Gripla - 01.01.1982, Blaðsíða 121
MALUM NON VITATUR, NISI COGNITUM 117
spakmæla á síðari öldum, enda skortir mjög öruggar heimildir um sögu
þeirra. Þótt orðskviða af latneskum uppruna gæti töluvert í málshátta-
söfnum frá 20. öld, þá er ekki tækilegt að draga af því þá ályktun, að
þeir séu teknir af alþýðu vörum, enda kinoka safnendur og útgefendur
sér ekki við að láta setningar úr fornritum fljóta með.
Þegar gerðir suðrænna spakmæla í norrænum fornritum eru athug-
aðar, verður það eitt fyrsta viðfangsefnið að bera þau saman við fyrir-
myndina, og kemur þá í ljós, eins og vænta mátti, að þýðingar eru mjög
misvel heppnaðar; sumar eru nákvæmar, aðrar næsta lauslegar, og
stundum ber svo við, að þýðanda tekst að sameina glöggvan skilning á
latnesku fyrirmyndinni og svo frábæran málsmekk, að menn grunar
ekki annað en að þar sé um fornan norrænan málshátt að ræða. Prýði-
legt dæmi um góða íslenzka þýðingu á latneskum orðskvið er að finna
í Hrafnkels sögu, þar sem ‘Skömm er óhófs ævi’ nær ekki einungis
snilldarlega latnesku fyrirmyndinni immodicis brevis est ætas, heldur
eru hrynjandi, orðaval og stuðlasetning engu lakari en í innlendum
málsháttum. Eins og áður var drepið á, þá koma sumir orðskviðir af
latneskum toga fyrir í sundurleitum myndum, enda munu þeir hafa
verið þýddir oftar en einu sinni; í rauninni er slíkt ekki undarlegt um
setningar úr skólabókum og öðrum latínuritum, sem voru sílesin á
frummálinu af mörgum kynslóðum meistara, námspilta og klerka.
Hlutverk spakmæla í hinum betri Islendingasögum og raunar ýmsum
íornritum öðrum sýnir glögglega, að þar eru á ferðinni höfundar, sem
hlotið hafa þjálfun í að beita orðskviðum á áhrifamikinn hátt, enda
tíðkaðist fyrr á öldum að kenna slíka íþrótt í skólum. Spakmæli bera
því oft ótvírætt vitni um lærdóm höfundar. Yfirleitt beita sögurnar
lærðum málsháttum einkum í viðræðum og óbeinni ræðu, en hins vegar
fer ekki ýkja mikið fyrir þeim í sjálfri frásögninni. Nú er það einsætt,
að í hinum betri sögum er spakmælum beitt í þágu boðskaparins, enda
eru þau oft á tíðum lögð í munn þeim persónum, sem lesendur munu
einna helzt taka mark á. Með slíku móti tekst höfundum stundum að
koma fram mikilvægri hugsun á samanþjappaðan og áhrifamikinn hátt.
Þegar um er að ræða aðrar bókmenntir en sögur, getur enginn vafi
leikið á um hlutverkið, hvort sem um er að ræða fræðiljóð á borð við
Málsháttakvœði og Sólarljóð ella þá lög, málfræði og önnur verk, sem
beita spakmælum til skýringar. — Með þessar almennu athugasemdir
í huga skal nú horfið að viðfangsefni þessarar greinar, en hún er skráð
í því skyni að skýra norskan og íslenzkan feril tiltekins orðskviðar úr