Andvari - 01.01.2006, Page 7
Frá ritstjóra
Á þessu ári hefur geisað í landinu hörð umræða um grundvallarmál sem
snerta kvikuna í lífsskoðun okkar og siðferðismati. Hér verður vikið að
tveimur slíkum málum. Annars vegar afstöðunni til kirkjulegrar hjónavígslu
samkynhneigðra, hins vegar deilunni um verndun ósnortinnar íslenskrar
náttúru andspænis kröfu um stórvirkjanir. Þetta eru ólík mál, en hvor tveggja
vekja þau djúpstæð tilfinningaviðbrögð. Slík viðbrögð geta orðið öfgafull,
jafnvel heiftarleg á köflum. Tilfinningaleg afstaða er að vísu fremur oft til
þess fallin að hjúpa kjarna máls en skýra hann. En hún segir ekki minna um
hugsunarhátt samtímans en umræða þar sem leitast er við að beita hlutlægri
yfirvegun. í seinna málinu er ljóst að leita þarf álits sérfróðra manna og
haga framkvæmdum samkvæmt mati þeirra. En þegar til ákvörðunar kemur
getur fræðimaðurinn ekki fremur en aðrir gefið hin „endanlegu“ eða „réttu“
svör. Matið er á endanum siðferðilegt, pólitískt í víðri merkingu, ræðst af því
hvernig við lítum til framtíðar þess samfélags sem við lifum. Og þeirri spurn-
ingu verðum við að svara hvert og eitt, í fullri vissu þess að sjónarhorn okkar
allra er takmarkað og margt sem villir okkur sýn. Mestu skiptir að reyna að
glöggva sig á málum eftir bestu getu en láta ekki teyma sig hugsunarlaust til
niðurstöðu, forðast að láta aðra skammta sér skoðanir.
*
Á síðasta ári var lagt fram frumvarp til laga um réttarstöðu samkynhneigðra í
fjölskyldumálum, frumvarp sem á þessu ári varð að lögum. Með því var réttur
þessa þjóðfélagshóps tryggður svo að hann mun varla annars staðar á byggðu
bóli vera meiri. Um þessa löggjöf var almenn samstaða á Alþingi, stjórnar
og stjórnarandstöðu, og að því er ætla má af skoðanakönnunum einnig meðal
þjóðarinnar. Hefði mátt ætla að samkynhneigðir og þeirra helstu stuðnings-
menn fögnuðu þessu mjög. Það gerðu þeir reyndar, en sá fögnuður yfiskyggð-
ist þó af einu atriði sem á þótti skorta: Ekki er kveðið á um kirkjulegar hjóna-
vígslur samkynhneigðra og komið var í veg fyrir að heimildarákvæði um
slíkt yrði sett inn í lögin. Tóku menn nú að álasa þjóðkirkjunni mjög fyrir að
vilja ekki fallast á það og ýmsir söfnuðir gripu tækifærið til að auglýsa eigið
frjálslyndi andspænis íhaldssemi þjóðkirkjunnar. Gekk þar fríkirkjusöfn-
uðurinn í Reykjavík einna fremst. Fríkirkjan hefur ævinlega starfað á sama