Andvari - 01.01.2006, Page 46
44
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
Næstu fimm ár er Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu. Eftir
fall þjóðstjórnar stýrði Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks-
ins í u.þ.b. 7 mánuði. Eftir langt þóf um stjórnarmyndun greip rík-
isstjóri til þess ráðs að skipa utanþingsstjórn sem sat frá því í desember
1942 til hausts 1944, þegar svonefnd „nýsköpunarstjórn“ var mynduð
undir forsæti Ólafs Thors. Sat hún til 4. febrúar 1947 og var skipuð
ráðherrum úr Sjálfstæðisflokki, Alþýðuflokki og Sósíalistaflokknum.
Framsóknarflokkurinn var þá í stjórnarandstöðu, gagnrýninn á margt
af gerðum „nýsköpunarstjórnarinnar“, enda vændur um afturhaldssemi
og galt þess eitthvað um sinn.
Eysteinn sat á Alþingi öll þessi ár og gegndi sem fyrr mikilvægu
forustuhlutverki í Framsóknarflokknum ásamt Hermanni Jónassyni.
Eftir að hann hætti sem ráðherra 1942 tók hann við starfi framkvæmda-
stjóra Prentsmiðjunnar Eddu og gegndi því til ársins 1947, er hann
varð menntamálaráðherra í ríkisstjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns
Stefánssonar, þegar „nýsköpunarstjórnin“ var öll.
Sem ritari Framsóknarflokksins hafði Eysteinn miklum skyldum að
gegna í flokksstarfi og félagslífi og lét mjög að sér kveða. Hann naut
mikilla vinsælda og trausts meðal flokksmanna, hann var með sanni
óumdeildur forustumaður á sínu sviði svo að hver maður vildi hlíta
hans ráðum. Var hann þó afskiptasamur og sagður ráðríkur en vann
það allt upp með réttsýni og dómgreind sem allir virtu. Sviptingar voru
í innanflokksmálum um skeið vegna ágreinings Jónasar Jónssonar við
Hermann og Eystein. Aðdragandi þessa ágreinings átti rætur langt aftur
í tímann og verður ekki rakinn hér að öðru leyti en því að Jónas var
felldur í formannskjöri í miðstjórn 18. apríl 1944. Hermann Jónasson
var kosinn formaður með miklum atkvæðamun. Þetta var mörgum
sársaukafullur viðskilnaður við Jónas, en niðurstaðan talar sínu máli.
Stofnun lýðveldis. Eysteinn formaður
stjórnarskrárnefndar
Fimmti áratugur 20. aldar er minnisstæður fyrir margra hluta sakir,
ekki síst hernám Breta, varnarsamning við Bandaríkin, nálægð Islands
við hernaðaraðgerðir á Norður-Atlantshafi, mannfórnir af stríðsvöldum
og „stríðsgróðann“, sem þjóðin naut eftir kreppuárin milli 1930 og
1940. Alls þessa verður vafalaust lengi minnst.