Morgunblaðið - 18.07.2008, Side 29

Morgunblaðið - 18.07.2008, Side 29
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. JÚLÍ 2008 29 ✝ Pétur LeifurPétursson fædd- ist í Strassborg 20. nóvember 1961. Hann lést á heimili sínu í Barcelona 7. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans eru hjónin Stella Sig- urleifsdóttir, fyrr- verandi fulltrúi á Bæjarskrifstofu Kópavogs, f. 12. jan- úar 1928, d. 22. apríl 2003, og Pétur Guð- finnsson, starfs- maður Evrópuráðsins 1955-1964 en frá 1965 framkvæmdastjóri Sjónvarps, og síðast útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, f. 14. ágúst 1929. Pétur Leifur var næstyngstur fjögurra systkina. Hin eru: a) Ólöf Kristín, íslensku- og bretónsku- fræðingur, f. 28. desember 1954. Maki Jóhannes Hraunfjörð Karls- son sagnfræðingur, og eiga þau tvö börn og tvær dótturdætur. b) Áslaug Helga, kennari í Barce- lona, f. 3. desember 1957, d. 28. júlí 2002. Maður hennar var Luis Pena Moreno, kaupmaður. c) Elín Marta, f. 14. desember 1963. Mað- ur hennar er Sigurgeir Örn Jóns- son, framkvæmdastjóri, og eiga þau tvö börn, en með fyrri manni sínum, Ágústi Pálssyni, sem er látinn, átti Elín eitt barn. Fjölskylda Péturs Leifs flutti til Íslands í ársbyrjun 1965, og settist að á Þinghólsbraut 5 í Kópavogi. Hann gekk í Kársnesskóla og í Þinghólsskóla í Kópavogi, en lauk stúdentsprófi frá MR 1981. Að því loknu lagði hann stund á bókmennta- fræði við Háskóla Íslands, en nam síð- an spænsku og leik- húsfræði í Barce- lona. Árin 1985-89 var hann blaðamaður hjá Dag- blaðinu og var síðan fréttaritari þess á Spáni. Frá 1989 bjó hann í Barcelona og sinnti þar tölvuþjón- ustu til ársins 2006, er hann varð að láta af störfum sökum heilsu- brests. Hann starfaði nokkuð við þýðingar með námi og öðrum störfum. Pétur Leifur giftist 25. nóv- ember 1988 Concepcion Pinos Lo- pez og eru börn þeirra Erna há- skólanemi, f. 5. apríl 1987, og Dagur menntaskólanemi, f. 28. desember 1990. Pétur Leifur og Concepcion skildu. Sambýliskona Péturs Leifs síðustu árin var Maite Pueyo, garðyrkjufræð- ingur. Pétur Leifur verður jarðsung- inn frá Digraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Sól skín í heiði yfir Reykjavík. Esj- an, stórvaxin og brosmild vinkona, leikur sér glettin að skýjahulum. Niður hlíðarnar streyma hjalandi lækir til sjávar. Ég átti systur og bróður í Barce- lona. Áslaug kvaddi fyrir nokkrum árum eftir stutta en snarpa viður- eign við sjúkdóminn. Þá hringdi Pét- ur Leifur til mín á björtum sumar- degi og sagði mér andlát hennar. Nú er Pési farinn sömu leið, og enn er hásumar. Ég man þegar Pétur Leifur fædd- ist. Ég fylgdist með uppvaxtarárum hans, þessa eina bróður míns. Hann var villtur eldhugi, ljósleitur indíáni í þeim borgum og bæjum sem hann málaði rauða. Hann var líka heima- vanur úti í náttúrunni og undi sér best þar sem allra veðra var von, bæði á jörðu niðri og í ómælisvíddum andans. Í fyrra kom Pési í stutta heimsókn í 101 Reykjavík. Var hann hress í tali og stafaði af honum birtu og hlýju, en þó skynjaði ég þunga undiröldu. Fallegi bróðir minn barð- ist við magnaða ófreskju. Í mars sl. áttum við Pési dýrmæt- ar samverustundir í heimaborg hans, Barcelona. Við hlustuðum á tónlist og spjölluðum um heima og geima. Hann lánaði mér bók eftir Tage Danielsson, snilldarlega og drep- fyndna skáldsögu. Ég hafði aldrei fyrr lagt í að lesa bók á sænsku, en sjálfur hafði hann náð prýðilegum tökum á því máli þegar hann dvaldi ungur drengur hjá Ernu frænku okkar. Pési hvatti mig til þess að lesa bókina góðu, þótt hún væri á sænsku. Þá rifjaðist upp fyrir mér hliðstætt atvik. Forðum tíð fékk ég unglinginn Pésa til þess að lesa bók á ensku þótt hann teldi sig ekki valda því, það var vísindaskáldsaga. Hann renndi sér fótskriðu í gegnum bókina og las ensku hiklaust upp frá því. Reyndar var hann orðinn sleipur í dönsku um sjö ára aldur, það var Andrésarblöð- unum að þakka. „Heldigvis har vi vinden i ryggen,“ sagði snáðinn kot- roskinn, rétt orðinn læs, eitt sinn er við vorum á þvælingi um Borgarholt- ið í roki og rigningu. Þessi setning er til marks um það hvað Pési var yf- irleitt jákvæður, líka þegar illa viðr- aði. Pési fór víða. Hann fékk miklar mætur á Vestfjörðum, alveg eins og Áslaug, sem hvergi hafði unað sér betur en á Flateyri. Svo lá leið hans til Barcelona, þar sem Áslaug bjó. Þaðan lágu vegir til allra átta. Það var gaman að hlusta á Pésa tala um Grænhöfðaeyjar: tónlist, hrikalegt landslag, lífsgleði og hæfilegt alvöru- leysi. Hann skaut rótum í Barcelona. Þar uppi í fjalli er mikill fjarskipta- turn. Þar gegndi Pési lykilhlutverki: turninn var keyptur í einingum ásamt enskum leiðbeiningum danskra verkfræðinga. Svo vildi til að Pési kunni bæði ensku og dönsku, og svo íðorðaforða símamanna. Hann var fenginn til að snara leiðbeining- unum og leysti hann það verk ágæt- lega, turninn var tekinn í notkun og þjónar enn hlutverki sínu. Þannig lagði Pési sitt af mörkum við að breyta ásýnd heimabæjar síns. Lífið er flæði sem ber okkur eftir farvegi sínum. Dauðinn er andhverfa fæðingarinnar og áfram streymir líf- ið. Nú er sólargeislinn Pétur Leifur genginn á vit ljóssins og þangað stefnum við líka. Ólöf. Ég reyndi að ná í Pétur Leif í síma alla vikuna. Endaði með því að ég sendi honum tölvupóst. July 8, 2008 1:47:45 AM GMT+02:00 Jæja Ég hef ekki náð í þig í síma lengi. Við erum að fara á klakann eftir viku. Verðum fram í desember. Ætlum að reyna að hitta á þig áður en við förum. Þetta var í fyrrinótt. Í hádeginu í gær hringdi ég heim til hans. Stjúp- sonur hans tjáði mér að Pétur Leifur hefði látist um áttaleytið kvöldið áð- ur. Hann hafði verið að lesa mynda- sögu um Fláráð Stórvesír þegar hann sofnaði án þess að vakna aftur. Þessi góði og vel lesni maður dó því flissandi yfir myndasögu. Bölvað krabbameinið sigraði Pétur en samt er eins og hann hafi átt síðasta orðið því Fláráði tókst jú aldrei að koma Harúni Milda fyrir kattarnef. Fyrir utan það að missa góðan vin þá markar andlát Péturs ákveðin tímamót fyrir mér. Hann var á viss- an hátt fulltrúi þeirrar kynslóðar ís- lenskra námsmanna sem komu til Spánar fljótlega eftir dauða Francos einræðisherra. Á þeim árum var undraborgin Barcelona villtur frum- skógur sem nútíminn hefur smám saman náð að temja. Þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir hér árið 1992 komst mikill hraði á þessa þróun. Skítugar fjörur umbreyttust í gylltar sandstrendur, niðurníddar verksmiðjur viku fyrir líkamsrækt- arstöðvum og reiðhjól gerðu innreið sína í þröngar götur borgarinnar. Pétur Leifur var mikill fagurkeri sem sá að þótt norður-evrópsk menning bæri margt gott með sér gæti hún valdið því að ýmislegt í sál borga skolaðist út með baðvatninu. Það var einmitt þess vegna sem Pétur hafði unun af því að teyma þá sem voru nýir í borginni inn á alls- konar staði sem aðeins hann vissi um og varðveittu gamla andann í borg- inni. Og það var einmitt þessi ástríða Péturs sem auðgaði líf þeirra sem kynntust honum. Bless Pétur. Þórarinn Leifsson. Pétur: Ósjálfráð skrift. Frábær miðherji á fótboltaæfing- um óteljandi laugardagsmorgna á tí- unda áratugnum: ljóshærður, sterk- ur, traustur. Enn besti vinur vina sinna og ekki minna elskaður og dáður af örfáum óvinum: göfugur, einlægur, ástríkur og lét sér meðalmennskuna engu varða. Góður nágranni í götunni sinni og næmur áhorfandi á heiminn allan, jafn skynsamur og daðrari af Guðs náð: í stuttu máli náttúrufyrirbæri. Dáði ákaft Janis Joplin og Sven Hassel, Jesús Pardo og Grétu Garbo, Halldór Laxness og Voltaire, Louis de Funès, Fela Kuti og Corto Mal- tés. Og þoldi ekki tilfinningasemi, málshætti, vondar bókmenntir, José Maria Aznar, skort á ímyndunarafli og þröngsýni, og heldur ekki barse- lónska bjórinn Damm. Ófyrirsjáanlegur gálgahúmorinn fylgdi honum og stóð með honum vaktina til hinstu stundar. Bróðir, sonur, faðir, elskhugi, vin- ur, heill og fullkomnaður maður, eða svo virðist mér Pétur hafa verið, sem kvaddi líf sitt á þjóðsagnakenndan hátt svo það minnir jafnvel á atriði úr fornum íslenskum sögum. Bylting á Spáni. Þruma í Norður- höfum. Pétur Pétursson, ógleyman- legur. Antonio Padilla. Gæfa er að eiga góða vini og káta. Nú er látinn slíkur vinur, enginn leiðindapési heldur sá sem einna mest hefur verið lifandi af þeim sem ég hef þekkt. Það kom einna best fram í einlægum hlátri sem oftar en ekki byrjaði með sérstökum glampa í augum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Pétri Leifi Péturssyni þegar í barnaskóla. Við vorum skóla- bræður allt þar til menntaskóla lauk. Ekki kom þeim á óvart sem þekktu manninn að hann myndi freista gæf- unnar utan Íslands og lifði hann lengst sinnar starfsævi á Spáni. Allt- af hélt hann sínum góðu eiginleikum og þótt stundum liði langur tími frá því að við hittumst var alltaf eins og við hefðum síðast talað saman dag- inn áður. Um Pétur má segja í stuttu máli að þar hafi farið ljúfur og bráð- greindur maður, fróður um margt en umfram allt skemmtilegur með góða nærveru. Slík lofrulla lýsir honum þó ekki ein og sér enda fór þar hið mesta ólíkindatól, uppfyndingarsamur og engum líkur. Hann var til dæmis bæði duglegur og latur. Sterkgreind- ur en mikil tilfinningavera og lét þær oftar en ekki ráða skoðunum sínum. Seint verður sá stjórnmálaflokkur stofnaður sem hýsir helstu skoðanir Pésa, sem sumar voru skrýtnar að mér fannst, en iðulega vel rökstudd- ar og oft skemmtilega. Hér fór mað- ur sem gerði hlutina með sínu lagi. Sinnti námi almennt slælega, átti stundum ekki kennslugögn en lét til dæmis Andrés önd kenna sér dönsku. Hann var tungumálagarpur og lestarhestur og snemma vel les- inn í mörgum helstu heimsbók- menntum á frummálinu. Hann hafði hins vegar nokkrar gangtegundir og fór víða. Var hann þannig einnig heima í bókmenntum sem flokkaðar hafa verið af einhverjum mun neðar á lista, eins og teiknimyndasögum. Gat orðið pirraður af undarlegasta tilefni og jafnvel reiður. Þá titraði neðri vörin gjarnan eilítið, en svo var það frá. Oft blankur í skóla enda ós- ínkur á fé. Þoldi verr en flestir snobb og gervimennsku. Gat verið góður kokkur en bestur líklega er hann undir morgun að vorlagi tók sig til og eldaði í stórum potti kraftmikla súpu handa her svangra menntaskóla- nema úr ýmsu hráefni sem hann fann í húsagarði, hráefni sem örugglega er ekki til í kokkabókum. Ekki vita heldur allir að hann var hraustmenni þótt hann bæri það ekki með sér. Það veit sá sem sá Pésa ungan stinga sér til sunds og synda langt á haf út forð- um daga. Þá hafði hann áhuga á fólki, sérstaklega kynlegum kvistum og margir slíkir, einkum þeir sem voru eftirbátar á einhvern hátt, áttu at- hvarf í félagsskap Pésa. Hér fór maður sem kvartaði ekki þótt veikindin væru afar löng og ólýsanlega ströng. Helst sást á göngulaginu að þreyta sótti að, en það hafði áður verið svo sérstakt, létt eða stundum eins konar valhopp. Þá gægðist stundum þreyta fram bak við brosið þótt hláturinn væri að öðru leyti alltaf jafnglampandi. Stundum er það svo að einhver hringir eða kemur í heimsókn þegar ekki stendur vel á. Aldrei þó Pétur því alltaf var bót að heyra í honum eða hitta, sama hvernig á stóð. Það segir margt um manninn að alltaf bætti hann félagsskapinn. Hann hringir hvorki aftur né kemur í heim- sókn og eftir situr söknuður. Ég sendi fjölskyldu hans innilegar sam- úðarkveðjur en gott er góðs að minn- ast. Ólafur Börkur Þorvaldsson. Með söknuði kveðjum við Axel kæran vin, Pétur Leif. Þessi hái og bjarti maður setti mikinn svip á líf okkar síðustu fjórtán árin sem við höfum búið í Barcelona. Það er víst að tómlegt verður í borginni þegar hann er ekki lengur þar. Pétur tengdist mér á fleiri en einn hátt. Feður okkar eru vinir frá fornu fari. Seinna var hann skólabróðir og vinur bróður míns í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar man ég fyrst eftir honum. Eiginlegur vinskapur okkar hófst síðan í Barcelona. Þar hafði hann bú- ið um margra ára skeið og átti þar börnin sín tvö. Þegar við fluttum til borgarinnar tók hann okkur opnum örmum, kynnti okkur fyrir vinum sínum og borginni sem hann þekkti eins og lófa sinn. Hann var opinskár og glaður, gekk frjálslegur um borg- ina, þekkti marga, einstaklega vin- margur. Það var eftirminnilegt að ganga um miðbæinn með honum, þar sem hann bjó alltaf, og sjá hvernig hann heilsaði og allir hrópuðu nafnið hans hvar sem við fórum með hon- um. Allir virtust þekkja þennan há- vaxna Íslending. Hann fylgdist vel með menningar- lífinu bæði á Spáni og Íslandi. Alltaf gat hann komið okkur í kynni við eitthvað nýtt og merkilegt. Hann var glaðlyndur og gamansamur, stríðinn nokkuð, og þóttist stundum vita bet- ur en aðrir. Með því kom hann af stað fjörugum rökræður. Við þær kring- umstæður lék hann á alsoddi og var í essinu sínu. Börnunum hans fengum við að líka að kynnast. Hann var góður og skemmtilegur pabbi. Á síðustu árum eftir að Pétur varð veikur urðu samfundir okkar stop- ulli. Þrátt fyrir bjartsýni, dugnað og baráttuhug fór hann ekki eins víða og hann hafði gert áður. Með söknuði hugsum við nú til góðra stunda sem við áttum með honum og Maite síðustu árin. Það var falleg athöfn í Barcelona þegar við kvöddum hann í síðasta sinn í kirkjugarðinum í Montjuic. Þar sást hversu vinmargur hann var. Nú kveðjum við hann í annað sinn, nú á Íslandi, okkar sanníslenska Pétur Leif, og hugsum til hans með virð- ingu og þakklæti. Fjölskyldu hans í Barcelona og á Íslandi vottum við samúð okkar. Auður Eggertsdóttir og Axel Pétur Ásgeirsson. Við kynntumst Pétri í 4. bekk Menntaskólans í Reykjavík og fljót- lega myndaðist vinátta sem varði meir en aldarfjórðung, þrátt fyrir að lífið flytti okkur til og frá um Evrópu og við værum sjaldnast í sama landi á sama tíma. Á menntaskólaárunum héldum við mikið til heima hjá Magn- eu, systur Úu, en heimili hennar á Framnesveginum var á þeim tíma hálfgert félagsheimili stúdenta og bóhema. Þetta var á mótunarárum okkar, árunum sem allt vaknar og gerist, þegar maður fæðist upp á nýtt og uppgötvar fegurð heimsins. Meira að segja í Reykjavík. Pétur var langur og mjór, með hlý- legt bros og stríðnisglampa í augum. Hann var fagurkeri og mikill bók- menntamaður. Eins var hann mikill áhugamaður um tónlist og tók að sér að kynna fyrir okkur hinum helstu strauma og stefnur í tónlistinni á þeim tíma, oft í óþökk föður síns og annarra heimilismanna á Þinghóls- brautinni. Pési átti sína vini og óvini og hann hafði mjög ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann þoldi ekki framagosa, málfundahetjur, stjórnmálamenn og vinsælustu rit- höfundana. Þetta óþol stafaði, líkast til, af fagurfræðilegu ofurnæmi sem varð síðan að allsherjarofnæmi fyrir kuldahrollinum í Austurstræti og ís- lensku þjóðfélagi nokkurn veginn eins og það lagði sig. Hann gat verið algjör þverhaus en hann kenndi okk- ur að skilja hismið frá kjarnanum og njóta fegurðarinnar. Við hlustuðum ótal sinnum saman á „Waiting for the Sun“ og alla þá frábæru plötu „Morrison Hotel“ aftur og aftur og endalaust. Hann kenndi okkur að elska Jim Morrisson, Patti Smith, Iggy Pop og Dag Sigurðarson og svo margt fleira, til að mynda að Stones væru skömminni skárri en sívinsælir Bítlarnir. Pési var mikill heimsborgari og hvergi kunni hann betur við sig en í Barcelona, en þangað kom hann beint eftir stúdentspróf 1982 og heill- aðist um leið af undraborginni. Hann lagði sig fram um að kynnast marg- slungnu mannlífinu, hafði áhuga á öllu og öllum og þekkti þar brátt hvern krók og kima. Fátt fannst hon- um Pésa skemmtilegra en að leiða vini og kunningja eftir öngstrætum Barcelonaborgar og miðla af ein- stöku örlæti þekkingu sinni á sér- viskulegum börum og skemmtileg- um veitingahúsum úr almannaleið. Við hittum Pésa síðast á bóka- kynningu Omdúrman nokkru fyrir síðustu jól. Þá var nokkuð af honum dregið en hann var hlýr og skemmti- legur, eins og hann hafði alltaf verið, og auðvitað sagðist hann ætla að stoppa eins stutt á Íslandi og hann mögulega gæti. Það er með sorg í hjarta að við kveðjum þennan kæra vin langt um aldur fram. Viðkynnin við hann hafa gert okkur víðsýnni og ríkari og skil- ið eftir ótal skemmtilegar minningar sem eiga eftir að lifa í hugum okkar um ókominn tíma. Hann var góður drengur og hans er sárt saknað. Við sendum aðstandendum Péturs Leifs Péturssonar og vinum hlýja samúðarkveðju. Ósk Vilhjálmsdóttir og Hólmfríður Matthíasdóttir. Um daginn hitti ég Magneu á förn- um vegi og breyttist þar fljótt fögn- uður í sorg er hún bar mér þau döpru tíðindi að Pétur Leifur væri látinn. Er mér varð hugsað til hans, varð allt í einu sem að hann birtist ljóslif- andi fyrir hugskotsjónum mér að út- mála fyrir mér ljósu hliðarnar á þessu máli. Hann var bjartsýnasti maður sem ég hef kynnst og einn sá víðsýnasti líka. Fáar manneskjur hafa auðgað tónlistarsmekk minn meira. Hann kenndi mér að meta bæði Kurt Vonnegut og Robert Anton Wilson. Hann kynnti mig fyrir skemmtilegu og góðu fólki. Kímnigáfa hans var rík og sérstök að því leyti að þar komu saman óbeislað ímyndunarafl, djúp þekking á mannlegu eðli og atferli, og visst fölskvaleysi sem fáum gefst að varðveita með sér. Á aldursskeiði er flestir eru gagnrýnir úr hófi fram átti hann alltaf leið til að sjá það besta; úr aðstæðum, hugmyndum eða fólki. Ég þekkti ekki aðrar hliðar á honum en þær sem voru frábærar, og þær voru margar. Þegar fólk er farið þá sér maður eftir að hafa ekki talað oftar við það. Ég kynntist Pétri í 3.B í MR um haustið 1978. Nokkrum árum síðar vorum við farnir hvor í sína áttina og hittumst sjaldan eftir það. Nú er of seint að hittast á ný, en eftir situr minningin um góðan dreng sem skildi heiminn eftir sig betri en hann kom að honum. Elías Halldór Ágústsson. Pétur Leifur Pétursson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.