Andvari - 01.01.1987, Side 28
26
INGVAR GÍSLASON
ANDVARJ
framleiðsluatvinnuvegunum, og stefna að því, að þau verði lækkuð eða
felld niður.
5. Að söluskattur á ýmsum nauðsynjavörum verði felldur niður.
6. Að auka rekstrarlán til framleiðslu-atvinnuvega.
7. Að breyta lögum og reglum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins
þannig, að unnt verði að tryggja hækkun fiskverðs.
8. Að gagngerð athugun fari fram á núgildandi verðlagningu á sem
flestum sviðum í því skyni að lækka verðlag eða hindra verðlagshækk-
anir.“
IV. í málefnasamningnum er ítarlegur kafli um atvinnumál og
spannar hann víðtækt svið. Er það langlengsti kaflinn í málefnasamn-
ingnum. Hefst kaflinn á þeim orðum að ríkisstjórnin einsetji sér „að
efla undirstöðuatvinnuvegina á grundvelli áætlunargerðar undir for-
ystu ríkisvaldsins.“ Koma skal á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem
hafi á hendi „heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnu-
málum.“ Framkvæmdastofnunin skyldi taka við stjórn Framkvæmda-
sjóðs ríkisins og stofna skyldi nýjan sjóð í tengslum við stofnunina og
undir sérstakri stjórn og skyldi sjóður þessi „veita fjárstuðning til þess
að treysta sem best eðlilega þróun í byggð landsins.“ Þá skyldi stefnt að
því að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land „meira en nú er
gert.“
Síðan eru talin upp mörg áætlunarverkefni, sem Framkvæmda-
stofnun er ætlað að vinna að, allt til eflingar atvinnulífi til lands og
sjávar, þ. á m. fjölbreyttum iðnaði, fiskirækt, ylrækt og innlendri fóð-
urframleiðslu og uppbyggingu og endurnýjun vinnslustöðva landbún-
aðarins.
Þá er að finna í málefnasamningnum það ákvæði að Framkvæmda-
stofnuninni sé falið: „Að stórefla fiskiskipaflotann með skuttogurum
og öðrum fiskiskipum, sem vel henta til hráefnisöflunar fyrir fiskiðn-
aðinn. Afla skal fjár í þessu skyni og veita nauðsynlega forustu og
fyrirgreiðslu. Skal þegar gera ráðstafanir til, að íslendingar eignist svo
fljótt sem verða má a.m.k. 15-20 skuttogara af ýmsum stærðum og
gerðum. Þar sem staðbundið atvinnuleysi ríkir og ekki reynist unnt að
afla nægilegs hráefnis til vinnslu, verði gerðar ráðstafanir til að koma
upp útgerðarfyrirtækjum með samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra
heimaaðila.“
Ákvæði eru um virkjunarmál og þar sagt m.a. að hefjast skuli handa
um undirbúning að „stórum vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjun-