Andvari - 01.01.1987, Side 140
VÉSTEINN ÓLASON:
Um heimsádeilu og stráksskap
í tilefni afmœlis og þriggja bóka
um og eftir Halldór Laxness
I
Það er fróðlegt að skoða myndirnar aftan og framan á hinni nýju útgáfu
Vöku-Helgafells á gömlum ritsmíðum eftir Halldór Laxness, sem hefur
fengið nafnið Af menníngarástandi (Reykjavík 1986). Á forsíðunni hið
rúmlega tvítuga skáld: líkaminn svo efnislítill að fötin virðast nær tóm og
höndin kjúkurnar berar; höfuðið stórt, svipurinn þreytulegur en hlaðinn
tilfinningu, og augun stara langt í fjarska, inn á við. Á baksíðunni brosir til
lesanda roskinn herramaður framan við bókaskáp. Hann horfir beint framan
í okkur vitrum augum gegnum gleraugu og yfir hvelfist enni með grunnum
hrukkum; niður úr gleraugunum teygir sig myndarlegt nef og þar fyrir neðan
þetta fallega bros, hlýlegt og prakkaralegt í senn.*
Rithöfundarferill Halldórs Laxness er orðinn svo langur og margbreyti-
legur að það er eiginlega ofvaxið skilningi venjulegs fólks: hvernig hefur einn
maður fengið þessu öllu áorkað? hlýtur maður að spyrja, og á þá vitaskuld
ekki við fjölda blaðsíðna. Svo vaknar spurning hvort hér sé í raun og veru um
eins manns verk að ræða: hefur ekki þessi maður verið eins og ormar þeir sem
kasta hamnum og skríða fram nýir með jöfnu millibili? Mig minnir Halldór
Laxness komist einhvers staðar sjálfur svo að orði, vegna endurútgáfu á
æskuverki, að það skipti um frumur í mannslíkamanum á nokkurra ára fresti
og nú sé hann því allur annar maður en hann var þá. Ritverkin bera þó að
flestu leyti öðru vitni. Vitaskuld breytist skáld með heiminum, um leið og það
breytir honum etv. pínulítið, en samt er eins og einhver kjarni sé alltaf hinn
sami, hvort sem á að kalla hann skapgerð eða eitthvað annað. Pessi kjarni
kemur kannski best fram í því hvernig brugðist er við umhverfinu. Hitt er svo
annað mál að maðurinn hefur alltaf átt ýmislegt til.
Myndin á forsíðunni er framhlið Halldórs Laxness á þeim árum sem hann
skrifaði Vefarann mikla frá Kasmír, sú hlið sem hann helst vildi snúa að
* Úr því farið er að tala um bókarkápu er freistandi að skjóta því að útgefanda bókarinnar, sem hefur unnið
prýðilegt verk,að myndir af medalíum, þófrá Nóbel séu komnar, eru fordild af því tagi sem dregið mundi
dár að í bókinni. íslendingar vita að Halldór Laxness hefur fengið Nóbelsverðlaun.