Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Síða 28
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/200928
landið er eitt – samfélagið er breitt/breytt
til eru þau verðmæti, sem ekki verða metin til fjár og eru það þó þau, sem gefa mann-
legu lífi innihald og meiningu… . Það er stundum hægt að bæta tjón af fjármálalegum
eða pólitískum afglöpum, en fordjarfanir á náttúrumenjum eru í flokki þeirra afglapa,
sem ekki verða bætt (Sigurður Þórarinsson, 1950, bls. 11).
Orð Sigurðar hlutu lítinn hljómgrunn fyrst í stað og það var líklega ekki fyrr en með
Laxárdeilunni um 1970 sem ákveðin hvörf urðu í hugsun almennings. Þá var tekist
á um gerð uppistöðulóns í Laxárdal og áveitna á heiðum uppi. Þessi virkjanaáform
mættu mikilli andspyrnu og með samkomulagi árið 1973 var fallið frá framkvæmd-
unum. Þarna tókust á ólíkir hagsmunir og sjónarmið og inn í umræðuna kom ný vídd,
krafan um að vernda náttúruna hennar sjálfrar vegna en ekki vegna beinna hagsmuna
mannanna.
Nokkrum árum síðar fylgdi Halldór Laxness rithöfundur lítilli bók Kjartans Júlí-
ussonar, bónda á Skáldsstöðum í Eyjafirði, úr hlaði með eftirfarandi orðum:
Alt frammá nítjándu öld þóttu íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að
Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatnssveitin með fjallahríng sínum
og vatni viðurstyggilegt pláss. … Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur
kær og kendi Jónasi Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna
þeim í ljóði (Halldór Laxness, 1978, bls. 5).
Ósagt skal hvort lýsing skáldsins á afstöðu landsmanna til fjallanna hafi verið á einn
veg fyrir daga rómantíkurinnar en víst er að þau voru örðugur farartálmi, þau drógu
búfénaðinn til sín að sumarlagi og þau voru firnafrek á skófatnað þeirra sem um
fóru.
Mér er það sterkt í minni hvernig faðir minn (fæddur 1910) lagði nytjamat á um-
hverfi sitt. Í hans augum var fegurðin fólgin í grasi. Þar sem gott var undir bú, auðvelt
að brjóta land til ræktunar og nytja það, þar var fallegt. Grjót var í hans augum fyrst
og síðast grjót. Það gat vissulega verið fallegt á sinn hátt en miklu fremur var það til
trafala við reglubundin bústörf. Þess vegna þóttu honum grösugir dalir og víðlend-
ar heiðar Húnavatnssýslu miklu fegurri en eldbrunninn Reykjanesskaginn eða und-
irlendislitlir Vestfirðir. Umhverfisvitund hans var nytjavitund og innan hennar þurfti
fegurðarskynið að rúmast.
Umhverfismál hafa rutt sér rækilega til rúms í allri samfélagsumræðu síðustu
áratuga. Manuel Castells gengur svo langt að segja málflutning og baráttu umhverf-
isverndarfólks hafa leitt til nýrrar samvitundar, líffræðilegrar samvitundar, þar sem
áhersla er á fjölbreytileika vistkerfisins og eðlilega samvist mannsins með öðrum teg-
undum. Mikilvægt sé að þessi samvitund eigi sem besta samleið með menningarlegri
og sögulegri samvitund, en lendi ekki í andstöðu við hana (Castells, 1997). Ef þessi
greining Castells er rétt er trúlegt að iðnvæðingu og borgamyndun nútímans hafi fylgt
firring gagnvart umhverfi og náttúru, samhengið sem veiðimönnum og bændum var
ljóst um aldir og árþúsundir hafi glatast, en sé óðum að renna upp fyrir nútímamann-
inum. Um það skal ekki dæmt en umhverfisvitund er einn af hornsteinum sjálfsskynj-
unar mannsins og samvitundar hans með öðru fólki. Þar gildir einu hvort liggur að