Tímarit lögfræðinga - 01.04.2001, Page 25
ríkjum er heimilt að rétta yfir manni án samþykkis annarra ríkja, s.s. þegnríkis
hans eða ríkis þar sem hin meinta refsinæma háttsemi átti sér stað (landfræði-
legt ríki). Almennt er talið að rætur þessarar þjóðréttarvenju megi leiða af áhrif-
um Niimberg-réttarhaldanna á þróun alþjóðlegs refsiréttar.31
Sum ríki lögðu áherslu á að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn ætti að hafa
allsherjarlögsögu eins og einstök þjóðríki væru talin hafa að þjóðarétti. Lagði
Þýskaland meðal annars fram formlega tillögu þess efnis á ofangreindum fund-
um undirbúningsnefndar Sameinuðu þjóðanna en náði hún ekki fram að ganga
einkum vegna andstöðu ríkja á borð við Bandaríki Norður-Ameríku, Frakkland
og Irak. I því skyni að reyna að öðlast samþykki Bandaríkjamanna var komið
til móts við óskir stórveldisins um að takmarkaðir yrðu möguleikar dómstóls-
ins á að láta mál til sín taka án þess að fyrir fram gefið samþykki hlutaðeigandi
ríkja lægi fyrir. Niðurstaða ríkjaráðstefnunnar í Róm var því sú að veita Alþjóð-
lega sakamáladómstólnum sjálfvirka lögsögu, sbr. ákvæði 12. gr. Rómarsam-
þykktarinnar, sem nánar verður lýst í kafla 4.3. Þrátt fyrir þetta töldu Banda-
ríkjamenn að Rómarsamþykktin gengi lengra en viðurkennd sjónarmið þjóða-
réttarins um fullveldi ríkja stæðu til og greiddu atkvæði gegn samþykktinni.
4.3 Grunnforsendur lögsöguvalds og beiting lögsögu
4.3.1 Túlkun 12. gr. Rómarsamþykktarinnar - sjónarmið Bandaríkjanna
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. Rómarsamþykktarinnar viðurkennir ríki, sem ger-
ist aðili að samþykktinni, lögsögu dómstólsins að því er varðar þá glæpi sem
um getur í 5. gr., þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn
friði, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. samþykktarinnar. Með þessu ákvæði er því lagður
grunnurinn að meginreglunni um sjálfvirka lögsögu. Felur hún nánar í sér að
dómstóllinn er ekki knúinn til þess að æskja samþykkis aðildarríkja í hverju til-
viki fyrir sig heldur leiðir það af aðildinni einni og sér að þau viðurkenna lög-
sögu dómstólsins í einstökum tilvikum að öðrum grunnskilyrðum uppfylltum.
Grunnforsendur fyrir því að lögsaga dómstólsins verði virk í einstöku máli
kemur fram í 2. mgr. 12 gr. I ákvæðinu er gert að skilyrði fyrir beitingu dóm-
stólsins á lögsögu sinni að annað hvort ríkið þar sem hin meinta refsinæma hátt-
semi átti sér stað (landfræðilegt ríki), sbr. a-lið 2. mgr. 12. gr., og/eða þegnríki
sakbomings, sbr. b-lið 2. mgr. 12. gr., eigi aðild að samþykktinni eða hafi við-
urkennt lögsögu dómstólsins með yfirlýsingu til dómritara samkvæmt 3. mgr.
12. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt þessu má a.m.k. draga þá ályktun af
ákvæði 12. gr., eins og ég hef reyndar vikið að hér að framan, að það felur ekki
í sér að dómstóllinn hafi allsherjarlögsögu í þeirri merkingu sem áður er nefnd.
31 Sjá hér nánar Jónatan Pórmundsson: „Grundvallaratriði alþjóðlegs refsiréttar". Afmælisrit
Úlfljóts, 50. árg. 1997, bls. 175.
19