Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 93
ANDVARI
fSLENSK ORÐMYNDUN
91
Rétt er þó að minna orðasmiði á, að til eru ágæt viðskeyti, sem nota mætti
og nýta miklu betur en gert hefir verið. Að minnsta kosti er gott að leiða
hugann að afleiðslu, áður en rokið er til að mynda nýja samsetningu. Vera
má, að afleiðsla krefjist næmari tilfinningar fyrir máli, meira hugvits og meiri
þekkingar. Og vel mætti segja mér, að þekking okkar — bæði lærðra og leikra
— á afleiðsluviðskeytum og -aðferðum væri minni en skyldi.
Á norræna málnefndaþinginu 1983 komst sænskur málfræðingur svo að
orði í umræðum: „Illt væri til þess að vita, ef menn létu dragast vegna
fákunnáttu, þ.e. skorts á málfræðilegum rannsóknum, að nýta þá frjósemi,
sem málið býr yfir.“
Ég er sannfærður um, að við gætum gert meira að því en gert hefir verið að
blása lífi í gömul orðmyndunarviðskeyti og rekja okkur eftir gömlum leiðum.
Stundum hefir tekist svo ágætlega til í þessu efni. Mér kemur í hug orðið
hneigð (d. tendens), sem varð ekki til fyrr en í byrjun þessarar aldar.
Til þess að takmarka mig við eitthvað af því mikla efni, sem hér er um að
ræða, ætla ég að staldra við tvenns konar orð, sem mjög oft er þörf fyrir:
sagnamafnorð (nomina actionis) og gerandnöfn (nomina agentis).
2.1.1 Sagnarnafnorð
Sagnarnafnorð eru heiti þeirrar athafnar, sem í sögninni felst. Algengustu
viðskeyti, sem notuð eru til að mynda slík athafnarnöfn í íslensku, eru þessi:
1. -un, -an: a. köllun, stœkkun, drottnun
b. skemmtun - skemmtan, skipun - skipan
c. angan, ilman
2. -ing: a. sending, heimting, hneiging, kveiking
b. binding, tilfinning
3. -ning: a. talning, samning, smurning, kvaðning
b. kosning, lesning, aukning
Orð með viðskeytinu -un (-an) eru helst mynduð af ó-sögnum (skipun,
skipan), orð með viðskeytinu -ing af ia-sögnum (sending) og orð með við-
skeytinu -ning af ja-sögnum (talning). (Sjá flokkun veikra sagna hér á eftir.)
Einhlítt er þetta þó ekki. Til dæmis er orðið skemmtun (og skemmtan) leitt
af skemmta, sem er ia-sögn, en það kann að vera einsdæmi. Einnig er til, að
orð sé leitt af sterkum sögnum með -ing (binding, tilfinning) eða -ning
(kosning, lesning, aukning).
Upphaflega eru -un og -an tilbrigði af sama viðskeyti. Að fornu var -an
algengara, en nú hefir dæmið snúist við. Nú er aldrei sagt kallan, heldur