Andvari - 01.01.2006, Side 48
46
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
bandslaganna, enda mæltu ákvæði laganna svo fyrir að þeirra dómi.
Þingmál í anda þríflokkanna voru lögð fyrir Alþingi 10. janúar 1944
um niðurfellingu sambandslaga og stofnun lýðveldis 17. júní það ár.
Forsætisráðherra utanþingsstjórnar, Björn Þórðarson, flutti málið í
neðri deild. Eysteinn Jónsson hafði verið kjörinn formaður stjórnar-
skrárnefndar neðri deildar, sem málinu var, að lokinni 1. umræðu,
vísað til. I efri deild starfaði einnig stjórnarskrárnefnd. Gengu nefndir
beggja deilda saman í eina nefnd og var Eysteinn formaður sameinuðu
nefndarinnar. Ekki skal úr því dregið að flestir, sem börðust fyrir því
að lýðveldi yrði stofnað 17. júní 1944, óskuðu þess að allir þingflokkar
stæðu saman um þá ákvörðun. Enginn mun þó hafa lagt sig meira fram
en Eysteinn Jónsson að vinna Alþýðuflokkinn til fylgis við þá stefnu
og láta af frestunarhugmyndum sínum, enda víst að Alþýðuflokkurinn
var ekki andvígur lýðveldisstofnun. Eysteinn var ekki aðeins kjör-
inn formaður stjórnarskrárnefndar, hann var einnig framsögumaður
nefndarinnar í umræðum um málið og sótti það af kappi og sannfær-
ingarkrafti. Lyktir málsins urðu þær að allir viðstaddir þingmenn sam-
þykktu lýðveldisstofnunina í báðum þingdeildum, alþýðuflokksmenn
sem aðrir. Framganga Eysteins á lokaspretti „skilnaðarmálsins“ sýndi
hversu öflugur stjórnmálamaður hann var, stefnufastur en laginn og
sannfærandi samningamaður.
Nýsköpunarstjórnin og stjórnarandstaða Framsóknar
Rétt þykir, þegar rætt er um viðburði fimmta áratugarins, að víkja
nokkrum orðum að nýsköpunarstjórninni, sem Olafur Thors, formaður
Sjálfstæðisflokksins, myndaði með Sósíalistaflokki og Alþýðuflokki
haustið 1944. Ýmsir urðu til þess að hrífast af þeirri dirfsku Ólafs
að styðjast við „kommúnista“ sem sína nánustu samstarfsmenn í rík-
isstjórn og fá Alþýðuflokkinn til þess að leggja stjórnarsamstarfinu lið
með fullum stuðningi að séð varð.
Þess voru sýnileg merki að ríkisstjórnin átti vinsældum að fagna.
Stjórnarsáttmáli þríflokkanna lýsti stórhug að því er varðar verklegar
framkvæmdir og uppbyggingu atvinnulífsins, ekki síst á sviði sjávarút-
vegs. Bjartsýni ríkti meðal landsmanna vegna góðrar fjárhagsafkomu
almennings undanfarin ár og ánægju með stofnun lýðveldis.
Framsóknarflokknum var vitaskuld ekki boðið til þessa samstarfs,