Andvari - 01.01.2006, Page 17
ANDVARl
EYSTEINN JÓNSSON
15
Eysteini sóttist námið í Samvinnuskólanum ágætavel, naut hann
þess að hafa verið vel undirbúinn eftir nám hjá föður sínum sem fyrr
greinir. Samvinnuskólinn var tveggja vetra skóli, þar sem lögð var
áhersla á hagnýtt verslunarnám og félagsfræði í anda samvinnustefn-
unnar. Eysteinn lauk burtfararprófi vorið 1927. Frammistaða hans vakti
athygli skólastjórans, Jónasar Jónssonar, og áttu leiðir þeirra eftir að
liggja saman síðar sem alkunna er. Veran í Samvinnnuskólanum, þótt
stutt væri, og kynnin við Jónas skólastjóra mörkuðu æviferil Eysteins
svo að úr skar. Þótt Eysteini sjálfum væri ekki gjarnt að ofurdramat-
ísera æviferil sinn, þá er atburðarásin ótrúlega hröð og umskiptin snögg
í lífi tvítugs verkamanns úr „útkjálka“-þorpi eins og Laxness kallaði
Djúpavog í Grikklandsárinu.
Sumarið eftir skólavistina í Samvinnuskólanum var Eysteinn heima
á Djúpavogi og vann þar sín fyrri störf við búsýslu heimilisins, og það
sem til féll í daglaunavinnu í kauptúninu. Má þó ljóst vera að þá hefur
hann verið farinn að hugsa til breytinga á starfshögum sínum, enda
barst honum í byrjun hausts atvinnutilboð sem hlaut að freista hans.
I hinu yfirgripsmikla og fróðlega riti Vilhjálms á Brekku um ævi
Eysteins segir svo á einum stað í beinni ræðu Eysteins sjálfs: „Skömmu
eftir stjórnarmyndunina [stjórnar Framsóknarflokksins 28. ágúst] fékk
ég svohljóðandi skeyti frá Jónasi: „Mundirðu vilja magra skrifstofu-
vinnu Rvík vetrarlangt. Símsvar. Dómsmálaráðherrann.“ Þessu sím-
skeyti svaraði ég samstundis játandi og tók mér far suður með fyrstu
ferð.“
Þótt varla geti það kallast fullkomin samlíking að bera saman
dirfskuför Júlíusar Cæsars yfir Rúbicófljót til valdaráns í Rómaveldi og
ferð Eysteins frá Djúpavogi til starfa á stjórnarskrifstofu í Reykjavík,
má þó segja að þar hafi teningnum verið kastað um að Eysteinn Jónsson
var að hefja för sína til valda og áhrifa á íslensku stjórnmálasviði. Þá
varð ekki aftur snúið.
Efling Framsóknarflokksins 1927
Alþingiskosningar voru haldnar 9. júlí 1927. Framsóknarflokkurinn
efldist mjög að kjörfylgi og varð stærsti þingflokkurinn með 19 sæti
og hafði 30% heildarfylgis á bak við sig. Naut flokkurinn að sjálfsögðu
kjördæmaskipunarinnar, sem hyglaði þeim sem hafði aðalfylgi á lands-