Morgunblaðið - 17.12.2007, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 17.12.2007, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 17. DESEMBER 2007 19 VESTURLAND Eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur vala@simenntun.is Borgarnes | Í Safnahúsi Borgar- fjarðar voru fyrir tveimur árum haldnar aðventusamkomur þar sem lesið var upp úr bókum, flutt tónlist, sagðar sögur og jólaend- urminningar. Ein af þeim sem rifjaði upp jólaminningar sínar var Eygló Lind Egilsdóttir og sem með frásögn sinni um heilagleika jólanna í bernsku heillaði marga og hafa margir beðið hana að skrásetja frásögnina. Það er þó ekki eins og Eygló sé háöldruð kona, heldur á besta aldri og hún féllst á að segja fréttaritara frá jólunum um það leyti sem hún var sex ára eða ára 1956. Saumaði jólafötin ,,Við vorum 16 systkinin og ég er níunda í röðinni. Mamma er frá Færeyjum og hafði því með sér færeyska strauma á jólahald- ið. Eftirvæntingin var mikil segir Eygló ,,og þetta var á þeim tíma þegar eplin og appelsínurnar komu bara fyrir jólin. Pabbi keypti heila kassa og eplalyktin var ilmur jólanna. Mikið var bak- að fyrir jólin og ekki til siðs að borða neitt af smákökunum fyrr en á jólunum. Eygló segir að mamma hennar hafi límt fyrir kökudunkana enda hætt við því að stór systkinahópur léti annars freistast til að ná sér í nurtu. ,,Mamma fór alltaf til Reykjavíkur fyrir jólin þar sem hún keypti efni í jólakjólana og jólafötin. Það var svo spennandi að sjá efnið sem mamma kom með. Hún saum- aði alla kjólana og ég skil ekki þolinmæðina, við héngum yfir henni á meðan hún var að sauma, spennt að fylgjast með og svo voru hljóðin í saumvélinni svo notaleg. Mamma skammaði okkur aldrei og hefur aldrei talað við okkur í óblíðum tón. Keppni um hver færi ekki að grenja ,,Á Þorláksmessu var það hangikjötslyktin í bland við hrein- lætisilminn sem gerði allt svo há- tíðlegt. Um kvöldið fórum við öll systkinin í bað í stórum bala, eitt og eitt í einu. Mamma skrúbbaði okkur en pabbi tók við okkur með handklæðin tilbúin. Við fórum alltaf í keppni um það hver færi ekki að grenja þegar sápan fór í augun. Síðan fórum við í glæný náttföt sem mamma hafði saum- að. Á aðfangadagsmorgun minnist Eygló þess að þegar börnin vökn- uðu og komu fram þá héngu jóla- fötin og jólakjólarnir á sín hvoru herðatrénu, slaufurnar tilbúnar í hárið, sokkar og fínpússaðir skór. ,,Hvílík sjón, en við máttum ekki fara í þetta fyrr en síðar um dag- inn. Mamma læsti stofunni og við settumst í tröppurnar þvegin og greidd og komin í sparifötin. Pabbi var með kýr og við þurft- um að bíða eftir því að hann kæmi úr fjósinu og væri búinn að þvo sér, þá var stofan opnuð. Mér fannst ég fara inn í höll því allt var svo fínt. Mamma skreytti ekki mikið en hún var svo smekkleg, við vorum með lítið jólatré skreytt með englahári sem glitr- aði svo fallega á. Fjölskyldan sett- ist til borðs, þrátt fyrir þrengsli sátu allir sáttir og hlustuðu á jólamessuna í útvarpinu á meðan borðað var. Eygló segir að lamba- læri hafi verið í jólamatinn og meðlætið brúnaðar kartöflur og steikt kál. ,,Mamma steikti hvít- kál, svo er sett út á það salt og sykur og soðið við lágan hita í hálftíma. Þetta er færeyskt og ég hef alltaf svona sjálf á jólunum. Í eftirrétt fengu þau ávexti úr dós með rjóma. ,,Keyptur var kassi af niðursoðnum ávöxtum fyrir jólin, þótt pabbi og mamma væru ekki með neitt bruðl var passað að nóg væri til. Kveikti í eldhúsgardínunum Eygló segir að ekki hafi mikið verið um jólagjafir enda hafi það ekki verið aðalatriðið, heldur öll þessi stemning, hátíðleiki og frið- ur. ,,Þessi jól fékk ég að halda á kerti í fyrsta sinn og horfa í ljós- ið. Það var svo fallegt og glamp- aði svo fallega í eldhúsglugganum alveg þangað til ég var komin of nálægt gardínunum og kveikti í þeim. Stóri bróðir minn var snöggur að kippa þeim niður í vaskinn og mamma fann nýjar og setti upp. Svo var ekki rætt um það meir. Aðfangadagskvöld leið í friði og gleði. ,,Við fengum okkur eitthvert glingur sem við lékum okkur að en fórum ekki seint í háttinn því nóttin var heilög. Það mátti ekki spila, hvorki á að- fangadagskvöld né jóladag. Ég sakna þessa heilagleika í dag því manni finnst að það sé margbúið að halda jólin þegar þau koma. Eitt af því sem Eygló er minn- isstætt eru jólaböll kvenfélagsins sem voru árviss viðburður. ,,Kon- urnar gáfu kakó og maður mátti borða eins og maður vildi af smá- kökum. Þær voru alveg ofboðs- lega góðar, sérstaklega loftkök- urnar og ég sé fyrir mér andlitin á þessum gömlu, góðu, duglegu konum sem sáu um að gleðja okk- ur. Þarna var spilað á harm- onikku og dansað í kringum jólatré sem í minningunni var svo stórt að það gnæfði upp úr hús- inu. Og jólasveinar voru á ferð- inni þá eins og nú. Jólaskrautið í Borgarnesi á þessum tíma segir Eygló hafa verið bjallan sem hékk yfir verslunarmiðstöðinni í Eng- lendingavík. ,,Hún var svo stór og flott að maður gat staðið og horft á hana lengi lengi, en hún var strengd á milli húsa. Í Englend- ingavík var verslunarkjarni og það var svo gaman að horfa á vörurnar sem voru að koma og maður þekkti alla í búðunum. Umgengst engil á hverjum degi Eygló sem sjálf á sjö börn, seg- ir að sér hafi tekist að skapa sömu jólastemningu og hún ólst upp við ,,Mér hefur tekist að halda þessari stemningu, einfald- leika og þessum friði sem jólin eru. Aðalatriði jólanna er að vera saman og ég hef þennan góða arf úr foreldrahúsum í hjartanu sem er innri friður. Jólin eru hátíð friðar og friðurinn er ávöxtur trúarinnar. Eygló segir trúna hafa hjálpað sér gegnum lífið og það sé ómetanlegt að eiga hana. ,,Ég hef aldrei séð engil, en samt umgengst ég einn á hverjum degi. Það er mamma mín sem heitir Jó- hanna Lind og er orðin 91 árs. Hún er sannkallaður engill í mannsmynd og ég á henni margt að þakka. Þessi hlýja og góða nærvera er himnesk. Saknar heilagleika jólanna Morgunblaðið/Guðrún Vala Stemning Eygló segir að sér hafi tekist að skapa sömu jólstemningu og hún ólst upp við. „Aðalatriði jólanna er að vera saman og ég hef þennan góða arf úr foreldrahúsum í hjartanu sem er innri friður,“ segir Eygló. Eftir Gunnar Kristjánsson Gundarfjörður | „Þetta námskeið er mjög gott tækifæri fyrir konur sem eiga sér drauma og hugmyndir um rekstur af einhverju tagi til að vinna þær til enda og komast að því hvort fyrir hugmyndinni er rekstrar- grundvöllur eða ekki,“ sagði Sigur- borg Kr. Hannesdóttir, einn þátttak- enda á Brautargengisnámskeiði sem haldið var í Grundarfirði. Frá því í september sl. hafa sjö konur af Snæfellsnesi stundað nám á svokölluðu Brautargengisnámskeiði sem haldið er af IMPRU með stuðn- ingi Samtaka sveitarfélaga á Snæ- fellsnesi og hefur Kristín Björg Árnadóttir, atvinnuráðgjafi SSV, verið umsjónarmaður námskeiðsins. Á námskeiðinu hafa konurnar farið í gegnum vinnu með viðskiptahug- mynd frá því að hún verður til og komið er á framkvæmdastig. Kennt var í Grundarfirði og komu kennarar að einu sinni í viku en alls er námskeiðið 70 stundir. Að sögn Kristínar Bjargar hefur það sýnt sig að þessi námskeið hafa skilað mjög góðum árangri. Þannig séu nú um 50–60% kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri og telji flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það hvort þær færu af stað með rekstur. Hugmyndin í framkvæmd Viðurkenningu fyrir bestu við- skiptaáætlunina hlaut Sigurborg Kr. Hannesdóttir. „Þetta er hugmynd sem ég hef gengið með í maganum um nokkra hríð og þegar ég sá þetta námskeið auglýst ákvað ég að sjá hvernig hún myndi þróast í gegnum þátttöku á því,“ sagði Sigurborg. Spurð um næstu skref sagðist hún myndi væntanlega ganga í að koma hugmyndinni á koppinn strax eftir áramót en taldi ekki tímabært að gefa upp á þessu stigi málsins út á hvað hugmyndin gengi. Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson Brautargengiskonur Aftast eru Anna Dóra Markúsdóttir, Helena Jónsdóttir og Jóhanna H. Halldórsdóttir, í miðröð eru Sigurborg Kr. Hannesdóttir og Guðbjörg Gunnarsdótir og fremst þær Erna G. Jónsdóttir, Heiðrún Hösk- uldsdóttir og Kristín Björg, umsjónarmaður námskeiðins á Snæfellsnesi. Gott tækifæri fyrir konur sem dreymir um rekstur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.