Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Side 10
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/200910
aðeins einum áratug, 1998–2007, fjölgaði fólki með erlent ríkisfang á Íslandi úr 2,1%
(5635 einstaklingar) í 6,0% (18563 einstaklingar) af heildarmannfjölda og á sama tíma
fjölgaði grunnskólabörnum með erlent móðurmál úr 1,8% í 4,0% eða úr 747 (af 42421)
í 1731 (af 43802) (Hagstofa Íslands, 2008). Þá eru ótaldir leikskólar, framhaldsskólar og
háskólar. Íslenskt nútímasamfélag er ekki aðeins meira þéttbýlissamfélag en annars
staðar eru dæmi um, það er líka fjölþjóðlegt samfélag.
Fjölbreytileikinn er öllum ljós og í aðalnámskrám er áhersla lögð á jafnrétti allra
barna og unglinga til náms og mennta, óháð andlegu eða líkamlegu atgervi, tilfinn-
ingalegu ásigkomulagi, málþroska, búsetu, uppruna, litarhætti eða menningu (Sjá t.d.
Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti, 2006). Það hvernig fylgja skuli þessum fyr-
irmælum er annað mál.
Það er einmitt fjölbreytileikinn og það hvernig unnt sé að bregðast við honum sem
er kveikja og að hluta til meginviðfangsefni þessarar greinar. Álit mitt er að allt of
lítil umræða hafi farið fram meðal skólamanna um það hvernig bregðast beri við því
búsetu- og skólaumhverfi sem þróast hefur á síðustu árum og áratugum. Fólki hefur
fækkað á stórum landssvæðum, fjöldi sem hlutfall barna og unglinga hefur víða hrap-
að og skólum verið lokað eða þeir sameinaðir öðrum vegna fámennis. Sameining-
arviðræður sveitarfélaga snúast gjarnan um framtíðarskipan þessara grunnstofnana í
tilveru hvers samfélags. Við slíkar aðstæður reynist oft erfitt að verða við kröfum um
raunverulegt jafnræði til menntunar, hvort heldur á ytra byrði í umgjörð og aðbúnaði,
ellegar í innra starfi skóla og framsetningu námsefnis.
Umræðuefnið hér snertir marga fleti þessa viðfangs: Hvað liggur að baki ætlaðri
samvitund Íslendinga sem þjóðar og hvað nærir þá samvitund sem dafnar meðal
smærri eininga innan sömu heildar? Er samvitund okkar fyrst og fremst menning-
arleg, eða pólitísk, hvílir hún á skýrri sýn til heimahaga og/eða á öflugri umhverf-
isvitund? Eða öllu þessu í einhverjum hlutföllum og kannski fleiru til? Þetta eru stórar
spurningar og mikill vandi liggur í því að aðferðir til þess að fást við þær eru lítt
þroskaðar hérlendis. Þess vegna mun ég verja drjúgu rými í að kynna megindrætti úr
innlendri og erlendri umræðu, einkum meðal sagnfræðinga, félagsfræðinga og mann-
fræðinga, með það að markmiði að leita greiningartækja sem duga kunna á þetta rann-
sóknarsvið íslensks samfélags. Rýmisins vegna verður viðfangsefnið að takmörkuðu
leyti um fjölþjóðleikann í samfélagi okkar (það viðfang verður einfaldlega að bíða þótt
hugmyndafræðin sé meðal annars þangað sótt), heldur er það frekar viðbragð við nú-
verandi búsetuumhverfi landsmanna.
Eftirfarandi grein er þannig ætlað að veita yfirlit um ákveðið svið í hugmyndafræði-
legri umræðu síðustu ára um leið og hún er rökstuðningur við tiltekna framsetningu
á hugtökum sem ég tel að geti dugað vel við áframhaldandi rannsóknir á samvitund
Íslendinga sem þjóðar og/eða samvitund þeirra sem byggja sama svæði, til dæmis
hérað. Hugtökin sem umræðan snýst um eru sjálfsvitund og samvitund, söguvitund,
grenndarvitund og umhverfisvitund. Byrjum á örstuttri kynningu á hverju um sig.
Rannsóknir á sjálfsvitund og samvitund einstaklinga, hópa fólks og heilla þjóða hafa
staðið lengi og eru um margt afsprengi líflegrar umræðu um þjóðarvitund og þjóðern-
isstefnu. Hugtakið vitund er notað í mörgum fræðigreinum og á nokkuð mismunandi
hátt. Rúmsins vegna er ekki unnt að sinna allri þeirri breidd sem þar er á ferð, svo sem
landið er eitt – samfélagið er breitt/breytt