Andvari - 01.01.2006, Side 23
andvari
EYSTEINN JÓNSSON
21
Um það bil sem Eysteinn fer til náms í Reykjavík haustið 1925 er
orðin nokkur vakning um félagsbundna starfsemi framsóknarmanna
í bænum. Framsóknarfélag Reykjavíkur var stofnað 1924 sem var vís-
bending um að framsóknarmenn þar voru farnir að hugsa til þess að
sinna reykvískri pólitík sem virkir þátttakendur á flokkslegum grund-
velli. I þessum hópi voru m.a. ýmsir menntamenn. Framsóknarflokk-
urinn naut snemma mikils fylgis vaxandi kennarastéttar.
Hallgrímur Hallgrímsson, sem var magister í sagnfræði frá Há-
skólanum í Kaupmannahöfn, bókavörður við Landsbókasafn og kennari
í Reykjavík, stóð fremstur í flokki þeirra sem efndu til félagsstofnunar
og var formaður þess fyrstu árin. 1926 voru sveitarstjórnarkosningar í
landinu og þá bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Framsóknarmenn
réðust ekki í að bjóða fram lista í Reykjavík, en Þórarinn Þórarinsson,
ritstjóri Tímans og alþm., segir frá því í grein, sem lesa má í bók hans
Svo varstu búinn til bardaga (1992), að Hallgrímur félagsformaður hafi
kynnt framsóknarfélagið í ræðu á opinberum stjórnmálafundi til þess
að láta Reykvíkinga vita að Framsóknarflokkurinn væri til í slaginn
víðar en á landsbyggðinni.
Ungir menn tóku að skipta sér af fullum krafti af flokksmálum í
höfuðborginni. Eysteinn Jónsson gerðist þar skjótt drifkraftur og fyllti
þann hóp, sem ofurstéttvísir bændur og hægri sinnar í flokknum nefndu
„bæjarradikala“, og þeir töldu ógna þeirri stöðu, sem þeir ætluðu
flokknum, að vera sem mest framboðssamtök stöndugra bænda, sem
styddust við persónufylgi sitt og orðspor í héraði. Starfsemi framsókn-
armanna tók að eflast verulega í Reykjavík næstu ár. 1930 bauð Fram-
sóknarflokkurinn fram í bæjarstjórnarkosningum (í fyrsta sinni) undir
forustu Hermanns Jónassonar og hlaut tvo menn kjörna, Hermann
Jónasson og Pál Eggert Ólason sagnfræðing. Framboðið í Reykjavík var
tímamótaviðburður í sögu Framsóknarflokksins. Kominn var skriður
a það sjónarmið, sem Jónas Jónsson hafði bent á þegar við upphaf
flokksins og stofnun Tímans 1916 og 1917, að sannað yrði í verki að
flokkurinn ætlaði ekki að festa sig sem „agrar“-flokkur. Hann átti að
yera „radikal“ í þágildandi danskri merkingu þess orðs, félagslega
sinnaður miðflokkur, flokkur samvinnumanna, ekki stéttbundinn eftir
hreinni línu. Framsóknarflokkurinn tók að sækja sig víða í þéttbýli,
m.a. norðanlands og austan. Á Akureyri var öflugt félagslíf framsóknar-
nianna. I Neskaupstað héldu þeir vel saman og áttu þar einn fulltrúa í
bæjarstjórn.