Andvari - 01.01.1987, Síða 14
12
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
skólans á Akureyri án nokkurrar meðalgöngu Hins almenna mennta-
skóla í Reykjavík. Ári síðar, 1930, var Menntaskólinn á Akureyri
formlega stofnaður. Er ótvírætt að stofnun Menntaskólans á Akureyri
breytti miklu um sókn fátækra unglinga til langskólanáms. Þar opnuð-
ust möguleikar, sem ekki voru áður fyrir hendi, og varð þeim hvatning,
sem námslöngun höfðu, en ekki áttu mikinn kost þess að leggja út á
slíka braut. Nú er að vísu eins víst að Ólafur Jóhannesson hefði ekki
sett fyrir sig að setjast í Menntaskólann í Reykjavík, ef svo hefði staðið
á, en trúlegt er að hann hafi orðið fyrir áhrifum af menntaskóla-
hreyfingu Norðlendinga og eygt í henni nokkra von fyrir sig. Hann
sótti um inngöngu í Gagnfræðaskólann á Akureyri, settist þar í fyrsta
bekk haustið 1929, þá 16 ára. Framundan var sex vetra nám. Ásetn-
ingur hans var að ljúka stúdentsprófi, þegar þar að kæmi, og einboðið
að námi sínu lyki hann á Akureyri sem og varð.
Á námsárum Ólafs í Menntaskólanum á Akureyri var skólinn
reyndar að því leyti til einhæfur að þar starfaði ekki eiginleg stærð-
fræðideild eða raungreinadeild, heldur máladeild einvörðungu að
kalla. Ýmsir settu þetta fyrir sig sem eðlilegt var, enda var stærðfræði-
deild stofnuð 1935. Þrátt fyrir þessa einhæfni bendir ekkert til annars
en að Menntaskólinn á Akureyri hafi reynst góður skóli þegar á fyrstu
árum sínum og þar hafi nemendur öðlast staðgóða skólamenntun og
undirbúning undir margs konar háskólanám. Ólafur reyndist hinn
besti námsmaður og í hópi þeirra sem jafnan skipuðu efstu sæti á
prófum. Stúdentspróf tók hann vorið 1935 og stefndi að því að lesa
lögfræði við Háskóla íslands. Að vísu mun honum eitthvað hafa komið
í hug að stunda annað háskólanám og þá utanlands, en til þess kom
ekki. Má af orðum Ólafs sjálfs greina að lögfræðin hafi verið honum
hugleikin frá ungum aldri og síst neinn vandræðakostur að gefa sig að
henni. Má reyndar augljóst vera af því sem á eftir fór að þar var réttur
maður á réttum stað, þegar Ólafur Jóhannesson settist í lagadeild
Háskóla íslands haustið 1935. Hann stundaði námið af elju og kost-
gæfni og lauk embættisprófi vorið 1939 eftir skemmri námstíma en
algengt var og hlaut hærri einkunn en aðrir höfðu til þessa hlotið á
lagaprófi, fór með því fram úr meti Bjarna Benediktssonar, sem
reyndar var kennari Ólafs og réð því nokkru um það að Ólafur hryndi
hans eigin prófmeti. Annars voru þeir Bjarni Benediktsson og Ólafur
Jóhannesson jafn ólíkir um margt sem þeir voru líkir um annað, í senn
samstæður og andstæður. Gáfnafar þeirra var um margt líkt og fræðileg