Andvari - 01.01.2006, Síða 153
ANDVARI
„AÐ KASTA SÉR MEÐAL ÚTLENDRA ÞJÓÐA“
151
hún líklega orðið a.m.k. 1000 blaðsíður að lengd. Umræða um bókmenntir
og trúarbrögð, menntamál, stofnanir og stjórnarfar að ógleymdri heimspek-
inni er afar fyrirferðarmikil í Ferðabókinni og Ijóst er að Tómas hefur haft
fastmótaðar skoðanir og mikla þekkingu á þessum efnum.39 Augljóst er að
hann er ekki hrifinn af kaþólsku en annars er ekki eins mikið um guðfræði
og guðstrú í Ferðabókinni eins og búast mætti við þegar höfundurinn er ungur
prestur. Tómas hafði hinsvegar brennandi áhuga á skáldskaparfræði og var
einn af frumherjum fagurfræði hér á landi.40
Ekki skrifuðu allir ferðalangar ferðasögu þótt þeir ferðuðust víða. Góð-
vinur Tómasar, Konráð Gíslason, ferðaðist einnig um Evrópu um áratug á
eftir Tómasi. Hann segir í bréfi til Gísla Konráðssonar: „Jeg gæti skrifað heila
bók um ferðalag mitt í fyrra, ef ég nenti að vera að því, eða (rjettara að segja)
mætti vera að því.‘41 En um miðja nítjándu öld eru ferðabækur mjög að ryðja
sér til rúms bæði meðal íslendinga og annarra þjóða. Nægir að nefna sem
dæmi Ferðabók landfræðingsins Þorvalds Thoroddsens um ísland á árunum
1883-99 (pr. fyrst 1913-14) og ferðadagbók Magnúsar Grímssonar þjóð-
sagnasafnara um vísindaferðir hans innanlands frá sumrinu 1848 (pr. 1988).
Einnig má nefna lítt þekktar en skemmtilegar Ferðaminningar Sveinbjörns
Egilsonar úr Hafnarfirði (f. 1863) en hann sigldi um öll heimsins höf og segir
frá ævi sinni og ferðalögum á tæplega 400 blaðsíðum (pr. 1922), að ógleymdri
frægri ferðasögu Eiríks á Brúnum til Kaupmannahafnar 1876. Um aldamót-
in 1900 þótti háðfuglinum Benedikt Gröndal nóg komið af svo góðu. Hann
skopaðist að þessu bókmenntaformi með ferðasögu frá túngarðinum heima
hjá sér til vinar síns sem bjó skammt frá. Hann skrifar:
Ég vaknaði einn morgun og - ég veit ekki hvemig það var - mig langaði allt í einu til
að fara að gera eins og allir hinir, til að ferðast. En ég hafði enga peninga, fimm krónur
átti ég í buddunni og fjörutíu aura að auki, en það var of lítið til að ferðast til Þýskalands
eða Noregs, og þótti mér það leiðinlegt, því þar hefði ég getað fengið að sjá svo margt
merkilegt, smérgerð og ostagerð og margt þess konar.42
Þegar hér er komið sögu hefur ferðasagnaformið fest sig í sessi í íslenskum
bókmenntum. Ferðasögur eru ekki lengur bókmenntaleg nýjung heldur angi
af meiði hefðarinnar og skotspónn íroníu og paródíu. I ferðasögu Gröndals
er háðsglósu beint til Tómasar og allra þeirra ferðasagnahöfunda sem lögðu
ofurkapp á að lýsa fróðlegum og merkilegum hlutum erlendis sem orðið gætu
landi og þjóð til nytsemdar og upplýsingar. Tilgangsleysi ferðasögu Gröndals
er algjört og háðið felst ekki síst í því að þegar hann loksins var kominn á
leiðarenda eftir langa mæðu var Halldór vinur hans ekki heima.