Morgunblaðið - 28.02.2008, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 28.02.2008, Blaðsíða 28
28 FIMMTUDAGUR 28. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN ÞAÐ fer ekki á milli mála að við sem í forsvari höfum verið fyrir eldri borgara höfum orðið áþreifanlega vör við óánægju þeirra félaga okkar sem minnst bera úr býtum. Tvennum skilaboðum af því tagi skal hér komið á framfæri. Ég hitti á dögunum greinagóðan eldri borg- ara sem var heldur þungt niðri fyrir og bað mig fyrir skilaboð til stjórnvalda, enda hefði hann fullt tilefni til þessa, hefði ekkert nema bætur frá Trygg- ingastofnun ríkisins og fáeinar krónur úr líf- eyrissjóði, krónur sem þó nægðu til að skerða laun hans frá Trygg- ingastofnun. Hann sagði að ekki væri ofmælt að stjórn- málamenn sem nú hefðu völdin hefðu lofað eldra fólki gulli og grænum skógum kæmust þeir til valda og mættu hafa einhver áhrif á gang mála öldruðum til hagsbóta. Það hefðu vissulega orðið stjórnarskipti og á valdastóla hefði sezt fólk sem hvergi hefði dregið af sér í loforðaflaumnum. Aðaláherzlan átti að vera að bæta hag þeirra lakast settu og því þótti honum og mörgum fleirum það býsna kynd- ugt þegar fyrsta aðgerðin snerti hressasta og um margt bezt setta fólkið með þeim fagnaðarboðskap að allir ættu að fara út á vinnumark- aðinn, án allra skerðinga. Hann hefði einfaldlega ekki heilsu til þess, enda nær áttræðu. Hins vegar hefði hon- um þótt sanngjarnara að skyldu- sparnaðurinn hans frá lífeyr- issjóðnum hefði átt að vera án skerðinga, alla vega með þokkalegu frítekjumarki. Svo langt náði hins vegar höfðingsskapurinn og rausnin ekki eins og hann sagði. Hann hefði einnig kynnt sér hvað gerast skyldi 1. apríl og ekki lagaði það aðstæður hans. Þar væri að finna fyrirheit um frí- tekjumark á fjármagns- tekjur og svo sem gott og blessað fyrir þá sem ættu inneignir digrar, en aftur ítrekaði hann að nær væri að horfa til tekna frá lífeyrissjóð- unum með frí- tekjumarkið. Hann spurði einfaldlega hvar fallegu lof- orðin til handa þeim tekjulægstu væri að finna og hvenær kæmi að fram- kvæmd þeirra í alvöru? Og rétt í þessum orðum rituðum fékk ég tölvu- póst að norðan með yfirskriftinni: Veist þú um krónurnar mínar? Og orðrétt: „Ég er í stökustu vand- ræðum því ég tel mig hafa týnt pen- ingum. Fyrir síðustu kosningar lof- uðu báðir stjórnarflokkarnir að bæta hag aldraðra og fyrir jólin voru nefndar háar tölur í þeim tilgangi. Ég er dæmigerður eldri borgari, giftur og bý í eigin húsnæði. Konan mín fær ekki ellilaun. Ég hef fengið ellilaun 25.000 kr. og tekjutryggingu 81.000 kr. Alls 106.000 kr. Þar sem ég fæ 23.000 kr. frá lífeyrissjóði lækkar tekjutrygging mín um 10.000 kr. Samtals fæ ég því frá ríkinu 96.000 kr. Svona var þetta fyrir kosningar í fyrra og það hefur ekkert breyst, þó að margir haldi annað. Ef þú veist svarið, ertu þá til í að taka þátt í leit- inni að krónunum? og senda spurn- inguna áfram til sem flestra og jafn- vel til þingmannsins þíns. Ef þessi leit að krónunum skilar einhverju þá er örugglega einhver í fjölskyldu þinni sem gæti séð fram á aðeins betri tíma. Bestu þakkir fyrir aðstoðina og svo kemur undirskriftin: Hreinn Halldórsson, Hvammstanga.“ Þessu tvennu er hér með komið á framfæri og enn einu sinni minnt á það að ef stjórnvöld vilja í alvöru setja það fólk í forgang sem minnst hefur þá höfum við í forystu eldri borgara hér sem á landsvísu sett fram skýrar tillögur um þetta og afar einfaldar í framkvæmd. Hvernig væri að líta á þær tillögur? Veist þú um krónurnar mínar? Helgi Seljan skrifar um málefni og kjör aldraðra »Hann sagði að ekki væri ofmælt að stjórnmálamenn sem nú hefðu völdin hefðu lofað eldra fólki gulli og grænum skógum kæm- ust þeir til valda ... Helgi Seljan Höfundur er eldri borgari. Í 123. pistli mínum um íslenskt mál (Mbl. 16.2.08) ræddi ég m.a. um forsetningarnar að og af. Nú hefur Baldur Jónsson, prófessor emeritus, skrifað grein um svipað efni í Morgunblaðið undir heitinu: Hvers vegna er bragð að matn- um? (Mbl. 22.2.08). Þar teflir hann fram nokkuð öðrum sjónarmiðum og því þykir mér að áhugasamir lesendur eigi rétt á nánari skýringu af minni hendi. Gaman er að ein- hverju – hafa gam- an af einhverju Sá sem tekur sér fyrir hendur að kanna notkun einstakra for- setninga verður að huga vandlega að samhengi þeirra, t.d. þarf að gefa gaum að þeim sagnorðum sem notuð eru með þeim. Tökum sem dæmi nafnorðið gaman. Flestir ættu að geta fallist á að við getum sagt: (1) Gaman er að börnunum/einhverju (2) Foreldrarnir hafa gaman af börn- unum/einhverju Í dæmi (1) vísar forsetningin að upphaflega til staðar (hvar) en í nútímamáli er merkingin óbein, nokkurs konar tillitsmerking. Í dæmi (2) vísar forsetningin af upp- haflega til hreyfingar (hvaðan) en í nútímamáli er merkingin marg- þætt. Meginmáli skiptir að í dæm- um sambærilegum við (1) eru not- aðar sagnir sem vísa til kyrrstöðu, einkum sögnin vera, en í dæmum hliðstæðum (2) eru notaðar sagnir sem vísa til hreyfingar, t.d. sagn- irnar hljóta og fá, enn fremur hafa og finna í yfirfærðri merkingu. Dæmi 1-2 og hliðstæður þeirra mynda með kerfisbundnum hætti merkingarandstæður. Með því að skoða hug sinn getur hver og einn gengið úr skugga um það, sbr. eft- irfarandi dæmi: (3) Mér er ánægja að því að – ég hef ánægju af því að (4) Mikið/lítið gagn er að e-u – hafa mikið/lítið gagn af e-u (5) Skaði/skömm er að e-u – hljóta skaða/skömm af e-u (6) Ávinningur er að e-u – hafa ávinning af e-u (7) Gott bragð er að matnum – finna bragð af matnum Dæmi af þessum toga skipta ugglaust tugum í nútímamáli og auðveldlega má fullvissa sig um að andstæðurnar að : af (hvar : hvað- an) hafa ávallt verið notaðar með þessum hætti í íslensku. Með vísun til þessa verður að telja afar mik- ilvægt að fjalla ekki aðeins um no. bragð og þær forsetningar sem með því eru notaðar heldur einnig um samhengið, þ.e. bragð er að e-u og finna bragð af e-u. Bragð er að e-u – finna bragð af e-u Í grein sinni tilgreinir Baldur þrjú dæmi úr Biblíunum frá 1859 og 1912 og samsvaranir tveggja þeirra úr nýju Biblíunni. Til yf- irlits sýni ég tvö dæmanna (let- urbreytingar mínar): (8) a. eda ætla þinn þjón finni smekk af því, sem hann etur og drekkur? (2. Sam 19, 35 (1859)) b. Verdur þad bragdlausa etid án salts eda er nokkur smekkur þess hvíta í egginu? (Job 6, 6 (1859)) (9) a. eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem eg et og drekk? (2. Sam 19, 35 (1912)) b. Verður hið bragðlausa etið saltlaust, eða er gott bragð að hvít- unni í egginu? (Job 6, 6 (1912)) (10) a. Getur þræll þinn enn fundið bragð að því sem hann etur og drekkur? (2007) b. Verður hið bragðlausa etið saltlaust? Er nokkurt bragð að hvítu í eggi? (2007). Það virðist koma Baldri á óvart að ýmist eru notaðar forsetning- arnar af eða að í dæm- um (9a-b) en þó blasir við að dæmin eru ger- ólík, þ.e. finna bragð af (9a) og bragð er að (9b). Ég fæ ekki betur séð en forsetningarnar að og af séu notaðar með hefðbundnum hætti í dæmum 8-9 og í fullu samræmi við þær reglur sem vikið var að í dæmum 1-2, sbr. dæmi 3-7. Eina frávikið er dæmi (10a), þar er að finna breyt- inguna finna bragð af e-u > finna bragð að e-u og skal nú vikið að því atriði. Finna bragð að e-u Í grein sinni segir Baldur: „Orðalagið finna bragð að e-u er því rétt og góð ís- lenska og á sér djúpar rætur. Hins vegar er tæpast hefð fyrir því að nota af í stað að í þessu sambandi, þótt þess séu dæmi.“ Undirritaður telur að hér sé of djúpt í árinni tekið. Sönnu nær virðist honum að segja: Orðalagið finna bragð að e-u er óvenjuleg ís- lenska og samræmist naumast al- mennum reglum um notkun for- setninganna að og af. Ekki mun vera unnt að benda á neinar heim- ildir er sýni raunverulega notkun orðasambandsins né hliðstæður þess, hvorki úr fornu máli né síðari alda máli. Eina heimildin um orða- sambandið er dæmi úr orðabók Konráðs Gíslasonar (1851) og ætla má að þaðan hafið það ratað í orða- bók Blöndals og Íslenska orðabók. Því ber ekki að neita að um langt skeið hefur verið talsverð óvissa um notkun orðasamband- anna finna bragð af matnum og finna bragð að matnum. En skyldi það ekki einmitt vera vegna þess að í síðara tilvikinu er um að ræða ‘skólakenningu’ sem reist er á veikum grunni, kenningu sem stangast á við málkerfið og mál- kennd almennings. Til gamans skal þess getið að Jón Hilmar Jónsson tilgreinir aðeins orðasambandið finna bragð af matnum í verki sínu Orðastað (1. útg. 1994). Lokaorð Í grein sinni segir Baldur: „Þótt vel hafi tekist til um þetta atriði í nýju Biblíuútgáfunni, er uppi um- talsverð óvissa um það nú á dögum hvort nota skuli að eða af með orð- inu bragð ‘matarbragð’. Þeirri óvissu þyrfti að eyða.“ Um fyrri hluta þessara ummæla er það að segja að undirritaður stendur á því fastar en fótunum að breytingin finna bragð af e-u > finna bragð að e-u sé síst til bóta og hún verð- ur ekki studd málfræðilegum rök- um hvað þá með vísun til íslenskr- ar biblíumálshefðar. Þá tel ég engin efni til að eyða óvissu um það ‘hvort nota skuli að eða af með orðinu bragð’, öllu nær væri að fjalla rækilega um þær reglur sem liggja þar að baki og þann merk- ingarmun sem felst í mismunandi notkun. Hvers vegna finnum við bragð af matnum? Jón G. Friðjónsson svarar grein Baldurs Jónssonar Jón G. Friðjónsson »Ekki mun vera unnt að benda á neinar heimildir er sýni raunverulega notkun orða- sambandsins né hliðstæður þess Höfundur prófessor í íslensku máli við HÍ. SÉRA Gunnar Jóhannesson skrif- ar „Enn um trú, guðleysi og kær- leika“ í Morgunblaðið 23. febrúnar. Í greininni segir: „Kærleikurinn – líkt og aðrar dyggðir – er okkur sann- arlega eðlislægur vegna þess að við eru sköpuð af kærleiksríkum Guði og í hans mynd. Kristið fólk hefur aldrei talið sig hafa einkarétt á mann- gæsku. Þvert á móti er lögmál Guðs skráð á hjörtu allra (sbr. Jer 24.7; 31.33; Rm 2.14- 15).“ En um hjörtu allra segir Kristur nokkur sjálfur: „Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifn- aður, þjófnaður, mann- dráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öf- und, lastmælgi, hroki, heimska“ (Mk. 7:21). Skítleg sköpun atarna og ömurleg fyrirmynd. Gunnar varar við afstæðis- og sjálfshyggju því þá geti menn „ekki grundvallað siðferði sitt á öðru en eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum“. Slíkt telur hann „mesta böl okkar daga“ sem sé að „útrýma vitund okkar um raunverulegan sannleika og viðmið í lífinu.“ Þessi grimmu örlög segir hann „rökrétta afleiðingu af undanhaldi guðstrúar.“ Í kaflanum sem ég vísaði í segir frá fræðimönnum og faríseum sem varð á að gagnrýna lærisveina Jesú fyrir að þvo sér ekki um hendurnar (fánýt- an sið og mannasetningu) áður en þeir snæddu. „Jesús svarar þeim: ,,Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetn- ingar einar. Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna.“ Enn sagði hann við þá: ,,Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar. Móse sagði: „Heiðra föður þinn og móður þína.“ og „Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.“ En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: „Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,“ það er musterisfé, þá leyfið þér hon- um ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður. Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt ann- að gjörið þér þessu líkt““ (Mk. 7:6- 13). Kristur segir meira um vert að drepa óþæg börn en þvo sér um hendurnar fyrir mat- inn. Guð fyrirskipar svokölluð heiðursmorð og Kristur tekur undir. „Af ávöxtunum skul- uð þér þekkja þá“ (Mt. 7:16) sagði Jesús líka en Gunnar kýs að meta kristnina ekki af grát- legum ávöxtum hennar „hvort sem það eru of- sóknir, krossferðir eða annað“ því fólk verði „að skilja að það sem fyrir augu ber endurspeglar alls ekki boðskap Jesú Krists“. Ég gef mér að Gunnar líti svo á að orð Guðs sé hinn „endanlegi sann- leikur“. Boðskapur Jesú er klárlega að örlög hræsnara séu í eldsofninum eilífa, þar verði grátur og gnístran tanna (Mt. 13:42). Reyndar segir Jes- ús nægja að sívirða mann til að „hafa unnið til eldsvítis“ (Mt. 5:22). Hvaða álit höfum við á foreldri sem býr barni sínu eilífar kvalir því það þókn- ast ekki foreldrinu, foreldri sem hef- ur þó ekki fyrir því að gera óumdeil- anlega vart við sig? Kristnir menn heiðra guð sinn vissulega með vörunum og lofa „kristið siðgæði“. Þeir segja að allt fari fjandans til ef frá þessu er snúið eða það ekki tilgreint sérstaklega í lögum. En hvað felst í þessu kristna siðgæði, algildum sannleika? Klár- lega að ástir samkynhneigðra eru „viðurstyggð“ („Þeir skulu líflátnir verða.“ 3M 20:13). Og boðorðin segja kristnir grund- völl siðgæðis. Æðst þeirra er auðvit- að að ekki skuli aðra guði hafa en ógeðfelldan guð Ísraelsmanna. Ekki má teikna af honum myndir, eða nokkru öðru! Ekki má nefna nafn hans við hégóma (t.d. síma). Ekkert má aðhafast á laugardögum o.s.frv. Eitt þekktasta boðorðið er líklega að menn skuli ekki drýgja hór. „Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hór- karlinn og hórkonan“ (3M. 20:10). „Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór“ (Lk. 16:18). „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Mt. 528). Þetta eru orð Krists, kristið siðgæði. Í boðorðunum stendur beinlínis að menn megi ekki gera neinar myndir af nokkru sem til er (2M 20:4). Kristnir menn túlka það sumir svo að ekki megi gera myndir af guði (Jesús var guð, samt maður (með skítlegt hjartalag?), samt sonur guðs, æ!). Aðrir að myndirnar megi gera en ekki tilbiðja þær. Sumir múslimar túlka sömu orð (í sömu bók) svo að ekki megi gera mynd af Spámann- inum. Er Gunnar Jóhannesson mað- urinn til að segja þeim og okkur hin- um hver hinn „raunverulegi sannleikur“ er? Grundvallar Gunnar mat sitt á honum ekki bersýnilega á „eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum“? Við megum líklega þakka fyrir að prestar hér eru þó komnir þetta langt frá Guðsorði og kristilegu sið- gæði. Sem betur fer þroskast siðferð- iskennd okkar og því er dapurlegt þegar þeir lofa nokkur þúsund ára og löngu úreltan leiðarvísi í siðferð- ismálum. Úreldingin er augljós nenni menn að lesa Biblíuna eða fylgjast með þeim sem láta ráðast af henni. Skítlegt hjartalag Reynir Harðarson skrifar um trúmál og svarar grein Gunnars Jóhannessonar » Séra Gunnar segir lögmál Guðs skráð á hjörtu allra og Jesús segir að þaðan komi saurlifnaður, manndráp, hórdómur, illmennska, heimska o.fl. skítlegt Reynir Harðarson Höfundur er sálfræðingur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.