Andvari - 01.01.2006, Síða 129
ANDVARI
HAMLET VIÐ HEIMSKAUTSBAUG
127
Nokkrar grundvallarspurningar
I leikskrá fjallar leikstjóri um þessar spurningar og allmargar aðrar. Orðrétt
stendur þar: „Ný kynslóð og ný öld. Ný viðhorf og ný glíma. Ungmennin
verða að standa upp frá áhyggjulitlum leik, því að ábyrgðin er að færast á
þeirra herðar. Og það er sitthvað rotið í ríki Dana, - sá heimur sem við færum
þeim í arf er ekki að öllu leyti í samræmi við þá yfirborðslegu glæsimynd
sem reynt hefur verið að halda að æskufólkinu og það látið gangast upp í.
Misskipting auðs, fátækt og hungur, ólæsi, vatnsskortur og fæðuskortur,
umhverfismengun, jafnt í lofti, legi sem láði, hryðjuverk og kynþáttafordómar
og mismunun. Úr liði er öldin.
Þau eru gamlir leikfélagar, ólík eins og þau eru innbyrðis, Hamlet, Laertes,
Hóras og Ofelía. Hamlet og Hóras koma heim frá skóla á Vittenbergi til að
vera við útför Hamlets konungs hins eldra. Til eru þeir sem spyrja, af hverju
Hamlet yngra var ekki trúað til þess að taka við ríkisstjórn og völdum. Var
gengið framhjá honum af því hann var ekki tilbúinn að axla þá ábyrgð, eða
var um að ræða valdarán? Einkennilegt hversu brúðkaup ekkjunnar og föð-
urbróðurins, hins nýja kóngs, fylgdi fljótt á eftir. Þegar Hamlet kom heim
hafði hann séð leiksystur sína, Ófelíu, í fyrsta sinn sem fullvaxta konu og upp
blossa heitar tilfinningar. En er þá konum ekki að treysta, fyrst móðir hans
gerðist svo fljótgleymin á sinn fyrri bónda?
Andrúmið við hirðina er lævi blandið. Laertes unir sér ekki og heldur á vit
hins ljúfa leiks í París. En Hamlet og Hóras verða þess áskynja, að ekki er
allt með felldu um lát konungs; friðlausar sálir gera vart við sig og krefjast
hefnda. Draugar eru ekki til, munu einhverjir segja. Ekki munu þó margir
íslendingar hikstalaust fullyrða, að ekki sé fleira milli himins og jarðar en
heimspekina okkar dreymir um. En nú myndi ég vilja spyrja Shakespeare,
eins og Dover Wilson gerði forðum: Er ekki augljóst að Hamlet heyrir á tal
Póloníusar og Kládíusar, þegar þeir beita Ófelíu fyrir sig til að forvitnast um
angur prinsins? - sú er skýringin á því hvernig þessi annars óstýriláti skap-
hundur leikur Ófelíu - ein af hinum frægu gátum í leiknum. Eins spyrjum
við hvort drottning hafi vitað um morðið á bónda sínum? Með furðu horfir
Hamlet á heri strádrepna út af skika sem í raun skiptir valdaherra heimsins
iitlu ef grannt er skoðað. En sjálfum er þessum galgopa um megn að gegna
þeirri hefndarskyldu sem vanahugsun samfélagsins býður: auga fyrir auga
og tönn fyrir tönn. Kannski trúir hann því ekki að ofbeldi eigi að mæta með
ofbeldi. En ef það er ekki í hans eðli að vera vígamaður, hver eru þá við-
brögð hans, þegar hann í æðiskasti verður gamla ráðgjafanum að bana?
Þessum og fjölda annarra spurninga þurfum við að svara í sýningu okkar.
Það er aðall góðra leikverka, að persónurnar þróast eftir því sem á leikinn
líður og viðhorfin breytast í atburðarásinni. Glöggir áhorfendur munu sjá