Andvari - 01.01.1987, Page 50
48
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
héraðsdómara við nokkur umfangsmestu sýslumanns- og bæjarfó-
getaembættin utan Reykjavíkur“, svo enn sé vísað til orða Eiríks
Tómassonar. Ákvæðin um sjálfstæða héraðsdómara er liður í þeirri
viðleitni að gera dómara óháða umboðsstörfum, þótt þar sé skemmra
gengið en rétt getur talist og Ólafur hefði sjálfur kosið. í hans tíð var
stofnað embætti sérstaks dómara í ávana- og fíkniefnamálum og sett ný
lög um fangelsi og vinnuhæli.
í ráðherratíð Ólafs Jóhannessonar voru gerðar ýmsar umbætur á
hegningarlögum og meðferð fanga, m.a. hvað varðar fullnustu dóma
og lausn til reynslu úr refsivist. Segir Eiríkur Tómasson að hugur Ólafs
hafi staðið til þess að gera enn víðtækari breytingar á refsiviðurlögum
en honum entist tími til í þá átt að gera refsingarnar mannúðlegri.
Þótt hægt væri að rekja hér miklu lengur hin beinu afskipti Ólafs og
frumkvæði á sviði löggjafar, verður þess ekki freistað, enda því efni
gerð góð skil í ritgerð Eiríks Tómassonar sem fyrr er minnst á. Um störf
Ólafs sem dómsmálaráðherra má segja að hann hafi unnið þau af
mikilli þekkingu og fagmannlegu öryggi. Sem dómsmálaráðherra
sannaði Ólafur í raun réttri þá kenningu margra að lögfræðingar eigi
jafnan að gegna starfi dómsmálaráðherra.
Þótt höfundur þessarar ritgerðar hafi þekkt Ólaf Jóhannesson allvel
sem forystumann í stjórnmálum, samverkamann í flokksstarfi og
samráðherra um hríð, þá lágu leiðir okkar lítið saman utan hins af-
markaða starfssviðs. Það er allur gangur á því hversu náinn kunnings-
skapur myndast milli manna, þótt þeir eigi samleið í félagsskap og vel
fari á með þeim í samstarfi eða á vinnustað.
Ólafur kom flestum fyrir sjónir sem alvörugefinn maður, orðvar og
hæverskur. Til var það að mönnum fyndist hann þurr á manninn og
afskiptalítill. Mörgum finnst slíkt ekki góðs viti um stjórnmálaforingja,
enda bar á því á fyrstu formannsárum Ólafs í Framsóknarflokknum að
sumum þótti hann ekki svo mikill fyrir sér sem skyldi né að hann gæfi
það af sjálfum sér sem vekur óskoraða hrifningu og fjöldafylgi. Nokk-
uð var til í þessu. Þótt Ólafur væri kappsamur við verk og mikill
iðjumaður virtist hann enginn „keppnismaður“ í þeim sérstaka
skilningi orðsins. Honum var ósýnt um að troða sjálfum sér fram. Hann
var í eðli sínu óhlutdeilinn. Hann var ekki heldur mikill samkvæmis-
maður að sjá og hafði ekki geð til þess að vera neinn miðpunktur í
mannfagnaði eða þar sem mannjöfnuður fór fram e.t.v. meira með