Samvinnan - 01.06.1971, Síða 57

Samvinnan - 01.06.1971, Síða 57
Leturborð á setjaravél í japanskri prcntsmiðju. af kínverskum táknum, sem gefa til kynna hugtök, og ýmsum myndum af kana, sem gefa til kynna hljóð og sam- stöfur. Til að gera málið ennþá miklu flóknara er kana ekki einungis notað til að fylla út málfræðilegar eyður milli hinna óbeygjanlegu kínversku tákna, heldur er það jafnframt nokkurskonar hliðstæð umsögn, sem gefur til kynna réttan framburð eða skilgreinir nánar inntak táknsins. Þetta er nauðsynlegt með þvi að mörg kínversk tákn hafa nokkrar ólíkar merkingar á japönsku — og öfugt: hljómur japansks orðs, sem skrifað er með framburðarskrift kana, getur haft tíu til fimmtán gerólíkar merkingar. Árangurinn af öllu þessu er ritmál, sem sameinar, ef svo má segja, egypzkar híeróglífur, hraðritunarkerfi Pitmans og nótnaskrift fyrir nokkur hljóðfæri. Sé lit- ið á prentaða blaðsíðu, þá minna kin- versku táknin á stór ör innanum léttar lispur kana og hiragana. Ekki fer milli mála, að endurbætur á ritmálinu mundu spara japönsku þjóð- inni mikla fyrirhöfn og létta mörgum erfiðleikum af japönskum fyrirtækjum og stofnunum, en slíkar endurbætur mundu án efa einnig hafa djúptæk áhrif á jap- anska þjóðarsál og gerbreyta hugsunar- hætti Japana, sem er rómaður fyrir dul og óræði. Sú andlega þjálfun, sem rit- málið hefur veitt þjóðinni, kann að eiga einhvern og eftilvill drjúgan þátt í þeim árangri sem hún hefur náð, ekki aðeins í verzlun og iðnaði, heldur einnig í listum, ekki sízt í kvikmyndalist þar sem Japanir skara ótvírætt framúr flestum þjóðum öðrum. Svo mikið er vist, að Japönum er lítt um það gefið, þegar útlendingar mæla með endurskoðun á japönsku ritmáli. Ekki alls fyrir löngu birti til dæmis al- þekkt japanskt mánaðarrit tvær ástríðu- fullar greinar eftir stjórnskipaðan full- trúa i japönsku málverndarnefndinni, þar sem hann lagðist eindregið gegn end- urskoðun eða endurbótum á ritmálinu og krafðist þess, að kínversku táknunum, sem börnum er gert að læra í skólum landsins, yrði fjölgað úr u. þ. b. 1300 uppí 3000. Röksemdir greinarhöfundar gegn endurbótum voru m. a. þessar: „Fyrir hvert enskt orð er sérstök stafsetning, og sama gildir um hvert franskt, þýzkt eða grískt orð. . . . Til að geta lesið dagblað í Lundúnum með góðu móti er sagt, að lesandinn þurfi að kunna 3000 orð. Það jafngildir 3000 mismunandi stafsetning- um . . . tíminn og orkan sem fer í að læra utanað 3000 ólikar stafsetningar og 3000 mismunandi kanji er um það bil sá sami.“ Talmálið Sé japanska ritmálið flókið, þá er tal- málið ekki síður furðulegt. Kunnur þýð- andi úr japönsku, Edward Seidensticker, hefur gefið eftirminnilega lýsingu á því, hvernig japönsk samtöl einkennast af látlausum útúrdúrum og aukasetningum, sem látnar eru koma á undan aðalsetn- ingum og því sem raunverulega er um að ræða, í því skyni að vekja eftirvæntingu hjá hlustandanum. Þegar komast þarf strax að efninu, einsog til dæmis í sím- tali, er hver setning höggvin í smábúta, sem hlustandinn fær i skömmtum, enda er engu líkara en Japanir standi á önd- inni þegar þeir tala í síma. Seidensticker segir meðal annars: „Með nokkurra orða millibili verður tal- andinn að þagna og spyrja hvort hlust- andinn fylgist með; og hann heldur áfram að spyrja þartil hann er fullkom- lega sannfærður um að svo sé. Hann verður að spyrja, vegna þess að hann er að höggva sundur setningar sínar einsog þær mundu einungis vera höggnar sund- ur í öfgafyllstu ljóðum súrrealista. Svona er upphafleg orðaröð: „Sú ég í gær þig kynnti frá Osaka frænka á morgun ^íðdegis með Hafgoluhraðlest- inni fer aftur heim.“ í síma hljómar setningin svona: „Frænka mín, skilurðu? Sú frá Osaka, skilurðu? Sú sem ég kynnti fyrir þér, skilurðu? Nú, hún er að fara heim aftur, skilurðu? Á morgun síðdegis, skilurðu? Með hraðlest, Hafgolunni“.“ Þessar eigindir tungunnar verða enn erfiðari viðfangs sökum þess að tvíræði og undanfærslur eru megineinkenni hennav. Annar kunnur þýðandi, dr. Ivan Morris, hefur sagt: „Manni finnst stund- um, að hægt sé að skjóta orðinu „ekki“ inní flestar japanskar setningar, ánþess merking þeirra breytist að ráði.“ Fátt væri Japana ógeðfelldara, að ekki sé sagt andstyggilegra, en hvatning Nýja testamentisins: „Ræða yðar sé já já, nei nei.“ Hann mundi álíta slíkan talsmáta ósegjanlega ruddafenginn og þarafleið- andi „óeinlægan“. Japanska orðið fyrir „hreinlyndi" eða „einlægni" — magokóró, magokó — hefur ævinlega valdið Vestur- landabúum heilabrotum. Maður getur til dæmis látizt, en samt verið „einlægur", ef látalæti hans eru í samhljóðan við við- teknar hegðunarreglur. Það er talið bera vitni óhreinlyndi að vera berorður og tala beint útúr pokahorninu. „Óræðið er ein- att dyggð; guð býr í skýi; sannleikann hefur maður ekki á fingurgómunum," hefur japanskur höfundur sagt. Andúð Japana á beinni og umbúðalausri tján- ingu er svo djúpstæð, að tilgangslaust er að reyna að gera sig skiljanlegan með handapati eða á merkjamáli. Þessi sama andúð gerir alla listgagnrýni nálega óhugsanlega og yfirleitt allar hispurs- lausar umræður um menningarmál, enda er Japan paradís áhugarithöfunda ekki síður en ísland. Menningarritstjórar Tím- ans og Morgunblaðsins mundu sennilega kunna enn betur við sig í Japan en á ís- landi, þó ótrúlegt sé. Þegar rætt er um japanska tungu, má í rauninni skipta henni í að minnstakosti fjórar greinar, sem eru innbyrðis ólíkar að þvi er varðar orðafar og málfræði: daglegt talmál, dálítið fornlegt sendi- bréfamál, bókmál og klassískt mál (sem er mjög í ætt við klassíska kínversku). Við þessar greinar má síðan bæta ó- hemjulega iburðarmiklu og tilgerðarlegu hirðmáli, sem meðal annars notast við kenningar að hætti íslenzkra hirðskálda. Á þessu hirðmáli er salt ekki nefnt salt, heldur „blóm bylgjunnar“. 4 57

x

Samvinnan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.