19. júní


19. júní - 19.06.1981, Page 4

19. júní - 19.06.1981, Page 4
Frá ritstjóra Er 19. júní kemur fyrir augu lesenda að þessu sinni hefur Vigdís Finnbogadóttir setið á forseta- stóli í tæpt ár. Sá áfangi sem fólst í kjöri hennar er fagnaðarefni öllum þeim sem láta sig jafnréttis- mál einhverju skipta. Komið hefur fram í fjöl- miðlum víða um heim að það hefur ekki aðeins vakið athygli á landi og þjóð heldur einnig örvað alla umræðu um stöðu kvenna og þannig orðið lyftistöng fyrir jafnréttisbaráttuna. Hér á landi er enginn vafi á að kjör konu til æðsta embættis landsins mun til lengdar hafa þau áhrif að breyta ímynd kvenþjóðarinnar í eigin augum og það mun ótvírætt teljast þýðingarmesti sigurinn þegar fram í sækir. Að þessu sinni er aðalefni blaðsins helgað menntun kvenna. Mennt er máttur segir gamalt orðtæki og víst eru það orð að sönnu. Frá alda öðli hefur þekking verið lykill að völdum og áhrifum og það eru ófáar þjóðsögur og goðsagnir sem greina frá eilífri leit mannsins að brunni visk- unnar ýmist til góðs eða ills, en ævinlega í von um aukinn mátt á einn eða annan hátt. Líkt og vitræn og andleg þekking hefur veitt aðgang að virðingu og völdum hefur verkkunn- átta ætíð verið forsenda veraldlegra framfara og velmegunar. Bæði fyrr og nú hafa þeir sem bjuggu yfir verkmenntun átt greiðari leið til auð- sköpunar en aðrir. Þessar tvær hliðar menntunar, hin bóklega og hin verklega, eru þær leiðir er opna mönnum hliðin tíl fjölbreyttrar þátttöku í störfum þjóðfé- lagsins, sjálfum sér og samfélaginu til góðs. Þessi hlið voru lengst af lokuð konum því að þær höfðu enga möguleika á að afla sér þeirrar formlegu menntunar sem til þurfti. Með vakningu lýðræð- ishugmynda og almennri eflingu menntunar á 19. öld fóru konur smám saman að gera sér grein fyrir gildi menntunar, stofna sína eigin skóla og krefjast inngöngu í þá sem fyrir voru. Er konur hófu formlega skólagöngu fyrir alvöru upp úr síðustu aldamótum beindu þær áhuga sínum fyrst og fremst að bóklega sviðinu, enda lítið um aðra skóla í landinu. Það tók meira en hálfa öld að ná jöfnuði kvenna og karla í menntaskólanámi, svo dæmi sé tekið, en nú mun svo komið að í sumum menntaskólum eru stúlkur fleiri en piltar. Þó virðist val námsleiða ennþá mjög svo kynbundið. Hvað varðar háskólanám hefur þróunin verið mun hægari, en síðastliðinn áratug hefur þó orðið allt að því bylting frá því sem áður var. Konur eru nú 40% þeirra sem stunda nám og ljúka prófum frá Háskóla íslands og hefur fjölgað í öllum deildum. Sé hins vegar hugað að verklegri starfsmennt- un er öllu svartara um að litast. Þar hefur námsval kvenna einskorðast við sárafá „kvennastörf“. Þó er ánægjulegt til þess að vita að konur eru nú farnar að leggja ótrauðar inn á ný námssvið sem til þessa hafa verið konum sem lokuð bók. Enn sem komið er eru þær þó undantekning frá regl- unni. Staðreyndir sem þessar sýna okkur svart á hvítu hvernig menntun kvenna verður sífellt fjölbreyttari og fullkomnari og ættu því að vekja með okkur nokkra bjartsýni um þróun jafnréttis- mála á næstu áratugum. Því er þó ekki að neita að fjöldi þeirra kvenna sem alls enga starfsmenntun hafa er ískyggilega hár í samanburði við karla, ef marka má niðurstöður könnunar sem greint er frá á bls. 36. Það vekur svo ugg um að bilið milli menntaðra kvenna og ómenntaðra muni fara breikkandi meðan karlmenn verða sífellt betur menntaðir og þar með einir um að stýra þeirri tæknibyltingu sem í vændum er. Er þá hætt við að seint verði komið á þeim jöfnuði til starfa og áhrifa sem jafnréttissinna dreymir um. Vonandi tekst að afstýra þessari uggvænlegu þróun áður en það er um seinan og víðtæk full- orðinsfræðsla er e. t. v. það tæki sem binda má vonir við í þeim tilgangi. Víst er að enn sem fyrr liggur leiðin til jafnréttis aðeins um eina slóð — aukna menntun. Jónína Margrét Guðnadóttir.

x

19. júní

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.