Andvari - 01.01.2006, Side 132
130
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
Ekki er stórmannlegt
að ýfast hátt af litlu sakarefni
heldur að kveikja styrjöld útaf strái
ef virðing liggur við. Hvar stend ég þá,
sem á þó föður myrtan, tælda móður,
eggjaður bæði af blóðs míns funa, og greind,
og læt allt sofa, en sé þó mér til blygðar
tuttugu þúsund menn, sem dauða merktir
með frægðarinnar fánýtt blik í augum
ganga til moldar sem til sængur, berjast
um blett sem er til bardagans of þröngur
og nægir ekki til að taka gröf
að geyma valinn. Héðan af skal hver
mín hugsun vera blóð, ef nokkur er.
Ber að skilja þetta sem svo, að þessi Póllandsbardagi eggi Hamlet til vopna-
verka? Varla. Fyrirlitningin á hernaðarbrölti er augljós. En Hamlet er með
flekkaðar hendur, hann verður að leika leikinn á enda. Hann veit það kostar
blóð - sitt og kóngs. Og það er reyndar kóngur sem leggur honum spilin í
hendurnar.
Þegar þeir mætast, hann og Laertes, við útför Ofelíu, er Hamlet nýbúinn
að endurspegla sakleysi leiksins í holum augnatóttum hirðfíflsins, Jóriks.
Laertes syrgir saklausa systur sína með þeirri tilfinningu sem Hamlet finnst
hann bera þúsundfalda í brjósti. En sviptivindur örlaganna bar tilfinninguna
af leið. Bardagi þeirra gömlu félaganna verður þeim mun heiftúðarfyllri sem
þeir voru áður nánir - verður bardagi milli þess sem var og þess sem aldrei
verður aftur.
Kóngur er allungur og glæsimenni. Hann hefur búið í skugga bróður síns,
verið herforingi hans, en aldrei uppskorið laun sem fullnægðu metnaði hans.
Hann er í fyrstu óöruggur, hikandi, fullur efasemda, hræddur um að upp kom-
ist um glæp hans, en metnaðurinn og valdagirnin hefur þó yfirhöndina. Hann
er slyngur stjórnandi og reiðir sig um leið á ráðsnilli og reynslu Póloníusar.
Hann telur skynsamlegt að lempa Hamlet og heldur í fyrstu að það takist.
Hann er einnig uggandi yfir nýupphöfnum ástum þeirra Geirþrúðar; það er
hún sem bersýnilega hefur borið til hans ástarhug lengi og sækir á. Hann
lætur undan. I einræðunni frægu reynir hann að iðrast glæpsins og öðlast
fyrirgefningu. Það tekst ekki og nú forherðist hann. Ekki verður aftur snúið
á glæpabrautinni. Ef hann bugast nú, er allt unnið fyrir gýg, og glæpurinn
verður hvort eð er að fylgja honum til endalokanna.
Drottning er áratug eldri en Kládíus og ber til hans heitan ástarhug. Samlíf
hennar og Hamlets konungs hefur verið farið fremur að kólna, og nývakið