Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Síða 53
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/2009 53
kolbrÚn Þ. pálsdóttir
heimila (Hviid, 1999; Johansson og Ljusberg, 2004; Raymond og Schoug Larsen, 2002).
Börn sem glíma við einbeitingarskort, eru greind með athyglisbrest eða eiga erfitt með
að uppfylla námskröfur höndla oft illa langan skóladag, en njóta sín oft ákaflega vel
þegar kemur að frístundum (Hviid, 1999; Raymond og Schoug Larsen, 2002). Því er
mikilvægt að horft sé til þess sem vel gengur í frístundastarfi, að hugmyndafræði tóm-
stundafræðinnar sé nýtt í skólastarfinu í meira mæli en nú er gert, til að styrkja stöðu
þessara barna. Aukið samstarf skóla og frístundaheimila er einungis af hinu góða og
ætti að miða að því að efla alhliða þroska hvers barns, vellíðan þess og árangur í
leik og starfi. Víða á Norðurlöndum skoða menn hvernig skóli, leikskóli og frístunda-
heimili geti sem best staðið saman að móttöku og aðlögun yngstu nemendanna (sjá
t.d. Broström, 2001; Kärrby, 2000). Margt er sameiginlegt með starfsemi leikskóla og
frístundaheimila og geta frístundaheimilin verið mikilvægur þáttur í því að tengja
betur saman leikskólann og grunnskólann. Leita þarf leiða til að rannsaka viðhorf og
reynslu skólabarna af vinnudegi sínum, enda hafa fræðimenn í auknum mæli áttað
sig á því að börn búi yfir mikilvægri þekkingu og viðhorfum sem best sé að nálgast
með því að ræða við þau sjálf. Væntingar leikskólabarna til grunnskólans hafa verið
rannsakaðar (Broström, 2001; Jóhanna Einarsdóttir, 2007). Niðurstöður gefa til kynna
að almennt hafi leikskólabörn mjög skýrar hugmyndir um hvað gerist í grunnskól-
anum. Flest telja þau sig eiga miklar breytingar í vændum, að í skólann séu þau komin
„til að vinna og læra en ekki leika sér eins og í leikskólanum“ (Jóhanna Einarsdóttir,
2007, bls. 136). Frístundaheimilið getur því hjálpað barninu að fóta sig á nýjum stað
með „gamalkunnum“ leiksvæðum og hópastarfi.
niðurstöður og umræða
Engar íslenskar rannsóknir eru til á starfsemi frístundaheimila, gildi starfseminnar og
framkvæmd. Helstu niðurstöður þessarar greinar eru að frístundaheimilin í Reykja-
vík eigi sér eilítið undarlega og brotakennda sögu í samfélaginu. Þau hefur rekið á
milli skipulagseininga og í raun orðið útundan í kerfinu. Sé litið til þróunar löggjafar
virðist sem frístundaheimili séu ekki álitin uppeldis- og menntastofnanir, heldur fyrst
og fremst vistunar- og gæsluúrræði fyrir foreldra. Upphaflega voru skóladagheimili,
sem eru fyrirrennarar frístundaheimilanna, flokkuð sem dagvistarstofnanir og undir
faglegri forystu fóstra. Að sumu leyti var staða þeirra skýrust á þeim tíma, þau voru
jafnframt rekin á grundvelli lagaheimildar og markmið þeirra tilgreint. Ólíkt leikskól-
unum hafa frístundaheimilin einangrast í kerfinu, þau falla ekki undir sérstaka lög-
gjöf og ekki eru til reglugerðir um framkvæmd starfsins, markmið og ramma. Fátt
ýtir undir fagþróun starfsins, þrátt fyrir góðan vilja þeirra sem sinna starfinu, þ.e.
starfsmanna og stjórnenda ÍTR; skortur er á fagmenntuðu starfsfólki og á viðunandi
vinnuaðstöðu barna og starfsmanna. Þörf er á skýrri uppeldissýn frístundaheimila og
efla þarf samstarf við grunnskólann.
Sívaxandi kröfur hafa verið gerðar til grunnskólanna af ráðamönnum, foreldrum
og ekki síst kennurum sem eru iðnir við að tileinka sér nýja kennsluhætti og strauma
utan úr heimi til að bæta kennsluna og starfsandann í skólunum. Skóli án aðgrein-