Dvöl - 01.01.1946, Blaðsíða 10
8
DVÖL
— Sannleikurinn er sá, mælti Antoníó. Hún er bara of bíræfinn. Hún
blekkir alveg hræðilega.
— Ég líka, svaraði ég. Við ætlum að reyna með okkur einu sinni.
Við settumst út í horn og byrjuðum að spila. Patt stóð sig ekki sem
verst í pókernum. Hún blekkti eins og tryllingur. Eftir stundarkorn
benti Antoníó á gluggann. Það snjóaði. Hægt og sígandi féllu hunds-
lappirnar nærri lóðrétt til jarðar.
— Það er alveg stafalogn, sagði Antoníó. Þá kyngir snjónum niður.
— Hve langt getur Köster nú verið kominn? spurði Patt.
— Hann er þegar kominn yfir há-fjallið, sagði ég. Samtímis sá ég
greinilega fyrir mér, hvernig Köster baksaði gegnum hvíta nóttina, og
mér kom það svo kynlega fyrir sjónir, að ég skyldi sitja hér, Köster
vera einn á ferð þarna úti og Patt hjá mér. Hún brosti feginsamlega
við mér, studdi hendinni með spilunum við borðplötuna og sagði:
— Láttu út Robby!
Við gengum aftur í barinn og fengum okkur hressingu. Þá voru kom-
in háttumál fyrir Patt. Ég bauð henni góða nótt í skálanum. Síðan
gekk ég til skrifstofunnar að sækja herbergislykil minn.
— Númer sjötíu og átta, sagði skrifstofutátan og brosti. Það var við
hliðina á herbergi Patt.
Ég fór þangað og sá, að búið var að bera föggur mínar upp Hálftíma
síðar barði ég á millihurðina.
— Hver er þar? kallaði Patt.
— Siðferðisvörðurinn, svaraði ég.
Lyklinum var snúið og dyrnar opnuðust.
— Þú, Robby, stamaði Patt agndofa.
— Ójá. ég sjálfur, herbergisráðandinn og koníaks- og rommeigandinn,
sagði ég og dró flöskurnar upp úr vösunum á baðsloppnum mínum. Og
segið mér nú umsvifalaust, hve margir karlmenn hafa verið hérna hjá
yður.
— Enginn nema knattspyrnufiokkurinn og fílharmoníska orkestrið,
sagði Patt hlæjandi. Ó, elsku vinurinn, nú lifum við aftur liðna tíð.
Hún sofnaði á armi mínum. Ég lá lengi vakandi. f einu horninu log-
aði á lampakorni. Snjóflyksurnar snertu mjúklega við glugganum, og
tíminn virtist staðnaður í stálgráu húminu. Það var svækjuhiti í
herberginu. Patt rótaði sér í svefninum, og ábreiðurnar mjökuðust hægt