Andvari - 01.01.2006, Blaðsíða 58
56
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
sökum, auk mikillar stjórnmálareynslu sinnar yfirleitt, má fullyrða að
staða menntamálaráðherra var vel skipuð þegar svo réðst að hann tók
að sér það embætti í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns. Embættissviðið var
vítt og tók til allra meginþátta menningar- og fræðslumála, opinberra
menningarstofnana, safna, skóla á öllum stigum frá barnaskólum upp í
Háskóla íslands.
Þótt starfstími Eysteins í menntamálaráðuneytinu væri ekki langur,
setti hann sig vel inn í málefnin og kom mörgu góðu til leiðar. Eitt
þeirra mála, sem hann lét til sín taka svo að hann má kallast meðal
frumkvöðla í þeim efnum, voru náttúruverndarmál. Þó að þau séu nú
á dögum fyrirferðarmikil í þjóðmálaumræðunni, var svo ekki fyrir 60
árum. Eigi að síður voru ýmsir farnir að huga að þeim málum og gera
sér grein fyrir að náttúra landsins var grundvöllur lífsins sjálfs en ekki
náma sem ganga mætti í og nýta meðan entist. Náttúran krafðist þess
að vera vernduð fyrir ofnýtingu og hvers kyns spillandi ágangi.
Frumkvöðull náttúruverndar
Fram kemur í Ævisögu Eysteins (II, 143-144), að sérstök atvik hafi
orðið til þess að vekja athygli hans á náttúruverndarmálum á þessum
tíma. Tveir af alþingismönnum Framsóknarflokksins, Páll Þorsteinsson
og Jón Gíslason, fluttu og fengu samþykkta þingsályktunartillögu um
náttúrufriðun og verndun sögustaða. Alyktunin fól í sér að ríkisstjórnin
undirbyggi löggjöf um þetta efni. Það kom því til kasta Eysteins sem
menntamálaráðherra að láta vinna að slíkri löggjöf og lét hann ekki
á sér standa um það. Hann skipaði tvo unga og vel metna fræðimenn,
sagnfræðing og náttúrufræðing, Kristján Eldjárn og Sigurð Þórarins-
son, til þess að vinna að frumvarpsgerð um málið. Þótt þeir ynnu
mikilvæga undirbúningsvinnu, reyndist málið býsna yfirgripsmikið og
varð ekki frágengið í tíð Eysteins sem menntamálaráðherra, en tekið
upp síðar til faglegrar meðferðar. Náttúruverndarlög gengu loks í gildi
1956.
Þótt lengra liði átti Eysteinn eftir að koma meira við sögu náttúru-
verndarmála. Þegar stóriðjustefnan tók að ryðja sér til rúms fyrir alvöru
á 7. áratug nýliðinnar aldar urðu náttúruverndarmál, mengunarmál
og umhverfismál almennt, óhjákvæmileg umræðu- og úrlausnarefni.
Eysteinn tók mikinn þátt í þeirri umræðu og lét að sér kveða að flytja