Morgunblaðið - 28.02.2008, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 28.02.2008, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. FEBRÚAR 2008 33 ar og hver annarri fallegri og betri. Hún var svo góð manneskja, lífsglöð og hlý. Við þökkum fyrir allt sem hún gaf okkur. Elsku Systa, við söknum þín. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar. Minningin um yndislega frænku mun ylja okkur í framtíðinni. Það er svo sárt að hugsa til þess að við munum ekki hittast aftur. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Elsku Ævar, Sibba og Denni, Addi og Sandra, þið hafið misst svo mikið, yndislega konu og mömmu. Við sendum ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Minning Systu er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. Lilja, Gunnar, Hekla og Viktor. Systa vinkona mín er dáin, mig langar að skrifa nokkur orð um hana í kveðjuskyni. Ég var svo lánsöm að kynnast þessari góðu og skemmtilegu konu og að hún varð góð vinkona mín. Leiðir okkar Systu lágu fyrst saman árið 1994 þegar við unnum saman í Kristnesi og hefur vinátta okkar haldist óslitin síðan. Systa hafði yndi af að vera úti í náttúrunni og var mjög meðvituð um hana. Marg- ar stundir áttum við saman við að fylgjast með fuglum og dást að því sem fyrir augu bar, oft þurftum við ekki að fara langt, bara inn í Kjarna eða á brýrnar. Systu auðnaðist að lifa góðu og lifandi lífi og hafði hún mikinn áhuga á öllu sem tengdist líf- inu og sálinni, nokkur námskeið fór- um við á saman, t.d. Búddanám- skeið og heilunarnámskeið, og ýmsa aðra fræðslu. Það var alltaf gott að koma til Systu og notalegt að sitja við kertaljós inni í stofu eða þegar sólin skein á sumrin úti á palli hjá henni innan um sumarblómin henn- ar sem hún hafði ræktað sjálf. Systa greindist með alvarlegan sjúkdóm fyrir rétt tæpu ári. Hún átti mjög góða og samheldna fjöl- skyldu sem stóð með henni í veik- indum hennar og gerði henni sjúkraleguna eins bærilega og hægt var. Elsku Systa, takk fyrir samfylgd- ina. Elsku Ævar, Sibba, Denni, Addi og Sandra, innilegar samúðar- kveðjur og megi guð vera með ykk- ur. Anna Freyja. Mig langar að skrifa nokkur orð um yndislega vinkonu sem fallin er nú frá, hana Systu mína. Við Systa kynntumst þegar við stunduðum nám saman við Nudd- skóla Íslands veturinn 2004-2005. Við urðum fljótt mjög góðar vinkon- ur og milli okkar myndaðist einstök vinátta sem ég verð ævinlega þakk- lát fyrir. Það var alltaf gaman að umgangast Systu. Hún bjó yfir mik- illi bjartsýni og einstakri lífsgleði sem smitaði út frá sér og hjálpaði henni við að takast á við veikindi sín. Systa var líka skemmtilega hreinskilin. Hún hikaði ekki við að láta skoðanir sínar í ljós þótt þær væru jafnvel alveg á skjön við skoð- anir annarra sem nálægir voru. Systa var einstaklega hlý mann- eskja með stórt hjarta. Maður fékk alltaf gott knús hjá Systu. Börnin mín voru bæði mjög hænd að henni og þótti frábært bæði að fá hana í heimsókn og einnig að heim- sækja þau Ævar á Akureyri. Ég man alltaf eftir því þegar Elí- as sonur minn hitti Systu í fyrsta skipti, en hann var ekki mjög hrif- inn af nuddskólanum sökum mik- illar fjarveru minnar að heiman. Við mæðgin fórum að heimsækja hana og eftir fimm mínútur var hún al- gjörlega búin að sigra hjarta hans. Þegar við vorum á heimleið eftir heimsóknina sagði hann voða glaður við mig: „Mamma, það var nú bara voða gott að þú fórst í nuddskólann, annars hefði ég ekki kynnst Systu.“ Systa kenndi mér marga góða hluti og einn af þeim var að trúa á Guð. Einhvers staðar á lífsleiðinni hafði ég týnt minni trú en Systa kenndi mér að trúa á ný. Það hefur líka hjálpað mér við að takast á við missinn og sorgina núna. Þótt Systa sé farin frá okkur mun ég alltaf eiga góðar minningar um frábæra vinkonu. Megi Guð og englarnir hans varð- veita þig elsku vinkona. Hulda Þórðardóttir. Það var notalegt og lærdómsríkt að eiga þig að mágkonu og vinkonu Systa mín í þau tæp 40 ár sem við þekktumst. Ekki bara lærdómsríkt fyrir mig heldur og líka allt þitt samferðafólk og fjölskyldu þína sem á nú um sárt að binda. Þú gafst okk- ur sýn inn í heim náttúrunnar sem þú unnir hvar sem þú varst og hvert sem þú fórst. Alls staðar vakti náttúran athygli þína og þú sagðir okkur frá hversu rík að vítamínum og öðrum bætiefn- um berin og jurtirnar væru sem þú tíndir. Þú komst auðveldlega auga á lífið í kringum þig hvort sem það voru fuglar eða fiskar, blóm eða fiðrildi. Þú gerðir meira en að koma auga á það. Öll munum við garðinn þinn þar sem fegurðin og ilmurinn vöktu okkur til vitundar um að sumarið væri komið. Hver planta naut sín, hversu lítil sem hún var. Ef við ekki sáum hana sagðir þú okkur hversu mikið hún hafði stækkað síðan síðasta ár. Stofan þín skartaði líka fallegum blómum sem þú annaðist af alúð og svona væri lengi hægt að telja Systa mín. Nú eru þetta minningarnar einar. Minningar um konu sem unni börn- um sínum. Sagði þeim frá og sýndi allt sem náttúran bauð upp á. Studdi þau og leiddi gegnum upp- vöxt þeirra. Minningar um konu sem unni manni sínum sem stóð eins og klettur við hlið hennar í veikindunum. Minningar um konu sem var vinur vina sinna og er nú sárt saknað. Elsku Ævar, Denni, Sibba, Addi og Sandra. Ég votta ykkur samúð mína og megi Guð gefa ykkur styrk í sorg- inni. Samúðarkveðja til ykkar líka frá Stjána, Ingvari og Atla. Jóhanna Ragnarsdóttir Danmörku. ✝ Jenney BáraÁsmundsdóttir fæddist á Suð- urgötu 25 á Akra- nesi 20. október 1936. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 19. febrúar síðast- liðinn. Foreldrar hennar voru Ás- mundur Bjarnason fiskmatsmaður, f. 11. júlí 1903, d. 1. janúar 2000, og Halldóra Gunn- arsdóttir húsmóðir, f. 29. júní 1907, d. 1. september 1977. Jen- ney ólst upp á Suðurgötu 25 ásamt átta systkinum sínum: Margrét Valdís, f. 20. júní 1925, d. 11. maí 1994, Bjarni Berg- mann, f. 11. september 1926, Hallfríður Steinunn, f. 4. febrúar 1928, Kristinn Ingvar, f. 5. apríl 1929, d. 14. maí 2005, Hafdís Lilja, f. 26. ágúst 1932, Ármann Þór, f. 19. maí 1934, Huldar Smári, f. 31. mars 1938, d. 9. október 1979, og Ólafur Bergmann, f. 11. desember 1940. Jenney hélt heim- ili með föður sínum og móður á Suður- götunni þar til móð- ir hennar lést 1977 og sá síðar um föð- ur sinn á heimilinu þar til hann lést ár- ið 2000. Börn Jenneyjar eru tvö: Hrönn Friðriksdóttir, f. 10. desember 1956, maki Ólafur Sig- urgeirsson, f. 27. október 1952, og Davíð Friðriksson, f. 25. júlí 1959, maki Hrafnhildur Björg- vinsdóttir, f. 5. mars 1960. Barnabörn Jenneyjar eru fimm og barnabarnabörn fjögur. Lengst af starfsævi sinni starf- aði Jenney við fiskvinnslu hjá HB á Akranesi. Útför Jenneyjar fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 14. Látin er tengdamóðir mín Jenney Bára Ásmundsdóttir. Ég var svo lánsöm að fá að kynn- ast Jenneyju fyrir 30 árum. Það var vart hægt að finna betri persónu en hana. Alltaf stutt í brosið og vildi allt fyrir aðra gera. Jenney var höfðingi heim að sækja og hafði alltaf tíma fyrir barnabörnin og barnabarna- börnin að leika við þau og spjalla, sem hændust að henni og var amma Jenney dáð af þeim. Jenney var mikið fyrir að vera úti við og gróður og blóm voru henni hugleikin, eins og sá gróður sem hún kom nálægt bar vitni um. Umhirt af mikilli natni. Ég minnist hennar þegar við vorum með sumarbústað austur í Grímsnesi, hún hafði yndi af því að sitja úti í móanum og dunda við að snyrta gróðurinn og lágu eftir hana þar ófá handtökin. Jenney var mikil handverkskona saumaði nánast allar flíkur sjálf á ár- um áður og ekkert var það sem hún ekki gat ekki gert í höndunum, jafnt prjónskapur sem og ýmislegt föndur sem hún hafði gaman af. Mikið var gaman ferðast með Jenneyju um landið og upplifa nátt- úru landsins með henni. Eina ferð fór hún erlendis á lífsleiðinni og var ég og fjölskyldan í för með henni í þeirri ferð og fengum við að njóta upplifunar hennar af framandi slóð- um sem var henni lengi í minni. Margs er að minnast og margs er að sakna, sem geymist í huga mér. En hér er aðeins farið lauslega yf- ir farinn veg. Smávinir fagrir, foldar skart, fífill í haga, rauð og blá brekkusóley, við mættum margt muna hvort öðru að segja frá. Faðir og vinur alls, sem er, annastu þennan græna reit. Blessaðu, faðir, blómin hér, blessaðu þau í hverri sveit. Vesalings sóley, sérðu mig? Sofðu nú vært og byrgðu þig. hægur er dúr á daggarnótt. Dreymi þig ljósið. Sofðu rótt. (Jónas Hallgrímsson.) Haf þökk fyrir allt, elsku Jenney mín. Þín tengdadóttir Hrafnhildur Björgvinsdóttir. Elsku amma. Það eru margar hugsanir og minningar sem koma upp í huga minn þegar ég hugsa til þín amma. Allar okkar yndislegu stundir sem við höfum átt saman í öll þessi ár. Má þar nefna allar heimsóknirnar til þín og Ása afa á Suðurgötuna, þær eru mér mjög minnisstæðar alveg frá því ég var lítil stelpa og man ég svo vel þegar ég fékk að fara ein til þín í heimsókn með Akraborginni og fékk að gista hjá þér. Ég man það alveg eins og það hefði gerst í gær. Hjá þér var alltaf svo gott að vera og allt- af fannst mér jafn leiðinlegt þegar ég þurfti að fara heim aftur. Ég á líka ótal margar minningar um öll sumrin sem þú eyddir með okkur fjölskyldunni í sumarbústaðnum okkar í Hraunborgunum. Það var yndislegur tími. Það eru til enda- lausar minningar um þig í hjarta mínu og alla væntumþykjuna sem þú gafst mér, af henni áttirðu alltaf nóg. Mér þykir svo vænt um þig amma mín og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig í lífi mínu sem ömmu mína og að þú hafir feng- ið að kynnast henni Nadíu minni er mér svo kært. Þú ert ein sú yndislegagasta manneskja sem ég hef kynnst, elsku amma og ég á eftir að sakna þín svo mikið. Þú hefur alltaf verið mér svo góð, þú ert með hjarta úr gulli. Ég veit að þér líður vel þar sem þú ert núna og ég veit að guð og englar hans umvefja þig hlýju eins og þú hefur umvafið alla aðra. Betri mann- eskju hef ég ekki kynnst. Ég bið góð- an Guð um að geyma þig og blessa þangað til við hittumst næst, elsku amma mín. Við elskum þig heitt og munum alltaf gera, þú átt stóran part af okkar hjarta. Við kveðjum þig að sinni með þessum orðum: Þar sem englarnir syngja sefur þú sefur í djúpinu væra. Við hin sem lifum í trú á að ljósið bjarta skæra veki þig með sól að morgni veki þig með sól að morgni. Drottinn minn faðir lífsins ljós lát náð þína skína svo blíða. Minn styrkur þú ert mín lífsins rós tak burt minn myrka kvíða. Þú vekur hann með sól að morgni. Þú vekur hann með sól að morgni. Faðir minn láttu lífsins sól lýsa upp sorgmætt hjarta. Hjá þér ég finn frið og skjól. Láttu svo ljósið þitt bjarta vekja hann með sól að morgni vekja hann með sól að morgni. Drottinn minn réttu sorgmæddri sál svala líknarhönd og slökk þú hjartans harmabál slít sundur dauðans bönd. Svo vaknar hann með sól að morgni. Svo vaknar hann með sól að morgni. Farðu í friði vinur minn kær faðirinn mun þig geyma. Um aldur og ævi þú verður mér nær aldrei ég skal þér gleyma. Svo vöknum við með sól að morgni svo vöknum við með sól að morgni. (Bubbi Morthens.) Hvíl í friði, elsku amma. Eva María og Nadía Mist. Mig langar til að minnast frænku minnar sem hefur yfirgefið okkur. Ég sá hana nú ekki oft síðustu árin en gamlar minningar eru mér skýr- ar. Jenney, þú varst alltaf svo kát. Það var ákveðin birta sem fylgdi þér. Kannski er birtan svo sterk í minn- ingunni því það var yfirleitt á sól- ríkum sumardögum sem við kíktum í kaffi til þín upp á Skaga. Alltaf var jafn gaman að koma til þín og lang- afa og skottast upp og niður stigana. Ég var pínu smeyk að fara niður í kjallara en ég vissi alltaf af þér við vaskinn eða eldavélina og það veitti mér öryggi. Í skúffunum áttir þú svo dót sem maður gat gleymt sér við að skoða. Minnisstæðust eru gömul tvinnakefli þrædd upp á band. Mér þótti rödd þín líka furðulega skemmtileg. Ég gat setið á eldhús- kollinum og hlustað á þig tala um allt og ekkert. Á sama kolli lærði ég að borða svartfuglsegg. Á meðan ég borðaði eggin sagðir þú mér frá því hvernig þau voru tínd úr hreiðrun- um. Mikið var hann langafi heppinn að hafa þig hjá sér. Hann var sko svo sannarlega í öruggum höndum hjá þér. Þú varst alltaf svo hlý og góð. Nú hittist þið aftur eftir nokkurra ára aðskilnað. Á björtum sumardegi mun ég svo keyra upp á Akranes og sýna syni mínum fallega húsið sem þið bjugg- uð í. Og segja honum hitt og þetta um heimsóknir mínar til þín. Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð, hjartans þakkir fyrir liðna tíð, lifðu sæl á ljóssins friðar strönd, leiði sjálfur Drottinn þig við hönd. (Guðrún Jóhannsdóttir) Íris Hafþórsdóttir. Senn leið að þeim tíma ársins að ég heyrði frá Jenney móðursystur minni á Akranesi. Síðustu árin hafði ég aðstoðað hana við að ganga frá skattframtali. Þessi samtöl verða ekki fleiri. Nú hefur hún kvatt. En það voru ekki tölur og pappírar sem komu upp í huga minn þegar ég minntist þessara ársvissu samtala okkar Jenneyjar. Þessi samtöl voru lýsandi fyrir viðhorf hennar til lífs- ins. Það var jafnan ekki langt liðið á samtalið þegar hún hafði orð á því að þetta væri svo mikil fyrirhöfn fyrir mig. Það var ekki hennar háttur að biðja aðra um aðstoð. Jenney kaus að vera sjálfstæð í lífinu. Fyrir okkur barnabörn Halldóru og Ásmundar á Suðurgötu 25 á Akranesi var Jenney alltaf fasti punkturinn í tilverunni á Suðurgöt- unni. Jenney hélt heimili með ömmu og afa þar eftir að hún flutti upp á Akranes ásamt börnum sínum Hrönn og Davíð. Heimilið á Suður- götu 25 var jafnan viðkomustaður allrar stórfjölskyldunnar og því oft margt um manninn. Þar áttum við krakkarnir griðastað og þær voru margar ferðirnar sem farnar voru með Akraborginni upp á Skaga. Og eftir að skipið fór að flytja bíla í meira mæli og leiðin lá um Akranes, þótt ferðinni væri heitið lengra, var jafnan stoppað á Suðurgötunni. Það voru eðlilega stundum svolítil ærsl sem fylgdu okkur krökkunum þegar við komumst í frelsið á Skaganum. Það kom því iðulega í hlut Jenneyjar að hafa stjórn á hópnum og þótt hún gæti verið ákveðin við okkur þegar þess þurfti með var þó jafnan stutt í grínið og glensið. Hún gat verið stríðin við okkur krakkana og þær eru margar minningarnar sem rifj- ast upp. Flestar eiga það þó sameig- inlegt að leiksviðið er eldhúsið á Suð- urgötunni. Þar var samkomustaður okkar og allar leiðir lágu um það. Það var sama hvort verið var að koma úr kjallaranum eða inn af göt- unni, þar var Jenney og tók fagnandi á móti okkur. Það var gjarnan ein- hver stíðnisglampi í augunum og hún brosti út í annað. Einstaka sinn- um vorum við þó minnt á dimmu kartöflugeymsluna undir útidyra- tröppunum en þá þurftum við líka að vera verulega óþekk. Jenney starfaði lengst af við fisk- vinnslu á Akranesi. Lífið á Suður- götu 25 var því alltaf nátengt því hvernig fiskaðist. Afi hafði verið fiskmatsmaður. Við krakkarnir lærðum því fljótt að það hvernig afl- aðist réð því hvort það hafði verið vinna síðustu dagana. Þegar heilsu fyrst ömmu og síðar afa hrakaði og aldurinn færðist yfir nutu þau umönnunar Jenneyjar heima á Suðurgötunni. Aðstæður á Suðurgötunni voru um margt ekki þær bestu til að sinna umönninni en allt leysti Jenney þetta einstaklega vel af hendi. Fyrir það er ástæða til að þakka, sérstaklega árin sem hún annaðist afa. Eftir að afi féll frá kaus Jenney að flytja sig um set og festi kaup á íbúð að Vallarbraut á Akra- nesi. Það var ekki í hennar huga að flytjast á dvalarheimili en síðustu misseri voru Jenney erfið vegna heilsuleysis og veikinda. Sjálfstæðið varð að víkja fyrir nauðsynlegri umönnun af hálfu annarra. Ég sendi börnum Jenneyjar, Hrönn og Davíð, og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur. Tryggvi Gunnarsson. Jenney Bára Ásmundsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.