Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Blaðsíða 19
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/2009 19
Nokkrum árum síðar sagði Hall „að samvitundir snúist í raun um að nota efnivið
máls, menningar og sögu í ferli sem felst í því að verða frekar en að vera. Þær snúast
þannig ekki um „hver við erum“ eða „hvaðan við komum“ heldur frekar um hvað við
getum orðið, í hvaða ljósi við höfum verið sýnd og hvernig það tengist því í hvaða ljósi
við sýnum okkur sjálf“ (Hall, 1996a, bls. 4).7
Þetta er að mörgu leyti spennandi sjónarhorn en dæmin sem Stuart Hall tekur til
þess að styðja mál sitt byggja öll á sögu afrískra blökkumanna er teknir voru nauðugir
í Afríku, fluttir vestur um haf og seldir þar til vinnu á plantekrum. Í Afríku kom þetta
fólk úr ólíkum ættbálkum, frá ólíkum þorpum, hafði mismunandi guði og tungumál.
Þrælahaldið varð til að sameina það, draga fram sameiginlega þætti í afrískri sögu og
menningu. Þess vegna, segir Hall, getur verið skynsamlegt að líta svo á að samvitund
karabískra blökkumanna hafi myndast milli tveggja póla. Annars vegar er póll sem
dregur fram samkenni og samfellu, hins vegar er póll mismunar og rofs (rupture).
Þessar hugmyndir hafa fræðimenn útfært á marga vegu og meðal annars bent á að
ástæðulaust sé að einangra þær við aðstæður þess fólks sem Hall fjallar um (Gross-
berg, 1996).
Það er freistandi að hafa hugmyndir Stuarts Hall í bakhöndinni við athugun á sam-
vitund mismunandi þjóðfélagshópa í íslensku samfélagi. Auðvitað eru andstæðurnar
ekkert í námunda við það sem Hall lýsir um afríska forvera sína en með hæfilegri
einföldun er auðvelt að sjá ákveðna samlíkingu. Annars vegar er það sem sameinar
Íslendinga um það að vera Íslendingar, það sem skapar þjóðarvitund þeirra. Hins
vegar er það sem greinir landsmenn að og myndar um leið samvitund einstakra hópa
þeirra. Það má auðveldlega fella rannsókn Sigríðar Matthíasdóttur á kyngervi undir
þetta líkan, sama má væntanlega segja um íbúa af ólíkum þjóðernisuppruna og ef til
vill íbúa mismunandi byggða. Á því skortir rannsóknir enn.
Manuel Castells, katalónskur prófessor í félagsfræði, er annar áhrifamikill höfundur
sem lagt hefur margt af mörkum til rannsókna og skilgreiningar á sjálfsvitund og sam-
vitund. Hann leggur áherslu á muninn á þeim hlutverkum er einstaklingurinn tekst
á hendur eða samfélagið fær honum og þeirri sjálfsvitund sem viðkomandi þroskar
með sér. Hlutverkin (móðir, nágranni, o.s.frv.) mótast af siðum, venjum og reglum
samfélagsins, þau krefjast ákveðinna athafna af viðkomandi aðila. Sjálfsvitundin er
hins vegar merkingin sem að baki er þótt auðvitað sé sífelld víxlverkun þarna á milli.
Móðurhlutverkið er hægt að inna af hendi með ýmsu móti en áhrif þess á hugsun og
sjálfsvitund móðurinnar eru mun djúpstæðari (Castells, 1997).
Castells hefur meiri áhuga á samvitund en sjálfsvitund einstaklinga og hann er
þeirrar skoðunar að samvitundin eigi sér þrenns konar form og rætur:
Í fyrsta lagi er samvitund sem byggir á ráðandi viðhorfum, lögum og reglum. •
Valdaaðilar á hverjum tíma móta samfélag sitt og stofnanir þess búa lífinu ákveð-
inn farveg. Þeirra á meðal má nefna löggjafarstofnanir, trúarstofnanir, verkalýðs-
bragi gUðmUndsson
7 Á frummálinu: „identities are about questions of using the resources of history, language and cult-
ure in the process of becoming rather than being; not ‘who we are’ or ‘where we came from’ so
much as what we might become, how we have been represented and how that bears on how we
might represent ourselves.“