Vikan


Vikan - 29.08.1963, Blaðsíða 23

Vikan - 29.08.1963, Blaðsíða 23
KYNLEGUR HALUR HÆRUGRAR Hér er síðari hluti frásagnar Lúðvíks Kemps af Guðmundi „allra bezta“. drengir?“ — Ekki minnkaði hláturinn við þetta. Menn skemmtu sér þarna konunglega, en Gvendur labbaði burt steinþegjandi, og þar með var þetta þjófnaðarmál úr sögunni. Ég frétti heim í Illugastaði um þennan meinta skaða Gvendar vinar mins. Næst þegar ég kom á Sauðárkrók, spurði ég kunnuga menn um sannindi þessa atburðar. Þeir kváðu peningastuldinn fjarstæðu, er aldrei hefði átt sér stað nema í höfði Gvendar. En brynningafötuna höfðu strákar tekið af hrekk við Gvend og falið hana. — Komu þeir þannig fyrir þessum pretti sínum, að Gvendur fann hana sjálfur í fjósinu. — Sneri hann þá óðara reiði sinni, og kvað drauga, sem alltaf voru nú öðru hvoru að gera honum glett- ingar, hafa stolið fötunni. — Þessum vísindum Gvendar voru menn samþykkir, bæði ég og aðrir vinir hans. Eftir því sem leið á ævi Gvendar jókst draugatrú hans hröðum skrefum, og var þó ærin nóg fyrir. Virtist vera, að hann væri ekki með sjálfum sér á köflum. —- Fyrst lét hann sér nægja að verja sig og heimilið fyrir þeim, en svo fór að lokum, að hann tók að sér, ótilkvaddur þó, að verja allan Sauðárkróksbæ fyrir þessum gang- árum. — Var það hans helzta úrræði að reka þá í sjóinn. Lenti hann iðulega í hörðum sviptingum við þá, er hann var að inna af hendi þetta meinta kærleiksverk. Sízt af öllu vildi hann missa þá fram í Skagafjörð, því að þeir voru léttir' á fæti, að hans sögn, og ótrauðir til áreitni við hann og aðra, er þeir komu úr sveitinni, og fljótir að bera sig yfir rennslétt héraðið, eins og Gvendur orð- aði það. Að lokum varð þessi meinta fórnfýsi hans í þágu Sauðkrækl- inga honum að aldurtila, því að hann drukknaði við Borgarsand 8. september 1936, eins og áður er sagt. Var hann þá búinn að berjast part úr degi við drauga þarna á sandinum blásmóður og bölvandi. Hafði hann farið úr ytri fötum og lagt þau frá sér, ásamt úri sínu, ofan við fjöruborðið og fannst það þar að honum látnum. — Þennan síðasta darradans við sína erkióvini hafði hann því þreytt á nærklæðunum hlífarlaus. — f bardagahitanum hafði hann ekki farið nógu varlega og fylgt þessum höfuðskálkum lengra fram í flæðarmálið en heppilegt var fyrir hann ósyndan, enda varð honum að því. Hann fannst sama daginn drukknaður, örstutt frá landi. Fleiri dulverur komst Gvendur í kast við um ævina en Sigurð Skurð. — Hinn stórmerka og landfræga draug, Þorgeirsbola, hafði hann oft séð, aðallega þau árin, sem hann dvaldi í Húnavatns- sýslunni, enda var Boli oft aðsópsmikill þar og er enn að. sögn. — Aldrei kvaðst Gvendur hafa lent í illindum við Bola, og taldi hann því frekar óáleitinn. En klaufaskelli hans og ámáttlegt öskur hafði hann oft heyrt bæði á nóttu og degi, en aldrei kom það að sök. Gvendur kvaðst oft hafa séð og mætt á ferðalögum hrossum, sem hann vissi að dauð voru fyrii; löngu. — Sömuleiðis hundum, er geltu stundum ofsalega, en voru þó meinlausir, hringsnerust og hoppuðu af kæti. — Ekki kvaðst Gvendur hafa þurft annað en siga hundunum, en þá tóku þeir sprettinn og hurfu fljótlega. Aldrei heyrði ég hann minnast á, að hann hefði séð kött aftur- genginn. Ekki get ég skilizt svo við þennan þátt, að ég. ekki segi frá einu merkasta ævintýri Gvendar, er hann lenti í síðasta ár ævi sinnar. Fer vel á því, að.þættinum ljúki með þeirri frásögn. Hún er greinargóð og lýsir Gvendi ágætlega, enda skrifuð upp eftir einum þeirra manna, er lentu í áminnztu æfintýri með Gvendi og var því eiginlega píslarbróðir hans, á meðan þetta él stóð yfir, en virðist þó, óverðskuldað samt, hafa losnað við allar hremmingar ævintýrsins, er bitnuðu því meira á Gvendi vini mínum, eins og ævinlega þegar annað hvort meintar eða raunverulegar dulverur voru að ónáða hann. Þá mun ég taka hér á eftir frásögn sjónarvotta og samtíðar- manna um viðbrögð og starf Gvendar síðasta daginn, sem hann lifði, — og að lokum gera grein fyrir uppruna Gvendar, að svo miklu leyti, sem vitað vérður um í gegnum kirkjubækur og aðrar heimildir, foreldra hans og systkin. Guðmundur „allra bezti“ hyggst drýgja tekjur sínar og grefur fornmannahaug. Það var sumarið 1931, að Guðmundur „allra bezti“ var í vegavinnu að vanda. Hann var þá kominn frá mér eins og áður er sagt, og til síns gamla vinar og verndarmanns verkstjóra Kristjáns Hansen. —- Vinnuflokkur sá, er Gvendur var þá með, er þessi saga gerðist, hélt til í tjöldum stutt frá Sleitubjarnarstöðum í Óslandshlíð. — Tjaldfélagar hans voru þá tveir rosknir menn af Sauðárkróki, Ólafur Ólafsson og Kristófer Tómasson. Til viðbótar þessum vinnuflokki kom, um þessar mundir, annar vinnuflokkur, sem hafði verið að byggja ræsi frammi í Vallhólmi. Stutt þar frá, sem tjöld vegagerðarmannanna stóðu, var melhóll, sem er á landamerkjum Sleitubiarnarstaða og Miklabæjar. Á hóli þessum stóð grjótvarða. — Gömul sögn var um það, að þarna ætti að vera heygður Þórhallur bóndi frá Miklabæ, sá hinn sami, er um getur í sögu Finnboga rama. — í haug með honum átti að hafa verið lögð uppáhalds kista hans, og vitanlega full af silfri. •— Rætt var um það á meðal vinnufélaga Gvendar að ná í þessi verðmæti. — Var Gvendi það mikið áhugamál, enda var honum falin forsjá þessa verks og framkvæmd. — Til þessa var hann fús, enda þaulvanur að fást við ýmiskonar slaeðing og gangára, eins og fyrr getur í þessum þáttum. Verkstjóri sagði Gvendi, að þótt hann gæti náð í kistuna, þá væri innihald hennar, lögum samkvæmt, að mestu eign Ríkissjóðs. Um stundarsakir minnkaði áhugi Gvendar við þessar upplýsingar, og komu þá aðrir vinnufélagar hans til skjalanna, er töldu þetta fjarstæðu eina og buðu honum hjálp sína, og jafnframt full um- ráð yfir væntanlegu silfri, — enda var Gvendur fljótur að snúast á sveif með þeim og því hálfu ákafari til framkvæmda en nokkru sinni áður. Nú var komið fram í júlí seint, er hér var komið málum. — Kvöld eitt, skömmu fyrir hættutíma, lögðu þeir félagar nokkrir af stað áleiðis til hólsins, með Gvend í broddi fylkingar, vopn- aðir hökum og skóflum. — Var síðan óðara byrjað á verkinu að grafa í hólinn undir fyrirsögn Gvendar. Er þeir höfðu grafið um stund, kallar einn þeirra félaga upp og segir: „Sjáið þið augun“, og jafnframt bendir hann ofan í holuna. — Köstuðu þá menn frá sér áhöldunum í snatri og flúðu æpandi í áttina til tjaldanna. Gvendur staldraði fyrst við, en brátt kom að því, að hann ærðist líka og fór í loftköstum á eftir félögum sinum og æpti einna hæst þeirra kumpána. — Má nærri geta, hvort ekki hafi verið rætt um l-’ramhald á bls. 30. VIKAN 35. tbl. — 23

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.