Andvari - 01.01.1987, Síða 19
ANDVARI
ÓLAFUR JÓHANNESSON
17
er ástæða til að halda á loft að Ólafur naut sín jafnvel betur sem
ræðumaður þegar hann talaði blaðalaust. Hann átti það til að fara á
kostum í ræðustól án þess að hafa svo mikið sem bókstaf sér til halds og
trausts um ræðuefnið. Bestu ræður hans voru þannig til komnar. Hygg
ég að Ólafur hafi verið, ef svo má til orða taka, einn snarpasti „svar-
ræðumaður“ sem setið hefur á Alþingi síðustu áratugi. Þingtíðindin
vitna um ræðumennsku Ólafs Jóhannessonar, þótt eftirgrennslan á því
sé ekki nema svipur hjá sjón hjá því að hafa verið viðstaddur þegar
hann flutti bestu ræður sínar og mælti þær af munni fram. Persónulega
man ég best ræðu hans um EFTA málið 1970 og viðbrögð hans við
ræðu Sighvats Björgvinssonar (1976), sem full var með ásökunum og
árásarefnum á Olaf, svo að dæmafátt mátti teljast. Ræða hans við
stjórnarslitin 1974 varð einnig fræg og mjög rómuð. Var hún sérprent-
uð á vegum Framsóknarflokksins og dreift meðal kjósenda fyrir al-
þingiskosningarnar það ár. Allar voru þessar ræður langar og efnis-
miklar og mæltar af munni fram án skrifaðra minnisatriða, en svo
skipulega fluttar og misfellulausar í framsetningu að þær voru að heita
má tilbúnar undir prentun beint af segulbandinu. Slíkt er fágætt og
sýnir skýrleika Ólafs í flutningi talaðs orðs.
Hinu er þó ekki að leyna, að Ólafur var ekki ætíð jafn áheyrilegur
ræðumaður. Því fór fjarri að hann legði ævinlega sérstaka alúð við
ræðuflutning, og var jafnvel undan því kvartað í þinginu að sumar
framsöguræður hans fyrir stjórnarfrumvörpum væru fremur tafsaðar
en fluttar svo, að þingheimur mætti heyra. Þessi háttur Ólafs minnti
raunar á Bjarna Benediktsson. Báðum virtist hálfgerð raun að því að
lesa upp ræðutexta, sem saminn var af embættismönnum í ráðuneytum
eða efnahagsstofnunum eins og oft gerist þegar ráðherrar kynna
stjórnarfrumvörp. Það var einnig haft á orði í háskólanum meðan ég
þekkti þar til, að Ólafur brýndi ekki alltaf raustina í kennslustundum,
og þótti ýmsum það ljóður á ráði hans sem kennara.
En eftir stendur að Ólafur var mjög áhrifamikill ræðumaður og
fyrirlesari, ef hann vildi það við hafa og þegar á þurfti að halda. Hann
var einnig ritfær í besta lagi, kunni þá list að rita skýrt og læsilega um
það efni, sem hann fjallaði um. Ritverk Ólafs, bækur og ritgerðir, eru
að mestu leyti lögfræðilegs eðlis. Eins og áður er fram komið hófst
hann handa um ritun kennslubóka skjótlega eftir að hann tók við
prófessorsembætti. Smám saman jók hann við ritverk sín eftir því sem
rannsóknir hans í lögfræði og kennarareynsla gáfu tilefni til.
2