Andvari - 01.01.1987, Page 44
42
INGVAR GÍSLASON
ANI3VARI
Því var það að Ólafur sýndi ekki áhuga á að verða ráðherra í
ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Það getur höfundur þessarar rit-
gerðar vottað með eigin vætti eftir einkasamtal við Ólaf degi áður en
flokkurinn valdi ráðherraefni sín. Hann sagði það berum orðum í þessu
viðtali að hann hefði engan hug á ráðherraembætti í ríkisstjórn Gunn-
ars Thoroddsens. Varð ekki annað af orðum Ólafs skilið en að það gilti
um hvaða ráðherraembætti sem væri. Þá mun það síst hafa hvatt Ólaf
til að sitja í ríkisstjórninni að hann tók ekki beinan þátt í stjórnar-
myndunarviðræðunum umfram það sem þingmenn gera sem aðilar að
þingflokknum.
Hins vegar stóð Ólafi sérstaklega til boða að verða utanríkisráðherra
og eftir að hafa ráðfært sig við ýmsa stuðningsmenn sína í Reykjavík,
sem lögðu fast að honum að taka við embættinu, gaf hann þess kost.
Kaus þingflokkurinn hann síðan formlega sem ráðherraefni og tók
Ólafur við embætti utanríkisráðherra í stjórninni.
Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens
Ferill ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens verður ekki rakinn hér í
smáatriðum. Valdatími hennar, þegar allt er talið, var þrjú ár og vel
þrír mánuðir, frá 8. febr. 1980 til 26. maí 1983. Ríkisstjórnin hefur
fengið misjafna dóma. Ljóst er að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens
heppnaðist ekki það ætlunarverk, sem svo miklu varðaði, að ná tökum
á verðbólgunni. Frá því í janúar 1982 til loka stjórnarsamstarfsins var
megn ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um stjórn efnahagsmála.
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins brugðu stuðningi við ríkis-
stjórnina um sumarið, sem gætti mjög á þinginu 1982-1983, enda hafði
ríkisstjórnin þá ekki lengur starfhæfan meirihluta í báðum þing-
deildum.
Þrátt fyrir það hafði ríkisstjórnin þau tök að fjárlagaafgreiðslan á
fyrrihluta þingsins gekk eðlilega og þingstörf voru unnin áfallalaust.
Þetta breyttist mjög eftir að þing kom saman eftir jólahlé og alþingis-
kosningar voru ákveðnar 23. apríl 1983. Ræður af líkum að ríkis-
stjórnin hafði ekki tök á löggjafarmálum eins og þá var komið fylgi
hennar á Alþingi. „Sök“ ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens var sú að
hún sat of lengi. Hún hefði að réttu átt að segja af sér haustið 1982,
þegar ljóst var að þingmeirihluti hennar var brostinn.