Andvari - 01.01.2006, Side 152
150
STEINUNN INGA ÓTTARSDÓTTIR
ANDVARI
að sér er að ganga um með vini sínum í lystigarði á fögru sumarkvöldi (sbr.
53). Og á langferðum reynir hann ávallt að kynnast samferðamönnum sínum
og stytta sér stundir við að spjalla við þá. Hann segist vera leiður þegar hann
sér fátt fólk á ferli og ekkert óvænt gerist en gleðst þegar hann hefur skoðað
Berlín og kynnst vingjarnlegum borgarbúum (sbr. 36). Tómas var víðförlastur
íslendinga á sinni tíð36 og hann hefur verið vel meðvitaður um forréttindi sín
og sérstöðu. Hann kallar sjálfan sig „hinn eina íslending, sem vogaði sér út
í veröldina.“37 Hann veit að þeir sem halda sig á sömu þúfunni alla ævi fara
mikils á mis. Það lætur því vel í eyrum hans, kitlar jafnvel hégómagirndina
aðeins, þegar samferðakonur dást að honum:
Hinar prússisku konur voru skemmtnar nrjög og kátar, og fundu ætíð nóg til umtalsefnis
og töluðu mjög skynsamliga um allt; urðu þær mjög hissa að heyra eg væri frá Islandi.
Vissu þær um föðurland mitt miklu meira en mér hefði getað til hugar komið, þóktust
heppnar að hafa kynnzt við íslending, vildu vita nafn mitt og heimili og skrifuðu það hjá
sér; sýndist þeim eg mætti vera sífellt uggandi um líf mitt í svo fjarlægu landi. Sagði eg
þeim þá hvað eg hefði enn í áformi að ferðast, og fannst þeim þá enn meira um, sögðu
eg væri öfundsverður er eg væri búinn að gjöra slíka ferð. Þókti mér það vel sagt og
náttúrligt af kvenmanni, því bæði var rétt álitið að manni þykir eins gaman að slíkum
ferðalögum þegar þau eru enduð eins og meðan á þeim stendur, og líka finnst þeim sem
ístöðulítill er og aldrei hefir farið út af átthögum sínum, eins og á stóð fyrir þessum,
heldur kvíðvænligt en gleðiligt að kasta sér meðal útlendra þjóða.38
Þótt Tómas færi víða og sæi margt breyttu ferðalögin ekki öllu um hleypi-
dóma hans frekar en annarra. Hann fer ekki ofan af því að kaþólskir séu
fáfróðari en lútherstrúarmenn og að Gyðingar séu skítugir, frekir og nískir.
Tómas virðist yfirleitt hafa haldið sig sæmilega á meðan ferðaféð entist.
Hann bjó í snyrtilegum herbergjum, borðaði góðan mat, svolgraði bjór og fékk
jafnvel rakara til sín að morgni. Hann er einlægur og grunlaus á ferðalögum
andstætt t.d. Hannesi Finnssyni biskupi sem ávallt var „tortrygginn á reisum“
eins og hann orðaði það sjálfur í Stokkhólmsrellu sinni. Tómas taldi það „for-
sjálligast meðal ókunnra þjóða að dylja allan efa um trúnað þeirra sem maður
á við að skipta og tala við þá einlæglega og sem kunningja meðan þeir ekki
hafa gefið til annars neina átyllu“ (243). Annars lætur Tómas afar fátt uppi
um líðan sína í Ferðabókinni og frásögnin er lítt fleyguð af persónulegum
munum. Hlutlægar og nytsamar lýsingar eru allsráðandi, tilfinningar höfund-
arins eru víðsfjarri þrátt fyrir yfirlýsingar í formála um að „köld orðavegun“
eigi ekki heima í slíkum bókum (4). Markmið hans hefur ef til vill verið
að skrifa huglæga ferðasögu en nytsemin, uppfræðingin og föðurlandsástin
eru svo fyrirferðarmikil að lítið svigrúm er fyrir frásagnir af persónulegum
högum. En ekki má gleyma að Ferðabók Tómasar er aðeins uppkast, skrifað
í tímaþröng, og óvíst hvernig hún hefði litið út í endanlegri gerð. Af efnistök-
um að dæma má ætla að hefði honum unnist tími til að ljúka bókinni hefði