styrkja Braga eig- inmann hennar, svo og börnin, tengda- börnin, barnabörnin, ættingja og vini. Ingi Dóri og Sigurlaug. Hólmfríður Hólmgrímsdóttir Sem eiginkona mikilvirks húsvarðar okkar var hún traust stoð hans og bakhjarl. Við þökkum lipurð hennar og margháttað liðsinni í orði og athöfn. Við vottum Braga og fjölskyldunni einlæga samúð í missi þeirra. Minning hennar lifi. Fyrir hönd húsfélaga í Þorragötu 5, 7 og 9, Bjarni Bragi Jónsson. HINSTA KVEÐJA  Fleiri minningargreinar um Hólmfríði Hólmgríms- dóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.