Morgunn - 01.12.1957, Blaðsíða 16
102
MORGUNN
Hólmgöngumenn, sem bera báðar hendur blóðugar til
axla, og sigurvegarar á orustuvöllum, þekkja ekki „rödd
guðsins“ í hugskotinu, eða ef á henni bólar, reka þeir hana
í útlegð. Napóleon mikli glúpnaði þó, þegar hann hafði
beðið úrslitaósigur, hnepptur í varðhald, sævi girt. Þá
studdi hann hönd undir kinn og hallaðist að „guðdómi
frelsarans“. En sú varajátning getur ekki bætt úr því
óskapa böli, sem hann varð valdur að og bakaði mönnum
og málleysingjum aldurtila. Morðvargar, eiðrofar og grið-
níðingar munu síðla staðnæmast á himinangandi blóma-
beðum.
Sókrates sat hugreifur í sínu fangelsi, iðraðist hvorki
orða né verka, því að hann hafði ástundað réttlæti alla
ævi og hjálpsamlegar kenningar. Hann átti „góða heim-
von“ eins og meistari Jón, 2000 árum síðar. Þó voru þeir
næsta ólíkir. Sókrates treysti réttlæti sjálfs sín, en meist-
ari Jón Guðs náð og fórninni, sem sonur hans færði fram
til sáluhjálpar þeim, sem hlýddu hans raust og vildu
þiggja hjálpræðið. Sú spekiró og jafnvægisframganga,
sem Sókrates hafði til brunns að bera á lífsleiðinni, í
hólmgöngunni við áfellisdóminn, í röksemdafærslu sinni
í fangelsinu, í viðræðum við vini sína, og að lokum þegar
hann tekur við eiturbikarnum og bergir banadrykkinn, —-
sýnir og sannar, að „rödd guðsins" í hugskotinu hefir ekki
orðið til að tilstuðlan skynvillu og hugarburðar.
Hitt er líklegt, að menn, sem eru á valdi hugaróra, trúar-
kreddu eða þjóðmálaofstækis, verði svo af göflum gengn-
ir, að þeir heyri raddir, sem eru bergmál þeirra eigin
ákafa. Það getur orðið fullvissa, sem menn óska heitt að
verði. T. d. a. t.: menn, sem trúðu statt og stöðugt að
huldufólk byggi í hömrum og klettum, sáu og jafnvel
þreifuðu á huldukonum. En þá munu þeir hafa orðið fyrir
sjónhverfingum og skynvillum. Þessháttar skynhverfing
er og heitir sjálfsblekking. Hún getur tekið sér bólfestu
í hugskotinu eigi síður en utan við skilningarvit. Mögu-
leikar mannshugans eru óteljandi.
■o-