Andvari - 01.01.1987, Síða 30
28
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
stöðuna til aðildar íslands að Atlantshafsbandalaginu. Að óbreyttum
aðstæðum skal þó núgildandi skipan haldast, en ríkisstjórnin mun
kappkosta að fylgjast sem bezt með þróun þeirra mála og endurmeta
jafnan stöðu íslands í samræmi við breyttar aðstæður. Ríkisstjórnin er
samþykk því, að boðað verði til sérstakrar öryggisráðstefnu Evrópu.
Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar
eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá íslandi í áföngum.
Skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.
ísland gengur ekki í Efnahagsbandalag Evrópu, en mun leita sér-
stakra samninga við bandalagið um gagnkvæm réttindi í tolla- og
viðskiptamálum.
Utanríkisþjónustan skal endurskipulögð og staðsetning sendiráða
endurskoðuð.“
Umsögn um málefnasamninginn og gerðir stjórnarinnar
Þessi málefnasamningur hinnar fyrri ríkisstjórnar Ólafs Jóhannes-
sonar er yfirgripsmikill að efni og segir til um það hvers konar ríkis-
stjórn hér var um að ræða. Hún hlaut nafnið „vinstri stjórn“, að
sjálfsögðu vegna þess hvaða flokkar stóðu að henni og hvernig mál-
efnasamningurinn var úr garði gerður. Auðvitað var þessi stjórnar-
sáttmáli málamiðlun og sambræðsla upp úr stefnuskrám aðildar-
flokkanna, en varla er í plaggi þessu að finna ákvæði sem stönguðust á
við yfirlýsta flokksstefnu Framsóknarflokksins, heldur myndi það
koma í ljós við nánari könnun að við gerð málefnasamningsins hafi
notið í ríkum mæli flokksþingsályktana Framsóknarflokksins. Þetta
þarf engan að undra. Framsóknarflokkurinn var elstur og reyndastur
stjórnarflokkanna og hafði á þessum tíma, sérstaklega á flokksþingum
1967 og 1971, orðað stefnuskrá sína skýrar en oft áður og með nýjum
áhersluatriðum, sem báru með sér vinstri sinnaða stefnu, lýðræðislega
félagshyggjustefnu. Þar var m.a. mikið lagt upp úr áætlunargerð í
sambandi við uppbyggingu atvinnuveganna, sem kristallaðist í hug-
myndinni um Framkvæmdastofnun ríkisins. Henni var ætlað mikið
hlutverk í skipulagi atvinnuveganna í þeirri vissu að slíkt myndi koma í
veg fyrir handahófsframkvæmdir og tryggja sem jafnasta atvinnuupp-
byggingu í landinu öllu. Framkvæmdastofnunin átti að vera öflug
stofnun og starfa á vegum ríkisstjórnarinnar. Ekki var farið dult með