Morgunblaðið - 17.12.2007, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 17.12.2007, Blaðsíða 34
34 MÁNUDAGUR 17. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR sínum í leik og starfi að eftir var tek- ið. Um leið og við félagarnir tregum góðan dreng vottum við fjölskyld- unni allri okkar innilegustu hluttekn- ingu. f.h. Félags fréttamanna, Borgþór Arngrímsson, Þórdís Arnljótsdóttir. Ég vil fyrir hönd íþróttahreyfing- arinnar í Hafnarfirði minnast Jóns Gunnars Grjetarssonar sem var for- maður Íþróttabandalags Hafnar- fjarðar (ÍBH) frá 2003 og til dauða- dags 8. desember 2007. Ég minnist þess tíma þegar Jón Gunnar kom til skjalanna sem formaður ÍBH. Þarna var á ferðinni glæsilegur maður með mikla og jákvæða útgeislun. Margir könnuðust við hann sem fréttamann á RÚV en hann hafði um árabil verið virkur í tennishreyfingunni sem for- maður tennisdeildar BH og einnig sat hann í stjórn Tennissambands Ís- lands. Jón Gunnar var áhugamaður um allar íþróttir og á þeim grunni gaf hann kost á sér til formennsku í ÍBH. Jón Gunnar var mjög öflugur for- ystumaður fyrir ÍBH og var einstak- lega gott að vinna með honum. Hann gekk í öll mál og leysti af hendi af mikilli samviskusemi og sá ekki vandamálin heldur reyndi að einbeita sér að lausn mála. Góð staða Íþrótta- bandalagsins í dag er ekki síst hon- um að þakka. Hans verður sárt sakn- að úr íþróttahreyfingunni enda taldi hann sig eiga margt ógert á þeim vettvangi. Íþróttahreyfingin í Hafn- arfirði þakkar Jóni Gunnari og vottar honum virðingu sína fyrir hans góðu störf í þágu hennar. Samúð og sam- hugur okkar er hjá fjölskyldu hans en missir þeirra er mikill. F.h. Íþróttabandalags Hafnarfjarðar. Óskar Ármannsson, framkvæmdastjóri. Starfa, því nóttin nálgast, nota vel æviskeið, ekki þú veist, nær endar ævi þinnar leið. Starfa, því aldrei aftur ónotuð kemur stund, ávaxta því með elju ætíð vel þín pund. (Jón Helgason.) Sannarlega notaði Jón Gunnar Grjetarsson vel sitt æviskeið. Hann var framúrskarandi skýr- mæltur og góður fréttamaður, víðles- inn og fróður um landið sitt, sögu þess og gæði og óspar á að miðla þeirri þekkingu. Starfsvettvangur hans var ekki eingöngu bundinn við sjónvarpið, íþróttahreyfingin naut krafta hans um skeið, enda sér meðvitandi um þá forvörn er felst í heilbrigðu tóm- stundarstarfi, ekki síst barna og ung- menna. Við starfsfélagar Önnu, eiginkonu hans, nutum góðs af íslenskukunn- áttu Jóns Gunnars er hann rýndi til gagns í skýrslur og plögg er við vild- um koma skammlaust frá okkur. En framar öðru þekktum við Jón Gunn- ar sem manninn hennar Önnu, pabba Andra, Söndru og Tinnu á hlýlegu heimili þeirra við Brunnstíginn. Þar var ekki í kot vísað er glaðst skyldi með glöðum fyrir árshátíðir eða sum- arkomufagnað í garðinum, og drjúg eru handverkin þeirra, innan húss sem utan. Þá skynjuðu allir sem til þekktu að hæfileikar og mannauður hvers og eins í fjölskyldunni fengu notið sín, því ekki skorti uppörvun, leiðsögn og hvatningu í dagsins önn. Veikindi Jóns Gunnars urðu eitt af stóru verkefnum lífsins, þar sem enginn skoraðist undan þátttöku og bjargföst von um bata var ávallt sú leiðarstjarna er fylgt var. Hugur og fyrirbænir okkar allra á Norðurbergi hafa beinst til aðstand- enda Jóns Gunnars undanfarna mán- uði og biðjum við algóðan guð að veita þeim styrk og áframhaldandi trú á lífið. Með kærleikskveðjum. Vinirnir á Norðurbergi. Jón Gunnar var foringi Stang- veiðiklúbbs Ríkisútvarpsins. Við gáf- um veiðihópi okkar vinnufélaganna þetta virðulega nafn þegar við tókum að veiða saman fyrir áratug og gönt- uðumst með skammstöfunina, SKRÚV. Jón Gunnar veiddi af ástríðu og list og tröllin fyrir austan kölluðu hærra á hann en okkur hina. Hann leiddi ferðir okkar austur í Skaftafellssýslu þar sem tröllin búa, sjóbirtingarnir stóru sem toga fastar og berjast harðar en aðrir fiskar. Og hvatti þá sem ílentust í klúbbnum í Stangveiðifélag Reykjavíkur. Á síðasta vetri fól Stangveiðifélag- ið okkur félögum vörslu nýs veiði- svæðis austur í Meðallandi, Steins- mýrarvötn og svæði 1 og 2 í Grenlæk. Árnefndin nýja hélt þang- að fjórum sinnum í sumar til að starfa, kanna og veiða undir forystu formannsins Jóns Gunnars. Í fyrstu ferðinni í maí kenndi hann þess meins sem að lokum dró hann til dauða. En þrátt fyrir mikla aðgerð, meðferð og veikindi var hann hrókur alls fagnaðar í öllum ferðum okkar á svæðið. Eftirminnilegust er þegar hann staldraði við á heimleið við bleikjuhylinn góða skammt frá veiði- húsinu seint í júní. Svo kom hann með rígvæna bleikju og litríka veiði- sögu. Jón Gunnar var alltaf flottastur á veiðistað. Græjurnar af bestu gerð og þó sumt hefði hann átt lengi, sá aldrei á neinu. Hann umgekkst stangir og búnað af alúð og virðingu. Allt átti sér stað, hólkar og töskur voru vönduð og alltaf eins og ný. Samt var hann alltaf tilbúinn að lána okkur allt sem við höfðum gleymt, hvort sem var stangir eða hjól. „Hvað má bjóða þér, kallinn minn?“ Þegar morgnaði ræsti hann kaffi- könnuna upp úr 6, klukkutíma fyrir dögun þegar haustaði. Svo gekk hann til veiða í ljósaskiptunum, bú- inn að gyrða allar græjur á sinn stað. Hann var svo vel búinn að hann hefði getað mætt á ball, skórnir og goretex vöðlurnar tandurhrein, skyrtan óað- finnanleg og klútur um hálsinn. Fjólublár nobbler í barminum, fyrsta tilraun dagsins. Fyrst veiddum við félagarnir á Seglbúðasvæðinu í Grenlæk. Jón Gunnar tók alltaf stærstu fiskana, oftast í Búrhylnum þar sem tröllin ku safnast saman í hundruðum. Þá brosti hann breitt og var ósínkur á ráð um hvernig helst mætti bera sig að við slík stórvirki. Árlegar ferðir okkar austur urðu fljótlega í Tungu- fljót í Skaftártungu þangað sem for- inginn fór sína síðustu veiðiferð um miðjan september. Hann gekk með okkur til veiða á föstudagseftirmið- degi, á laugardegi dró af honum og hann var rúmfastur þar til við héld- um heim á hádegi á sunnudegi. Það var sérkennileg tilviljun að þegar okkar maður komst ekki lengur til veiða gránaði veröldin, tíu senti- metrar af snjó féllu í Skaftártungu fyrir hádegi á laugardegi, það varð ekki frekar veitt þessa helgi austur þar. Við vottum eiginkonu, börnum og fjölskyldu Jóns Gunnars Grjetars- sonar dýpstu samúð okkar. Kæri vinur, takk fyrir samfylgdina og allt og allt. Við vonum að veiðist vel á hinum bakkanum, þar sem tröllin eru helmingi stærri. Nú blikar þar á pússaða stöng og fjólubláan nobbler. Veiðifélagar á Ríkisútvarpinu. Á þrjátíu ára ferli mínum í stjórn- unarstörfum fyrir íþróttahreyf- inguna var það kannski ánægjuleg- ast og verðmætast að hitta þar og kynnast hundruðum einstaklinga, sem komið hafa og farið í áranna rás. Einn þeirra manna, sem þar urðu á vegi mínum, var Jón Gunnar Grjet- arsson, þjóðþekktur frétta- og sjón- varpsmaður, óvanalega glæsilegur, bar með sér góðan þokka, vörpuleg- ur og glaðbeittur, ræðumaður góður og stundum ákafur en jafnan drengi- legur og málefnalegur. Jón var í forystu Tennissambands Íslands og skömmu síðar formaður Íþróttabandalags Hafnafjarðar, sem er eitt stærsta og öflugasta héraðs- samband innan ÍSÍ. Það tókust strax með okkur góð kynni. Hann laðaði beinlínis að sér með jákvæðri framgöngu, háttvísi og háleitum markmiðum. Hann hafði einlægan áhuga á öllu því sem við kom íþróttum og vildi veg þeirra sem mestan. Fylgdi sínum málum fast eftir en var heiðarlegur og réttsýnn og naut virðingar og áheyrnar á formanna- fundum. Hann tók hlutverk sitt alvarlega en það var jafnframt stutt í gamanið og kímnina og mikið gátum við stundum hlegið og skemmt okkur, við Jón Gunnar, þegar sá gállinn var uppi. Hann hvarf mér um stund, þegar ég lét af störfum í herbúðum íþrótta- hreyfingarinnar, en fundum okkar bar aftur saman fyrir réttum mán- uði, þegar Jón Gunnar var heiðraður af ÍSÍ fyrir vel unnin störf. Þá hafði heilsu hans hrakað mjög og ljóst að hverju stefndi. Enda þétt handtakið að leikslokum. Ég kveð góðan dreng og samferðamann. Svona getur lífið verið grimmt og miskunnarlaust að kalla á burt 47 ára gamlan mann í blóma lífsins. En eftir stendur minn- ingin og myndin af þessum glæsi- lega fulltrúa hafnfirskrar æsku, þar sem hann stendur keikur í ræðustól og messar yfir okkur hinum með hljómfagurri kunnuglegri röddu. Eiginkonu, börnum og fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðar- kveðjur en segi um leið: Mikið getið þið verið stolt af honum. Og við öll. Ellert B. Schram. Góður drengur og félagi er fallinn frá, langt fyrir aldur fram eftir erf- iða baráttu við óvæginn sjúkdóm. Ég kynntist Jóni Gunnari á vett- vangi íþróttanna þar sem hann starfaði sem forystumaður í Tenn- issambandi Íslands og einnig sem formaður Íþróttabandalags Hafnar- fjarðar. Upp í hugann koma margar góðar stundir sem við áttum saman. Jón Gunnar hafði mikinn áhuga á hinum fjölmörgu álitaefnum í íþróttahreyfingunni og gat á stund- um gleymt sér og talað alveg ofboðs- lega mikið. Fréttamannagenið leyndi sér ekki. Í kynnisferð ís- lenskra íþróttaforystumanna í Dan- mörku fyrir 3 árum yfirtók Jón fund með forystumönnum afreksmála af áhuga fyrir efninu. Fyrirlesarinn komst varla að vegna framgöngu og áhuga Jóns. Eftir fundinn sagði ég við Jón: „Mikið ofboðslega getur þú talað mikið, Jón!“ og hann svaraði að bragði: Já, ég er bara svona þegar ég hef áhuga á einhverju!“ Já, Jón hafði einlægan áhuga á íþróttastarf- inu og starfsemi íþróttahreyfingar- innar og hann lagði gríðarlega mikið á sig á þeim vettvangi, þannig að eft- ir því var tekið. Maður fann vel fyrir krafti og áhuga Jóns í störfum hans, ekkert var ómögulegt og allt var hægt. Hann var einstaklega heill og sanngjarn í störfum sínum. Ég skynjaði hversu stoltur Jón var af syni sínum, Andra, sem er mikill af- reksmaður í tennis, og hversu vel hann fylgdist með öllu sem sneri að hans íþróttaferli. Íþróttahreyfingin hefur misst góðan liðsmann og frábæran félaga. Hans verður sárt saknað en hugur okkar er hjá fjölskyldunni sem hefur misst mest. Megi minningin um Jón Gunnar Grjetarsson lifa. Stefán Konráðsson. Jón Gunnar Grjetarsson frétta- maður á Sjónvarpinu er látinn að- eins 46 ára að aldri. Hann barðist við krabbamein í örfáa mánuði og þrátt fyrir óbilandi trú, hugrekki og von beið hann lægri hlut. Eftir sitja fjöl- skylda og vinir vanmáttug og harmi slegin en umfram allt ósátt við að missa hann – allt of fljótt. Ég kynntist Jóni Gunnari þegar hann hóf störf á fréttastofunni. Okk- ur varð strax vel til vina enda ekki annað hægt. Allir sem kynntust hon- um og hans yndislegu fjölskyldu smituðust af samheldni þeirra, sam- stöðu og áhuga þeirra á lífinu. Hann hafði brennandi áhuga á útivist, veiðiskap og göngum, og íþrótta- hreyfingin naut krafta hans fram á síðasta dag. Hann var alla tíð virkur í félagsmálum og fréttamenn nutu krafta hans í kjarabaráttunni því Jón Gunnar var formaður í félagi okkar um árabil. Á þeim vettvangi var hann óþreytandi baráttujaxl. Fjöl- skyldan bjó um árabil í Svíþjóð þeg- ar börnin voru lítil og sænsk áhrif voru áberandi í lífi þeirra. Átti það bæði við í matarvenjum og ýmsum siðum sem þau tileinkuðu sér frá Sví- þjóð enda leið þeim vel þar. Jón Gunnar var einstök mann- eskja og góður vinur. Traustur, áreiðanlegur, tryggur fjölskyldufað- ir og eiginmaður. Glaðværð er orð sem lýsir honum vel. Hann var sam- viskusamur og framúrskarandi fréttamaður og nærvera hans á fréttastofunni hafði góð áhrif á alla sem urðu á vegi hans. Umfram allt hafði hann áhuga á lífinu og öllum þess margbreytileika. Ekkert var svo lítilfjörlegt að hann sýndi því ekki áhuga. Börnin voru augasteinar hans og Önnu og sólargeislar þeirra í lífinu. Stoltið leyndi sér ekki þegar hann sagði frá afrekum þeirra í leik og í starfi. Á kveðjustund þakka ég og fjöl- skylda mín ómetanlega vináttu og kærleik frá fyrstu tíð. Elsku Anna, Andri, Sandra, Tinna, foreldrar og aðrir ástvinir, megi góður guð veita ykkur styrk á erfiðum tíma og kjark til að sjá sólina koma upp á ný. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir. Fyrir um tólf árum flutti nýtt fólk í næsta hús við okkur á Brunnstíg í Hafnarfirði. Húsbóndann þekktum við strax í sjón, hann hafði verði um- sjónarmaður þátta um gönguleiðir í Sjónvarpinu. Við áttum eftir að kynnast honum betur í gegnum hversdagsspjall, vingjarnleg köll á milli garða, árlegar götuveislur, þar sem hann og Anna kona hans voru alltaf potturinn og pannan, og svo auðvitað eins og aðrir landsmenn í gegnum Sjónvarpið þar sem hann starfaði sem fréttamaður. Þá áttu dætur okkar, Hrefna og Sandra, eft- ir að verða góðar vinkonur. Í sumar kom í ljós að Jón Gunnar glímdi við alvarlegan sjúkdóm. Við sáum hvernig hann tókst á við hann opinskátt af hugdirfsku og karl- mennsku. Innst inni vonuðum við og trúðum að þessi kraftmikli og glað- væri maður færi með sigur af hólmi. Nú er hann fallinn frá langt fyrir aldur fram. Við sjáum hann ekki framar glaðbeittan með derhúfu og verkfæri við fallega bárujárnshúsið sitt í friðsælu götunni okkar. Þannig mun hann þó lifa í huga okkar og einnig sú gleði sem hann veitti okkur með návist sinni og sú virðing sem hann vakti með hetjulegri baráttu sinni. Við sendum fjölskyldu hans inni- legar samúðarkveðjur. Fjölskyldan á Brunnstíg 6. Jæja ljúfurinn, elsku vinur, þá ertu farinn. Alltof fljótt, alltof snemma. Við ákváðum að tala saman að lágmarki annan hvern dag meðan á veikindum þínum stæði. Við ákváðum líka fyrir nokkrum árum að borða hádegismat saman einu sinni í mánuði, það tókst með afbrigðum vel, við borðuðum auðvitað ekki sam- an einu sinni í mánuði en meðaltalið var í lagi og við hittumst í símanum í staðinn. Ég sat hjá þér, Kópavogur- inn blasti við út um gluggann, sléttur og yfir honum afskaplega falleg des- emberbirta og það var svo mikill friður yfir þér, ég átti von á því á hverri stundu að þú myndir opna augun, glotta og búa til úr þessu til- efni til smá hláturs, þú varst jákvæð- ur fram á síðustu stundu. Svo já- kvæður að það er varla hægt að skilja hvaðan menn geta fengið slíka gjöf, nema þá helst að gáfan komi beint frá Guði, sem er þá í samhengi við það að þeir deyi snemma sem Guð elskar. Við tilheyrðum báðir sérstaklega sterkum hópi vina í Árbæjarhverf- inu, heilbrigðir og góðir krakkar, stunduðum íþróttir af miklu kappi og lékum okkur myrkranna á milli, átt- um öll auðvelt með nám og nýttum okkur það. Sögurnar um grallara- skap og ævintýri hinna ýmsu aldurs- skeiða uppvaxtarins væru upp- spretta heilla bóka. Við hittumst um daginn, ég, þú og Guðni, tíminn leið alltof hratt en mikið var gaman, sög- ur rifjaðar upp og þú baðst okkur að slaka aðeins á því að þig verkjaði svo undan hlátrinum. Okkar vinátta styrktist með árunum, stundum komu göt í samskiptin af eðlilegum ástæðum en alltaf var eins og við hefðum síðast hist í gær þegar við byrjuðum að tala um dagana og veg- ina. Þegar fréttirnar um krabbamein höfðu borist þér í sumar þá var ljóst að ekkert annað kom til greina en barátta. Það yrði tekið á hlutunum með jákvæðni og sigurvissu að leið- arljósi, þannig var þitt viðhorf, þú að vísu beiðst lægri hlut í þessari orr- ustu en stríðið vannstu svo sannar- lega, með beint óbilað bak til síðustu stundar. Það er óraunverulegt að þú skulir vera farinn héðan, óraunveru- legt að hugsa til þess að við skulum ekki eiga eftir hérna megin grafar að hlæja saman eða gleyma okkur í skemmtilegum vangaveltum, það verður því skemmtilegra að hittast síðar. Ég veit að þú ert á góðum stað, þú ert einn þeirra heppnu sem við getum verið örugg um að hefur feng- ið þitt pláss á betri stað. Elsku Anna, Andri, Sandra, Tinna og aðrir að- standendur, Guð blessi ykkur og styrki í sorginni. Fritz Már Jörgensson. Við þýðendur á fréttastofu Sjón- varps viljum minnast Jóns Gunnars og þakka fyrir þau ár sem við störf- uðum með honum. Jón var einstaklega ljúfur í sam- starfi og ætíð boðinn og búinn til að liðsinna okkur, jafnt í því sem hann kom að og þegar við þurftum hjálp við að þýða torskilda sænsku. Það er þungbært að sjá á bak fólki í blóma lífs síns. Við vottum fjölskyldu Jóns Gunn- ars og vinum okkar dýpstu samúð. Líf Magneudóttir, Hilmar Ramos, Bárður R. Jónsson. Jón Gunnar Grjetarsson vitjaði mín á einstakan hátt að kvöldi dags- ins sem hann dó. Þá gerðist það sem ekki á að geta gerst og hefur aldrei fyrr gerst að farsíminn minn byrjaði að hringja inni í opinni leikmynd á miðri sýningu söngleiksins Ást í Borgarleikhúsinu. Sem betur fór gat ég gert ráðstafanir til þess að enginn yrði þessa var en sá á birtinum núm- er Boga Ágústssonar og hann sagði mér að Jón Gunnar væri dáinn. Framhald söngleiksins verður mér ógleymanlegt því að í honum er sagt: „...þegar heilinn bilar er lítið hægt að gera...“ og í framhaldinu sunginn texti Stefáns Hilmarssonar: Hvernig stóð á því að loginn slokknaði svo fljótt og kólguský dró fyrir sól? Stórt er spurt en svarafátt. Stundum virðist allt svo kalt og grátt. Þá er gott að ylja sér við minninganna glóð lofa það sem ljúfast var meðan á því stóð. Jón Gunnar stóð mér nærri á tvennan hátt. Þegar ég hvarf um hríð frá störfum við Sjónvarpið gerði hann þættina Gönguleiðir sem voru á svipuðu róli og þættirnir Stiklur. Það þótti mér mjög vænt um. Síðar átti ég þess kost að verða samstarfs- maður þessa ljúflings, sem nú hefur fallið frá langt um aldur fram. Á ung- lingsárum tókst vinátta milli mín og föður hans í keppni í frjálsum íþrótt- um sem hefur haldist síðan. Jón og fleiri mér nákomnir, sem hafa hlotið svipuð örlög, stóðu fyrir hugskot- sjónum mínum í sýningunni eftir- minnilegu þegar sungið var: ...og þau sakna þín en þau þakka fyrir það að hafa þó fengið að eiga með þér þetta líf. Þessi orð Stefáns Hilmarssonar geri ég að mínum að leiðarlokum og votta nánum vinum og aðstandend- um Jóns Gunnars Grjetarssonar mína innilegustu samúð. Ómar Ragnarsson. Jón Gunnar Grjetarsson  Fleiri minningargreinar um Jón Gunnar Grjetarsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu á næstu dögum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.