Andvari - 01.01.2006, Síða 38
36
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
þingsæti og Bændaflokkurinn 3, samtals 23 sæti. Framsóknarflokkur
og Alþýðuflokkur höfðu því meirihluta í sameinuðu þingi. En vegna
deildaskipunar (í efri og neðri deild) dugði sá meirihluti ekki til þess að
flokkarnir næðu meirihluta í neðri deild og kom þá í ljós sem fyrr og
síðar að deildaskipting Alþingis var hrein forneskja sem þó tók áratugi
að fá breytt. Ásgeir Ásgeirsson, sem kjörinn hafði verið utan flokka
í kjördæmi sínu (Vestur-ísafjarðarsýslu) gekk til liðs við ríkisstjórn
Alþýðuflokks og Framsóknarflokks og tryggði henni meirihluta í neðri
deild. Þessi stuðningur Ásgeirs auðveldaði stjórnarsamstarfið svo hægt
var að ganga hreint til verks um framkvæmd málefnasamnings, sem
greiðlega tókst að semja, og segja má að sé fyrsti stjórnarsáttmáli sem
gerður hefur verið milli stjórnmálaflokka hér á landi,.
Ríkisstjórnin var skipuð þremur ráðherrum, tveimur framsóknar-
mönnum, einum alþýðuflokksmanni. Hermann Jónasson var forsætis-
ráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra og fór auk þess með landbún-
aðar- og vegamál. Eysteinn Jónsson var fjármála- og viðskiptaráðherra,
Haraldur Guðmundsson fór með sjávarútvegsmál, félagsmál og kennslu-
mál (menntamál). Allt voru þetta ungir menn, Haraldur elstur, 42 ára,
Hermann 37 ára, Eysteinn 27 ára. Framsóknarmenn höfðu lagt til að
formaður flokksins, Jónas Jónsson, yrði forsætisráðherra. En það sætti
slíkri andstöðu alþýðuflokksmanna, að Jónas ákvað sjálfur að halda
því ekki til streitu. Hermann varð þá fyrir valinu og átti fyrir höndum
farsælan feril sem forsætisráðherra lengi síðan.
Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tók við á afar erfiðum tíma.
Heimskreppan var í algleymingi, viðskiptahömlur voru einkenni milli-
ríkjasamskipta, atvinnuleysi var mikið um allan hinn vestræna heim.
Þrátt fyrir þetta örðuga heimsástand og gífurlegan vanda í inn-
lendum þjóðarbúskap að mestu vegna heimskreppunnar, einkenndi
umbótahugur málefnasamning ríkisstjórnarinnar. Það var fullkomið
sammæli með flokkunum að mæta kreppunni með svo „jákvæðum“
aðgerðum sem unnt var í þeirri merkingu að efla framkvæmdir, styrkja
atvinnulífið og stofna til nýrra atvinnugreina.
Hins vegar varð ekki hjá því komist að láta sverfa að á mörgum
sviðum, ekki síst að því er tók til viðskiptamála. Það kom fyrst og
fremst í hlut Eysteins Jónssonar að stjórna þeim vandasömu, óvinsælu og
umdeildu aðgerðum. Og ekki kom síður í hlut hans að svara fyrir hinar
ströngu viðskiptahömlur sem ríkisstjórnin stóð fyrir, sem fyrst og fremst
voru innflutningshöft og hörð gjaldeyrisstjórn, gjaldeyrisskömmtun,