Tímarit lögfræðinga - 20.11.1993, Blaðsíða 24
Það hefur að sjálfsögðu dregið úr áliti og virðingu lögfræðinga almennt
þegar starfandi lögfræðingar verða uppvísir að fjárdrætti og óheiðarleika
gagnvart skjólstæðingum sínum. Það hefur ekki aukið veg lögfræðistéttarinnar
þegar Hæstiréttur kemst í sviðsljósið vegna brennivínskaupa og það er ekki
til álitsauka fyrir lögfræðinga að dómarar draga mál sín á langinn eða
lögfræðingar kunna ekki stafrófið í málsmeðferð og málum er vísað frá vegna
mistaka eða teknískra yfirsjóna lögfræðinga.
En lögfræði og lögfræðingar njóta líka sannmælis fyrir góð störf og almennt
held ég að lögfræðingar séu frekar virtir fyrir það að að setja svip á þjóðlífið
og hasla sér víða völl. Lögfræðingar hafa löngum verið áhrifamenn í þjóð-
félaginu, bæði sem dómarar og starfandi lögmenn, sem og hinir, sem hafa
getið sér gott orð í öðrum stöðum. Lögfræði er talin mönnum til tekna.
Spurt er: hver er hin siðferðilega ímynd lögfræðinga í augum almennings?
Ég held að hún sé ekki mikil, einfaldlega af því að almenningur veltir þeirri
spurningu ekki fyrir sér. Almenningur hefur enga eina skoðun á lögfræðingum,
frekar en verkfræðingum eða sálfræðingum. ímynd lögfræðinga er upp og
niður og fer eftir einstaklingum geri ég ráð fyrir. Hún fer eftir þeim viðskipt-
um, málatilbúnaði og framkomu sem lögfræðingar hafa í frammi eða árangri
sem þeir ná. Ég hef álit á einum lögfræðingi frekar en öðrum og þess vegna
leita ég til þess manns. Þetta er afstætt eins og annað.
Aftur á móti er enginn vafi á því að almenningur gerir þær kröfur til
lögfræðinga að þeir séu siðgæðisverðir jafnt sem laganna verðir. Mörkin milli
siðferðis og lögfræði eru ekki alltaf skýr í hugum fólks, sem vill rugla þessu
tvennu saman, enda er vandlæting og réttlætiskennd manna oft sprottin af
reiði vegna verknaða sem teljast siðferðisbrot án tillits til þess hvort lög hafa
verið brotin. Þetta kannast lögfræðingar sjálfsagt vel við og þetta könnumst
við vel við, sem á fjölmiðlunum störfum. Þessu fann ég fyrir rneðan ég starfaði
sem alþingismaður. Siðferði er í eðli sínu subjektív. Það sem einum finnst að
fari yfir mörkin, finnst öðrum ekki. Menn hafa til dæmis mismunandi
siðferðismat á orðum og athöfnum stjórnmálamanna. Poul Schluter sagði af
sér sem forsætisráðherra Danmerkur fyrir nreint brot, sem ólíklegt er að teldist
stórmál á íslandi. Schluter braut ekki af sér í lagalegum skilningi. Afglöp
hans eða mistök flokkast undir siðferði í stjórnmálum og þar lítur hver sínum
augum á silfrið. Ég tek annað dæmi, sem er nærtækara viðstöddum. Hæsta-
réttardómari kaupir vínföng fyrir ómældar upphæðir á afsláttarkjörum án þess
að telja það athugavert út frá siðferðilegum sjónarhóli. Almenningsálitið var
hins vegar á annarri skoðun. Fólki var brugðið.
Ég vil nefna þriðja dæmið. Lögmaður er borinn þeim sökum að hafa ekki
gert skil á fjárreiðum sem honum hefur verið trúað fyrir af skjólstæðingi.
Lögmaðurinn leiðréttir mistök sín og telur málið þar með afgreitt. Almenn-
ingur telur þetta trúnaðarbrest. Lögmaðurinn heldur kannski réttindum sínum
en traustið er rýrt. Dómur almenningsálitsins er stundum nær siðferðinu heldur
en úrlausn dómstóla. Hverju er að treysta þegar lögfræðingar fara yfir
22