Vaka - 01.11.1928, Blaðsíða 88
342
KRISTJÁN ALBERTSON:
[VAKi.;
hans á eftirtímann, á vora tíma. Jafnvel þó a6 til væru
trúarflokkar, sem kenndu sig við Tolstoj, þá værum við
litlu nær um áhrif hans.
Einn af þeim mönnum, sem ég hefi sterkast heyrt
andmæla kenningum hans, hafði samt sem áður orðið
fyrir ríkari áhrifum af fordæmi hans og ritum en
nokkru öðru. Þessi maður er sonur hans, Leo Tolstoj
greifi hinn yngri.
Hann er nú kominn undir sextugt. Hann hefir m. a.
skrifað nokkur skáldverk, ekki sérlega tilþrifamikil,
að því er virðist. Ég man að Maxim Gorki hristi höf-
uðið og bandaði frá sér með hendinni, þegar hann hafði
sagt mér frá einu þeirra. Meiri viðurkenningu hefir
hann hlotið sem myndhöggvari, en mun ekki hafa ver-
ið afkastamikill. Á seinni árum hefir hann m. a. ritað
bókina um föður sinn, og síðast, þegar ég hitti hann,
fyrir nokkrum mánuðum hér í París, var hann ný-
kominn frá Ameríku og hafði ferðazt þar um í tvo
vetur og haldið fyrirlestra um föður sinn. Við bylting-
una i Rússlandi missti hann allar eigur sínar.
Hann likist föður sínum á yfirandlitið (eftir lýsing-
um og myndum að dæma) hefir mikið enni, brún augu,
góðleg og skýr. En til munnsins er hann eins og móðir
hans, með þykka, niðurbretta neðrivör. Hann er mag-
ur, fölleitur, tiginmannlega hægur og látlaus í fram-
komu, glaðlegur á svip, þegar talað er við hann, en
annars þreytulegur, næstum þunglyndislegur.
Hann fór ekki dult með beizkju sína til föður síns,
m. a. fyrir að hafa gert útgáfuréttinn að ritum sinum
að almenningseign. „Hér eru bækur föður mins í
hverjum bókaglugga“, sagði hann við mig í Þýzka-
landi 1923. Ríkir forleggjarar græða á þeim, en ég,
sonur hans, er í stöðugum fjárkröggum. Getur mér
fundizt til um það, hvernig faðir minn hefir ráðstaf-