Morgunblaðið - 28.02.2008, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 28.02.2008, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. FEBRÚAR 2008 37 Ég veit að ég mun aldrei gleyma Re- bekku, frænku minni. Hún hafði mikil og djúp áhrif á mitt líf og er ég henni mjög þakklát fyrir allt það sem hún færði mér í lífinu. Sem elsta systkinið í hópnum var henni fátt óviðkomandi og voru börn systkina hennar, og barna- börn, þar engin undantekning á. Ég fann að henni þótti gífurlega vænt um okkur öll og gerði allt til að styrkja okkur og styðja á allan mögulegan hátt sem hún gat. Hún var óspör á hrósið og ein sú mest hvetjandi mann- eskja sem ég hef þekkt. Hún meinti hvert orð sem hún sagði og hefði hún aldrei hrósað neinum nema sem ætti það að fullu skilið. Hún var heil og sönn í öllum sínum aðgerðum og orð- um og lá ekki á skoðunum sínum. Vegna þessa skipti hrós hennar, hvatn- ing og skoðanir mig miklu máli. Ég leit- aði oft ráðlegginga hjá henni og lagði hún sig mikið fram við að fá allar stað- reyndir máls fram til að vega og meta og veita bestu ráðleggingu sem völ var á hverju sinni. Hún var mjög falleg, að innan sem utan, skemmtileg, gefandi, mikill húmoristi og svolítið stríðin. Var hún að auki alveg ótrúlega klár og dug- leg. Er það ekki að ástæðulausu sem ég, og svo margir aðrir, tel hana eina helstu fyrirmynd mína í lífinu. Ég átti fjölmargar góðar stundir með Rebekku. Hún bauð mér tvisvar sinnum með sér í sólarlandaferð þegar ég var barn og svo fórum við hjónin í siglingu með henni ásamt fleirum í fyrravor. Allar ferðirnar voru alveg frábærar enda var hún skemmtilegur og góður ferðafélagi. Allra besti dag- urinn í siglingunni var án efa afmæl- isdagur Rebekku sem við eyddum á strandbar á eyju í Karíbahafinu við dynjandi kalypso tónlist, nutum góðra veitinga og köfuðum í sjónum. Fyrir brúðkaupið okkar samdi hún fyndinn texta við lag sem sungið var í veislunni, tók saman fjöldann allan af ljósmyndum og vídeóklippum og hélt skemmtilegustu ræðu í heimi sem enn er talað um, þar sem hún gerði óspart grín að okkur við mikla kátínu veislu- gesta. Allt bar þetta einkenni þess að hún hefði lagt sig alla fram og veit ég að meiri vinna fór í atriðið en hún lét uppi. Það var mjög skemmtilegt að elda fyrir Rebekku, ekki bara lét hún í sér heyra ef henni fannst maturinn góður heldur líka var hún spurul um aðferðir og innihald matarins og hrósaði kokk- unum hástöfum fyrir kunnáttu og verklag í eldhúsinu. Henni þótti best og skemmtilegast þegar boðið var upp á villibráð og gott rauðvín með og vor- um við nýlega búnar að ákveða að það væri sko kominn tími á aðra slíka veislu um leið og sjúkrahúsvist hennar lyki. Mér finnst erfitt að kveðja hana enda var hún ekki bara frænka mín heldur svo margt, margt annað. Við áttum það til að kalla hvor aðra „uppá- haldsfrænku“ enda áttum við gott skap saman og sú nafngift sannleik- anum samkvæm að mínu áliti. Við sér- stök tilefni bar hún nafngiftina „vara- mamman“ en að öðru leyti var hún ein af mínum bestu vinkonum. Ég gæti skrifað heila bók um kynni mín af henni og allt sem hún gerði og stóð fyrir. Ég á eftir að sakna hennar mikið og með trega í hjarta kveð ég Re- bekku þó með þakklæti fyrir allt sem ég lærði af henni og allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Elsku Einar, Ingvar, Anna, afi og amma, sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur og styrk til þess að takast á við sorgina. Inga Lillý. Hún Rebekka kvaddi þennan heim snögglega að morgni þriðjudagsins 12. Rebekka Ingvarsdóttir ✝ Rebekka Ingv-arsdóttir fædd- ist í Reykjavík 24. mars 1951. Hún andaðist á Landspít- alanum við Hring- braut 12. febrúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Bústaðakirkju 21. febrúar. febrúar. Það var vitað hvert stefndi en ekki að þetta gerðist svona fljótt. Við hefðum öll viljað hafa Rebekku lengur meðal okkar en hún var stolt og sjálf- stæð kona og hefði aldrei getað hugsað sér að vera veik og ósjálf- bjarga. Rebekka háði hetju- lega baráttu við krabbameinið. Hún sýndi bæði ótrúlegt þrek og æðruleysi í veikindum sínum og hlífði fjölskyld- unni eins og hægt var. Hún vissi hvað beið og reyndi að undirbúa Einar, Ingvar og Önnu eins og hún gat. Eins var hún Ástu systur sinni, sem glímir við sama sjúkdóm, stoð og stytta í veikindum hennar. Fjölskylda Rebekku var henni allt, bæði hennar litla og stóra fjölskylda. Hún kynntist ung honum Einari sín- um sem hefur verið hennar lífsföru- nautur og voru þau mjög samrýmd. Einar og Rebekka höfðu gaman af að ferðast og fóru með fjölskyldunni margar ferðir til að skoða heiminn og njóta lífsins. Þær minningar eru nú dýrmætar. Hag allra bar Rebekka fyrir brjósti en þó sérstaklega fyrir Einari, Ingvari Erni og Önnu Krist- rúnu. Allt sem hún gerði var í þágu barnanna og hlutu þau ástríkt og gott atlæti. Það uppeldi og lífsgildi sem voru fyrirhöfð á heimilinu verður þeim góður leiðarvísir og gott vega- nesti í lífinu. Ástríki fjölskyldunnar kom vel í ljós í veikindum Rebekku. Þau reyndu að hjálpa henni á allan hátt og voru henni stoð og stytta í öllu sem á þurfti að halda. Það er mikil gæfa að kynnast svona mikilli ást og væntumþykju. Að leiðarlokum Rebekku er margs að minnast og fyrir margt að þakka. Fjölskyldan á sér sterkt bakland og munum við sem endranær hugsa vel hvert um annað og umvefja það sem Rebekku var helgast, Einar og börnin Ingvar og Önnu, ást og umhyggju. Elsku Einar, Ingvar Örn, Anna, Ingvar og Lillý, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Okkar missir er mikill en minningin um góða konu mun lifa. Minning hennar lifir í börn- um hennar. Hvíl í friði, elsku Rebekka, og góða ferð. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofnir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. (Þórunn Sigurðardóttir). Þorsteinn, Ragna, Ingvar og Sigríður Alexandra. Kveðja frá Skeljungi Í dag kveðjum við með söknuði samstarfskonu okkar, Rebekku Ingv- arsdóttur, en sl. 21 ár starfaði hún sem starfsmannastjóri hjá Skeljungi. Nokkrum dögum fyrir andlát Re- bekku áttum við okkar síðasta samtal. Henni var þá ljóst að hún yrði senn að mæta örlögum sínum og taldi afar ólíklegt að hún ætti afturkvæmt. Eigi að síður kom hún með góða ábend- ingu varðandi verkefni sem hún vissi að ég var að vinna. Kjarkur hennar og æðruleysi við þessar aðstæður var einstakt. Fyrir okkur sem höfðum starfað með henni kom þetta ekki á óvart, þannig þekktum við hana. Rebekka ávann sér auðveldlega traust og virðingu með sinni rólegu og yfirveguðu framkomu. Það var fátt sem kom henni úr jafnvægi. Starfs- mannamál eru oft og tíðum flókin og erfið viðureignar jafnframt því að vera mjög gefandi. Hagsmunir heild- arinnar fara ekki alltaf saman við hagsmuni einstakra starfsmanna. Þá valda breytingar oft og eðlilega áhyggjum hjá þeim sem á bitnar. Re- bekka leysti sem best hún gat úr slík- um málum á sinn hlutlæga og faglega hátt og lagði sig ávallt fram um að tryggja að allir færu sáttir frá borði. Rebekka var ráðagóð og reynsla hennar og þekking komu sér oft vel þegar glíma þurfti við krefjandi verk- efni. Rebekka fylgdist vel með straum- um og stefnum. Samhliða starfi sínu stundaði hún m.a. viðskipta- og rekstrarnám og var vel að sér í fræð- um er lúta að fyrirtækjastjórnun. Hún átti stóran þátt í að móta og koma á laggirnar ýmsum nýjungum, meðal annars jafnréttisáætlun, og tók virkan þátt í stefnumótun, markmið- asetningu og gerð viðskiptareglna. Einnig voru henni kær ýmis verkefni er stuðluðu að meiri lífsgæðum eins og samræming atvinnu og fjölskyldu- lífs. Á síðustu árum þurfti Rebekka að glíma við óvæginn sjúkdóm sem hún tókst á við af mikilli þrautseigju en jafnframt af því raunsæi sem ein- kenndi hana. Þrátt fyrir erfið veikindi sinnti hún starfi sínu af alúð og kost- gæfni allt fram í andlát sitt. Eftir lifir minning um góðan vin og traustan félaga. Við þökkum Re- bekku samfylgdina og sendum fjöl- skyldu hennar okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Fyrir hönd Skeljungs, Gunnar Karl Guðmundsson. Mikil er ósanngirni þessa heims. Fólk er kallað burt í blóma lífsins, vin- ir og ástvinir hverfa á braut. Það er svo margt sem við fáum ekki ráðið, en við höfum val um hvernig við lifum hér á jörð og hvernig við snertum líf samferðafólks okkar. Með litlum og stórum ákvörðunum, viðmóti okkar og hvernig við nýtum þekkingu okkar öðrum til góðs skiljum við eftir spor sem ekki verða máð. Þetta skildi Re- bekka og í starfi sínu skapaði hún ný tækifæri til framþróunar. Fyrir nærri tíu árum opnaði hún dyrnar fyrir doktorsnema, sem hún þekkti lítil deili á, án nokkurra skilyrða eða efa- semda. Öllum hindrunum vegna flók- innar gagnasöfnunar var ýtt úr vegi af yfirvegun og með brosi á vör. Öll- um efasemdum mætt með óbilandi trú á nýrri þekkingu. Niðurstaða þessarar rannsóknar hefur getið af sér greinar og bækur og varð grunn- urinn að nýjum kenningum í þjón- ustustjórnun. Allt gert kleift með opnum huga Rebekku. Framsýni hennar skilur eftir sig spor sem ekki gleymast. Fyrir skilning, stuðning og vináttu hennar verð ég ævinlega þakklát. Ég votta fjölskyldu og vinum Re- bekku mína dýpstu samúð. Svafa Grönfeldt. Rebekka réðst til Skeljungs sem starfsmannastjóri árið 1987 og náði að móta starfsmannastefnu félagsins, sem einkenndist af virðingu gagnvart einstaklingnum þannig að litið sé til þarfa hvers og eins bæði hvað varðar möguleika, tækifæri og aðstoð. Það er enginn vafi á, að það innsæi og sú næmni sem Rebekka áorkaði með persónuleika sínum og útgeislun, markaði þessa stefnu, sem einkenndi alla starfshætti félagsins. Enda sýndi það sig, að Gunnar Karl Guðmunds- son, forstjóri Skeljungs, átti eftir að reynast Rebekku einstaklega vel í veikindum hennar og Rebekka hafði oft orð á því að nú skildi hún þegar fólk talaði um að Skeljungur væri ein- stakur vinnustaður þegar vandamál steðjuðu að. Rebekka hafði brennandi áhuga á rekstri fyrirtækisins og menntaði sig frekar á því sviði. Hún skildi að gott starfsfólk var með til að skapa góðan rekstrarárangur. Hún leitaði stöðugt að leiðum til að bæta rekstur fyrir- tækisins og vann af einurð með öðrum stjórnendum að slíkum málum. Re- bekka sinnti hverjum og einum starfsmanni. Hún hafði alltaf tíma og ekkert vandamál var of lítið fyrir hana. Hún bar einlæga virðingu fyrir eldri starfsmönnum félagsins sem höfðu starfað í áratugi hjá félaginu. Ef með þurfti studdist hún við utan- aðkomandi ráðgjafa í erfiðum málum, hvort sem um var að ræða lækna eða sálfræðinga. Þannig hindraði hún oft að vandamál einstaklinga yxu þeim yfir höfuð. Það var henni mikið keppi- kefli að stjórnendur sinntu sínu hlut- verki af ábyrgð og var hún ætíð reiðubúin að vera þeim innan handar sem ráðgjafi. Við Rebekka áttum um níu ára skeið farsæla samleið í fram- kvæmdastjórn félagsins og bundust sterkum vináttuböndum. Rebekka og Lúðvíg hófu síðan MBA-nám saman í HR báðum til mikillar ánægju. Re- bekka varð hins vegar að hverfa frá náminu þegar hún veiktist sumarið 2004. Rebekka og Einar hafa verið au- fúsugestir hjá okkur á Breiðabóls- stað. Mikið var hlegið þegar Rebekka og Lúðvíg kræktu í sama laxinn sitt frá hvorum árbakkanum í Valsham- arsá. Þrátt fyrir veikindi sín undan- farin ár gleymdi Rebekka ekki að lifa lífinu og spjalla, borða góðan mat saman yfir rauðvínsglasi. Ekki skemmdi það að enda kvöldið í heita pottinum í Grafarvoginum heima hjá þeim Einari og halda áfram að leysa vandamál heimsins. Rebekka hefur verið frumkvöðull meðal starfsmannastjóra á Íslandi og mörgum þeirra góð fyrirmynd. Hún hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi þeirra og mótað þá breytingu og þró- un sem orðið hefur í þessum efnum í íslenskum fyrirtækjum. Rebekka eignaðist aldrei óvini í sínu vanda- sama starfi, og vitnar það um sam- skiptahæfni og persónutöfra og úr- ræði sem brugðust henni aldrei. Við hjónin og börnin okkar tvö kveðjum góðan fjölskylduvin, sem við höfum öll vaxið af kynnum og vináttu við. Við biðjum góðan Guð að vernda Einar, Ingvar og Önnu og styrkja þau á þessum erfiðu tímum. Auk þess send- um við öllum þeim fjölmörgu sem eiga um sárt að binda við fráfall Rebekku okkar einlægu samúðarkveðjur. Margrét Guðmundsdóttir og Lúðvíg Lárusson. Rebekka Ingvarsdóttir hóf störf hjá Starfsmannahaldi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli haustið 1972. Hún var þá aðeins tuttugu og eins árs göm- ul. Hún starfaði þar um 15 ára skeið þar til hún gerðist starfsmannastjóri Skeljungs hf. í Reykjavík. Rebekka var glaðvær og ákveðin í framkomu og hún ávann sér strax traust samstarfsmanna og allra þeirra starfsmanna og stjórnenda Varnarliðsins sem hún átti samskipti við. Hún var góður leiðtogi, ráðagóð og hjálpsöm og henni voru sífellt falin ábyrgðarmeiri störf sem hún ætíð sinnti af mestu alúð og trúmennsku. Rebekka notaði öll tækifæri sem henni buðust til endurmenntunar og til að ná meiri þekkingu í starfi. Hún var einnig sífellt vakandi yfir þörfum starfsmanna Varnarliðsins til meiri starfsþjálfunar og starfskunnáttu og beitti sér fyrir ýmsum lausnum þar til umbóta, s.s. námskeiðum, starfsþjálf- un, iðnnámssamningum og ensku- kennslu. Meðal annars annaðist Re- bekka tengsl við starfsmenn Varnarliðsins og miðlun upplýsinga til þeirra. Blað er nefndist Vallar- skjárinn var um tíma gefið út af Rebekku fyrir hönd starfsmanna- haldsins og dreift til starfsmanna Varnarliðsins. Rebekka annaðist inn- leiðingu ótal nýjunga til betri starfs- hátta á vinnustað sínum. Þar skal nefna til dæmis fyrstu notkun staf- ræns ritvinnslutækis á Íslandi með ís- lenskri stafsetningu. Tækið var af gerðinni „CPT 8000“ og var það fyr- irrennari almennra ritvinnslutækja er síðar voru leyst af hólmi með fjöl- nota borðtölvum s.s „Apple II“ og enn síðar „IBM PC“. Rebekku er sárt saknað af öllum fyrrverandi samstarfsmönnum henn- ar hjá Varnarliðinu. Við Berta, eiginkona mín, sendum Einari Ágústi Kristinssyni, eigin- manni Rebekku, og börnum hennar, Ingvari Erni og Önnu Kristrúnu, for- eldrum hennar og systkinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Rebekku Ingvarsdóttur. Guðni Jónsson, fyrrverandi starfsmannastjóri Varnarliðsins.  Fleiri minningargreinar um Re- bekku Ingvarsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir, afi og langafi, JÓNAS REYNIR JÓNSSON frá Melum, Sólheimum 23, Reykjavík, verður jarðsunginn frá Langholtskirkju föstudaginn 29. febrúar kl. 13.00. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir, en þeim sem vilja minnast hans er bent á líknarstofnanir. Elín Þórdís Þórhallsdóttir, Elsa Jónasdóttir, Gunnar Guðjónsson, Ína H. Jónasdóttir, Eggert Sv. Jónsson, Þóra Jónasdóttir, Birna Jónasdóttir, Gunnar Vignisson, barnabörn og fjölskyldur. ✝ Elsku móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, SIF ÞÓRZ ÞÓRÐARDÓTTIR fv. danskennari, sem lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð miðvikudaginn 20. febrúar verður jarðsungin frá Kópavogskirkju föstudaginn 29. febrúar kl. 13.00. Iðunn Anna Valgarðsdóttir, Jakob Már Gunnarsson, Eiður Valgarðsson, Kristín Gunnarsdóttir, Gunnhildur Valgarðsdóttir, Sigrún Valgarðsdóttir, Þórólfur Jónsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær móðursystir mín, systir okkar og frænka, VALGERÐUR SIGURÐARDÓTTIR, lést sunnudaginn 24. febrúar. Jarðarförin fer fram í kyrrþey. Þorbjörg Friðriksdóttir, Erla Sigurðardóttir, Þórhildur Sigurðardóttir, Reynir Sigurðsson og aðrir aðstandendur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.