Andvari - 01.01.1987, Page 36
34
INGVAR GfSLASON
ANDVARI
Alþýðubandalagsins, reyndist erfitt að mynda nýja ríkisstjórn. Eftir
langvinnt þóf í stjórnarmyndunarviðræðum, sem hér verður ekki
rakið, varð niðurstaðan sú að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstjórn,
sem að stóðu Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag.
Að formi til var þetta sterk meirihlutaríkisstjórn, en marga grunaði
þegar í upphafi að innviðir stjórnarinnar væru ekki að sama skapi
traustir. Þó má fullyrða að það sem vakti almenningi tiltrú varðandi
þessa ríkisstjórn var að Ólafur Jóhannesson veitti henni forstöðu.
Meðal framsóknarmanna var lítill sem enginn hljómgrunnur fyrir
áframhaldandi stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Framsókn-
arflokkurinn átti þá um það tvennt að velja að vera utan ríkisstjórnar
eða standa að myndun vinstri stjórnar. Þótt umdeilanlegt væri, miðað
við úrslit kosninganna, varð sú stefna ofan á í Framsóknarflokknum að
taka þátt í vinstri stjórn, enda yrði Ólafur Jóhannesson forsætisráð-
herra.
Þessi síðari ríkisstjórn Ólafs settist að völdum 1. september 1978.
Stjórnarsamstarfið reyndist erfitt, og stutt varð í setu stjórnarinnar.
Andstæðurnar í samsetningu ríkisstjórnarinnar, og þó fremur í þingliði
Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins en að ráðherrar þessara
flokka legðu sig yfirleitt ekki fram um gott samstarf, reyndust meiri en
svo að Ólafi tækist að halda stjórninni saman.
Alþýðuflokksmenn urðu endanlega til þess að rjúfa stjórnarsam-
starfið, þegar þingflokkur Alþýðuflokksins samþykkti — að vísu
nokkuð óvænt — 5. október 1979, tæpri viku fyrr en Alþingi skyldi
koma saman, að ráðherrar flokksins segðu af sér embætti, og að þing
yrði rofið og efnt til nýrra kosninga á árinu. Þessi ákvörðun þing-
flokksins var staðfest degi síðar af flokksstjórn Alþýðuflokksins.
Þáttaskil í stjórnmálum
Ólafur Jóhannesson fékk að sjálfsögðu engu ráðið um þessa
ákvörðun Alþýðuflokksins, og engin tilraun var gerð til þess að fá
henni hnekkt eða endurreisa stjórnarsamstarfið. Ríkisstjórnin hafði
misst meirihluta sinn á Alþingi og var þar með fallin. Hins vegar tók
Ólafur ekki í mál að verða við þeirri kröfu að lýsa yfir þingrofi eða
standa að því að boða til nýrra kosninga. Við þess háttar stjórnarat-
hafnir vildi hann ekki leggja nafn sitt og lagði á það mikla áherslu.