Kirkjuritið - 01.12.1953, Blaðsíða 28
250
KIRKJURITIÐ
stundar“ og líkamsdauðinn þau örlög, sem öllum oss eru
búin. En vér vitum einnig hitt, „að anda, sem unnast, fær
aldregi eilífð aðskilið“. Væri ekki svo, mundi Jesús þá
hafa sagt: Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa.
Ég kem til yðar — og þér munuð sjá mig, því ég lifi og
þér munuð lifa.
f þessari von, þessari trú, viljum vér öll leita styrks og
huggunar á þessari viðkvæmu stund. f þessari von, þessari
trú, kveðja ástvinirnir hinn látna eiginmann, föður og
bróður og afa og tengdaföður með heitri þökk fyrir allt.
í þessari von, þessari trú, kveðja vinirnir vininn sinn látna,
prestarnir biskup sinn, þjóðin ástsælan leiðtoga.
Og í þessari von, þessari trú, þessari björtu vissu, sem
hinn látni biskup nú hefir sjálfur reynt, kveður hann,
,,heimilisprýðin“, heimili sitt í hinzta sinn, þetta heimili,
þar sem hann lifði og átti sínar hugljúfustu stundir, kveður
eiginkonu sína og börn og barnabörn, systur, tengdafólk
og vini, nær og fjær, og þakkar allt hið liðna. Yfir þeim
kveðjum skal vera bjart og hlýtt. Engin orð, aðeins ljúf-
sár blær, sem vermir að innstu hjartarótum.
Sorgin og ástin hvísla: Það er svo sárt að geta ekki
framar gert neitt fyrir hann.
En trúin svarar: Sá, sem vér elskum, er aldrei misstur.
Hann lifir og heldur áfram að muna oss og elska. Enn
getum vér gert ótalmargt fyrir hann. Enn getum vér glatt
hann með því að starfa í hans anda, hlúa að og vernda
í annarra brjóstum og í eigin sál allt það, sem honum var
dýrmætast og helgast, og til þess hjálpi oss Guð og hans
heilaga orð.
Æðstur drottinn, faðir ljóss og lífs, blessi þessa stund,
blessi hann, sem hér er kvaddur með söknuði og trega,
en í trú og von, blessi eiginkonu hans og börn og ástvini
alla, blessi þetta heimili, sem nú drúpir í sorg, blessi allt
og alla, sem honum þykir vænt um, hina íslenzku kirkju
og íslenzku þjóð.
í Jesú nafni, Amen.