Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 7
INGVAR GÍSLASON:
Ólafur Jóhannesson
Sú hefð hefur myndast á löngum tíma í efnisvali Andvara að birta í
ritinu stuttar ævisögur íslenskra áhrifamanna, eða mætti e.t.v. heldur
nefna „langar minningargreinar“, því að sjaldnast munu þessar ævi-
sögur geta talist tæmandi né fræðilegar. Sú ritgerð, sem hér birtist um
Olaf Jóhannesson, fyrrv. lagaprófessor og forsætisráðherra, er að
þessu leyti hefðbundin Andvaragrein um ævi og störf viðurkennds
áhrifamanns á íslenskt þjóðlíf um sína daga. Verður leitast við að hafa
frásögnina svo samfellda og efnismikla sem við verður komið. Hér er
um að ræða yfirlitsgrein, þar sem stiklað er á stóru, en þó er að því
stefnt að æviferill Ólafs sé rakinn á viðhlítandi hátt, svo að fram megi
koma hvað Ólafur Jóhannesson lét samtíð sinni í té, hvert æviverk hans
var og hvers virði það var. Það skal þó tekið fram, að höfundur þessarar
ritgerðar ætlar sér ekki þann hlut að segja allt sem sagt verður um Ólaf
Jóhannesson né kveða upp algilda dóma um æviverk hans. Ræður af
líkum að við samning þessarar ritgerðar styðst höfundur að mörgu við
sjálfs sín endurminningar og eiginreynslu. Þess ber að geta öðru fremur
að Olafsbók, útg. 1983 til heiðurs Ólafi Jóhannessyni á sjötugsafmæli
hans, hefur reynst afar mikilvæg heimild og gagnleg um allt, sem varðar
upprifjun á æviferli hans. Viðtöl við menn gagnkunnuga Ólafi hafa
ekki síður orðið notadrjúg.
Starfsvettvangur Ólafs var í meginatriðum tvíþættur: Annars vegar
háskólakennsla og fræðistörf, hins vegar afskipti hans af stjórnmálum.
Starfs- og lífsreynsla Ólafs var þó í raun víðtækari. Hann var um árabil
starfandi lögmaður og lögfræðilegur ráðunautur stórfyrirtækis. Hann
vann ýmis tilfallandi störf sér til framfæris á námsárum sínum og var vel
kunnugur högum alþýðu manna til sjávar og sveita, enda sjálfur af
alþýðufólki kominn og ekki fæddur til neinna metorða. Þau hlaut hann
fyrir gáfur sínar og það traust sem til hans var borið. Enginn skyldi hafa
það af Ólafi að hann hafi átt sér metnað, en fráleitt var hann metorða-
gjarn. Metorðagirnd var Ólafi Jóhannessyni ekki hvati til þess frama