Eimreiðin - 01.01.1955, Blaðsíða 20
8
VIÐ FYRSTU SÝN
EIMREIÐIN
Nokkuð var, að nú gekk pilturinn föstinn skrefum úr hlaði.
En stúlkan stóð eftir og þær báðar, því Anna hafði komið út
um leið og við gengum niður varpann. Fann ég, að félagi minn
hafði hækkað drjúgum hinar síðustu mínútur, virðulegur maður,
tekinn að vinna á, eins og hershöfðingi, sem tekinn er að vinna
á í orustu. Það er ekki að segja að hann gangi rösklega að,
hugsa ég. Og sannast að segja fann ég svolítið til þar, sem örin
fór gegnum hjartað.
Við litum báðir við hjá túnhliðinu. Systurnar standa báðar
enn á varpanum. Nú. Þar eru þær. Ljóshærð stúlka, meðalhá,
ein þessi, sem er eins og fólk er flest, eldri systir. Dökkhærð
mey, dimmhærð, réttvaxin, berfætt, með eld í æðum, segul-
mögnuð.
Svo veifuðum við öll, og þær hurfu okkur og við þeim, lik-
lega.
— Nú stýri ég, sagði ég dálítið bjóðandi, um leið og við opn-
uðum bílinn okkar. Ég kæri mig ekki um að láta aðdráttaraflið
setja okkur aftur beint á hausinn.
— Eru það nú mannalæti. Þú fékkst nú líka skot, sýndist
mér, anzaði hann talsvert yfirlætislega. Verst hvað það er bara
vonlítið fyrir þig.
—■ Sú ljóshærða verður farsælli, hélt ég áfram. Sannaðu til.
Hin er sýnd, en ekki gefin, sýnd veiði, en ekki gefin. Þær,
sem svona eru, vita aldrei, hvort þær eiga að játa eða neita.
Og svo gera þær hvort tveggja. Fyrst er já, svo er nei. Já í dag,
nei á morgun. Ég hefði ekki talið þorandi að yfirgefa staðinn.
Nóga á hún tilbiðjendurna. Einn gekk um hér áðan úr steypu-
verkinu, sýndist mér, og líklega frekar tveir en einn, jafnvel
þrír.
— Haltu þér saman, sagði Sumarliði.
En snögga blettinn hitti ég. Það leyndi sér ekki. Rénaði nú
yfirlæti þessa vinar mins eftir þetta, svo hann varð vel þolandi.
Dagarnir liðu í önn og erfiði. Jafnt og þétt fjarlægðumst við
bóndabæinn og heimasæturnar tvær, eins mikið og verða má
á einu eylandi.
Sannast að segja mundi ég ekki lengur eftir þeim nema máske
rétt einstaka sinnum.