Andvari - 01.01.1987, Síða 48
46
INGVAR GlSLASON
ANDVARI
ljóst að störf hans voru farsæl og í anda þeirrar meginstefnu sem íslensk
utanríkismál einkennast af. Ætla má að Ólafur hafi litið á það sem
hlutverk sitt að halda í horfi þann tíma sem hann var utanríkisráðherra.
Hann minnir á traustan skipstjóra á siglingu yfir úthafið. Þar skiptir
öllu að sigla réttan kúrs, en leika ekki aðrar skipstjórnarlistir að
nauðsynjalausu.
Andlát Ólafs
Ólafur Jóhannesson var enn í framboði til Alþingis í kosningum
þeim sem fram fóru 23. apríl 1983, skipaði sem fyrr efsta sæti á lista
Framsóknarflokksins í Reykjavík og hlaut kosningu. Kosningarnar
reyndust Framsóknarflokknum erfiðari að þessu sinni en verið hafði
þremur og hálfu ári fyrr, og minnkaði heildarfylgi flokksins verulega.
Þó fór það svo að formanni Framsóknarflokksins, Steingrími Her-
mannssyni, var falið að mynda stjórn, og varð hann forsætisráðherra í
ríkisstjórn sem studd var af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðis-
flokknum.
Við stjórnarmyndunartilraunir að loknum þessum kosningum var
Ijóst að Ölafur Jóhannesson var ekki í fremstu víglínu lengur, og ekki
var honum ætlað ráðherraembætti í hinni nýju stjórn, enda ekki til þess
vitað að hann sæktist eftir því. Hitt grunaði þó fáa að Ólafur ætti
skammt eftir ólifað. Hann lést 20. maí 1984, nokkrum dögum áður
en fyrsta þingi kjörtímabilsins lauk. Hafði hann þá haft leyfi frá þing-
störfum stuttan tíma vegna læknismeðferðar, en jafnvel þá vissu mjög
fáir hvernig heilsu hans var háttað. Sjálfur hafði hann ekki haft mörg
orð um heilsufar sitt og ekki bar hann heilsuleysið með sér svo að menn
veittu því athygli. Þótti því mörgum sem maígróðurinn hefði brugðið
lit, þegar Ólafur Jóhannesson féll svo skyndilega frá. Að honum var
mikill sjónarsviptir. Kom ótvírætt í ljós að hann naut mikillar virðingar
og hans var saknað.
Ólafur Jóhannesson kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Dóru
Guðbjartsdóttur, 21. júní 1941. Áttu þau ætíð heima í Reykjavík,
lengst að Aragötu 13 í háskólahverfinu. Börn þeirra urðu þrjú:
Kristrún, f. 6. mars 1942, gift Einari G. Péturssyni cand. mag., Guð-
bjartur, f. 6. nóv. 1947, d. 2. febr. 1967 og Dóra, f. 22. mars 1951.